Kannast þú við bók sem kom út fyrir nokkrum árum og bar heitið He’s just not that into you? Bók sem sló rækilega í gegn á sínum tíma og rauk út eins og heitar lummur.
Þessi margumrædda bók er skrifuð af tveimur skríbentum sem stóðu á bak við handritagerð að þáttunum Beðmál í borginni.
Titillinn ‘He´s just not that into you? er fengin úr einni senu úr þáttunum þar sem Miranda var eitthvað að velta því fyrir sér af hverju áhugamálið hennar hringdi ekki í hana. Þá gall í Berger (fyrrverandi kærasta Carrie) “He’s just not that into you”!
Restin af þættinum fór svo í að útlista þessa rosalegu opinberun Bergers, að þegar karlmaður hringir ekki í konu, þá er það einfaldlega vegna þess að hann er ekki nógu hrifinn af henni.
Afneitun
Það er svolítið merkilegt en konur virðast vera þannig skrúfaðar saman að þeim finnst fátt óhuggulegra í heiminum en að vera hafnað af karlmanni sem þær hafa sýnt áhuga. Af þessari ástæðu gera þær allt sem mögulega í þeirra valdi stendur til þess að afsaka þá einföldu staðreynd að maðurinn er ekki nógu hrifinn.
Eeennnndddalaust er hægt að túlka það að hann hringir ekki og sjóða upp afsakanir eins og til dæmis; Hann er bara nýkominn úr erfiðu sambandi…. Það er svo mikið að gera í vinnunni hjá honum…. Hann á ekki inneign…Hann er bara svo lokaður… og svo mætti lengi telja. Allskonar fáránlegar afsakanir til þess að breiða yfir þá einföldu ísköldu staðreynd að HANN HEFUR BARA EKKI ÁHUGA Á ÞÉR!
Tímasóun
Hugsa sér hversu mikill tími og orka myndu sparast ef við hefðum ekki þennan tendens til að hanga yfir mönnum sem hafa ekki áhuga. Hugsa sér ef einu mennirnir sem við ættum í rómantískum samskiptum við væru menn sem hefðu virkilega áhuga á okkur!
Menn sem dýrkuðu okkur og dásömuðu. Menn sem hefðu kannski haft fyrir því að kynnast okkur. Eins og hanar sem blása sig alla upp til að ganga í augun á hænum. Og eftir að þeir hefðu fengið þetta góðfúslega leyfi til að fara með okkur í bíó, þá myndu þeir byrja að láta okkur vita hvað þeim þætti húðin falleg, augun blá, hárið mjúkt, lyktin góð, rassinn sætur, hugurinn klókur og hjartað djúpt.
Líkt og karlar hafa gaman af því að eltast við konur, þá hafa konur almennt óskaplega gaman af því að láta dást að sér. Húsmæður og háskólakennarar jafnt og fatafellur og fyrirsætur vilja allar að mennirnir í lífi þeirra séu góðir við þær og finnist þær laglegar. Við viljum allar fá að vita þetta reglulega, á smekklegan hátt, af mönnum sem okkur þykir eitthvað til koma og það er félagsvísindalega sannað að það gerist ekki ef við förum í eltingaleik.
Hvað er til ráða?
Kvenkyns höfundur bókarinnar, Liz Tuccillo, heldur því fram að í hvert sinn sem hún hafi átt frumkvæðið við karlmann þannig að það leiddi til sambands (eða einhverju í þá áttina) hafi sambandið á endanum alltaf endað í vitleysu. Og hún segir að þrátt fyrir háfleygar feminískar yfirlýsingar um jafnan rétt kynjanna til alls og allt það, þá eigi það að vera þeir sem hafa frumkvæðið við okkur. Því miður, fyrir kontrólfrík og feminista þessa heims, þá er það víst einfaldlega okkar verkefni að vera að vera hressar, sáttar við sjálfar okkur og krúttlegar (enda erum við sáttar við sjálfar okkur þegar við erum sætar og krúttlegar ekki satt?)
Ég verð að fá að skjóta þig… með ástar örvum…
Báðir höfundarnir eru alveg á því að það liggi í eðli karlmannsins að vilja fá að veiða konur. Eltast við þær þar til þær láta undan og eru til í að koma að gera eitthvað skemmtilegt. Út að leika eða heim í sleik. Liz heldur því svo fram að í því að láta eltast við sig sé falið mikið meira vald heldur en nokkurn tíma að vera sú sem er í því að eltast við menn. Karlar bera víst ekki neitt sérlega mikla virðingu fyrir því þegar konur fara að eltast við þá. Þeir vilja þurfa að hafa fyrir þessu. Allavega eitthvað svolítið. Ekki þannig að þetta verði eitthvað eilífðarverkefni, en ef stelpa er það sem þeir kalla “auðveld” þá hrapar hún víst eitthvað niður virðingarstigann. Það er ekki auðvelt að skilja þetta, en svona er þetta víst í karlamenningunni. Karlmenn eru óskiljanlegir í einfaldleika sínum. Eða hvað? Grípum hér niður í fyrsta kafla bókarinnar:
Hann er ekki nógu hrifinn af þér ef hann reynir ekkert við þig… Vegna þess að ef hann er hrifinn þá máttu treysta því að hann á ekki eftir að hanga heima og bíða eftir því að þú hringir.
Karlmenn fá kikk út úr því að fá það sem þeir vilja og ef hann vill þig þá er bókað að hann á eftir að njóta þess að fá þig. Það að hann sé feiminn eða eitthvað í þá áttina á ekki við þegar það kemur að því að nálgast konu sem hann langar að eiga eitthvað meira en eina nótt með.
“Kannski er hann hræddur við að skemma vinskapinn”
Nei! Karlmönnum er slétt sama um vinskapinn ef þeir verða hrifnir af konum. Kommon. Skemma vinskapinn? Hverjum er ekki sama um að “skemma vinskapinn” ef hann verður ástfanginn. Ef þú ert allt í einu orðin sjúk í að renna höndunum yfir rassinn á vini þínum og finnur að hann langar líka að strjúka þinn það sem eftir er af þessu ári og langt fram á það næsta þá er ekkert að hemja ykkur. Eina ástæðan fyrir því að þessi afsökun er notuð er sú að það er verið að afsaka eitthvað. Eitthvað sem er ekki fyrir hendi.
“Kannski vill hann bara taka því rólega”
Ef karlmaður er hrifinn af þér. Virkilega hrifinn, en hefur ekki tíma eða af einhverjum ástæðum getur ekki farið út í samband við þig að svo stöddu, þá mun hann ekki hika við að láta þig vita af því hvernig landið liggur. Ef hann hringir bara í þig til að spjalla og ekkert mikið meira en það, leggur aldrei til að þið hittist eða neitt, þá er hann greinilega ekki að leitast eftir sambandi við þig. Hverjar sem aðstæður hans eru, þá er það ekki þitt verk að fara að skilgreina þær sem svo að hann sé að reyna að fara hægt út í sambandið. Hann sýnir áhuga sinn með því sem hann gerir. Og að hringja til að eiga við þig eitthvað tjatt til að drepa tímann er ekki það sama og að sýna vilja til að eiga með þér samband.
“Ég nenni bara ekki að leika einhverja leiki”
Þú ert kannski þessi týpa sem segist ekki nenna að leika einhverja leiki og vera með vesen. Hringir bara í gaurinn ef þér lýst á hann og reynir við hann af því þú nennir ekki að standa í leikjum. Langar ekki að vera gamaldags. Finnst það bara rugl og vitleysa. Er ekki árið 2021?
Jú, það er árið 2021 og það er ekki alltaf sniðugt að vera í leikjum, en þegar það kemur að frumhvötum mannsins, þá ert þú ekkert endilega sú útvalda til að breyta þeim. Jafnvel þó það sé árið 2021. Þú mátt reyna en niðurstaðan verður eflaust bara áframhaldandi bömmer í karlamálum fyrir þig. Og ástæðan? Hún er óþolandi en reynslan hefur sýnt að þetta er vandamál um allann heim. Flestir vilja upplifa stjórn með því að hafa samband að fyrra bragði, nema kannski þessir lötu sem nenna ekki að hafa fyrir því að vera með kvenmanni og langar þig í letingja fyrir kærasta?
Það sem þú átt að hafa lært eftir lesturinn:
Afsökun er tilraun til að hafna þér á kurteisan hátt. Karlmenn eru ekki hræddir við að “skemma vinskapinn”
- Ekki láta plata þig til að fara að reyna við hann. Ef hann er skotinn í þér, þá reynir hann við þig.
- Ef þú finnur hann ekki, þá finnur hann þig. Ef hann langar til að finna þig þá gerir hann það.
- Bara af því þig langar til að vera leikstjórinn þá þýðir það ekki endilega að hann sé til í að leika. Sumar hefðir eiga uppruna sinn í náttúrulögmálunum og hafa staðist tímans tönn vegna þess að það er ástæða fyrir því.
- Strákar gleyma því ekki hvað þeim finnst þú æðisleg, svo leggðu símann frá þér og hættu við að hringja.
- Þú ert alveg nógu góð/sæt/æðisleg til að einhver taki upp á því að reyna við þig.
Og það má læra meira. Næstu kaflar á eftir í bókinni bera titla eins og til dæmis:
Hann er ekki nógu hrifinn af þér ef hann hringir ekki í þig -Karlmenn kunna á síma!
Hann er ekki nógu hrifinn af þér ef hann er ekki að stunda kynlíf með þér. -Karlmaður sem er hrifinn af þér vill koma við þig daginn út og inn, út og inn, út og inn…
Hann er ekki nógu hrifinn af þér ef hann stundar kynlíf með öðrum en þér -Það er ekki til réttlætanleg afsökun fyrir framhjáhaldi.
Hann er ekki nógu hrifinn af þér ef hann vill bara hitta þig þegar hann er fullur. -Ef hann er hrifinn af þér þá mun hann vilja hitta þig þegar dómgreindin er í góðu lagi.
Hann er ekki nógu hrifinn af þér ef hann er að segja þér upp. „Mig langar ekki til að vera í þessu sambandi lengur” þýðir nákvæmlega “Mig langar ekki til að vera í þessu sambandi lengur”.
Hann er ekki nógu hrifinn af þér ef hann gufar upp og hefur allt í einu ekkert samband, sést ekki og lætur ekki í sér heyra eða af sér frétta. -Stundum þarftu að upplifa sambandsslitin, ein heima.
Hann er ekki nógu hrifinn af þér ef hann er giftur eða í öðru sambandi -Ef þú getur ekki fengið að elska óheft, þá ertu í raun ekki að elska.
Hann er ekki nógu hrifinn af þér ef hann er sjálfselskur fábjáni, fyllibytta eða bara vandræðagemsi -En hann er svo góður strákur innst inni… er afsökun sem þú getur gleymt ef hann er ekki að vinna í því að gera þig hamingjusama.
Já mín kæra. Ef þú sérð sjálfa þig í þessum umfjöllunarefnum þá er um að gera að endurskoða stöðuna. Hækka standardinn. Hætta þessu rugli.
Til hvers að vera að sóa ást sinni og tíma í einhvern sem vill ekkert með þig hafa?
Til hvers að leggjast lágt?
Til hvers að sætta sig við eitthvað sem maður vill kannski ekki eftir allt saman, bara til þess eins að vera ekki hafnað?
Af hverju ekki frekar að nota tímann í sjálfa sig? Gera sig sæta og æðislega. Líða vel í stað þess að hringla með náttúrulögmálin og hringja sjálf í menn sem langar ekki til að hringja til baka. Til hvers að bíða eftir skilaboðum? Til hvers að stressa sig á þessu?
Ef hann er hrifinn, þá hringir hann. Ef ekki. Þá missir hann af þér. Vont fyrir hann. Gott fyrir þig því þú vilt ekki vera með manni sem… Er bara ekki nógu hrifinn af þér. Ekki hefurðu tíma til að standa í þessu fram á eftirlaunaaldur? Nei.
Hingað og ekki lengra!
”And you see me..somebody new,
I’m not that chained up little person still in love with you
And so you felt like dropping in and just expect me to be free
But now I’m saving all my loving for someone who’s loving me…”
Gloria Gaynor úr laginu I will survive
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.