Vinkona mín skildi við manninn sinn fyrir þremur árum síðan. Þau kynntust þegar þau voru 18 ára. Voru ægilega krúttlegt par sem allir öfunduðu. Þau gerðu nákvæmlega allt saman. Nokkrum árum síðar voru þau komin með þrjú börn, fallegt hús og tvo góða bíla. Fóru í utanlandsferðir tvisvar á ári og lífið var ljúft.
Þau voru fólkið sem bauð oftast vinafólki sínu í matarboð. Þau voru lífleg og héldu fjölskyldum sínum saman með tíðum boðum og skemmtunum.
En eftir tuttugu ára samband gleymdu þau hvort öðru. Fóru að sinna sínum áhugamálum og tóku hvort öðru sem sjálfsögðum hlut. Eitt leiddi af öðru og áður en við í vinahópnum vissum af voru þau farin að tala um skilnað. Þau voru svo óhamingjusöm. Hún sagði að hann hefði engan áhuga á því sem hún væri að gera og hann vildi meina að hún hefði engan áhuga á golfáhuga hans og því voru þau farin að leita á önnur mið.
Elskaði athyglina
Vinkona mín var farin að taka eftir athygli frá öðrum karlmönnum. Hún varð yfir sig hrifin og talaði ekki um annað en nýjan fatnað, líkamsrækt og sæta unga strákinn í ræktinni sem brosti alltaf svo fallega til hennar. Hún sagðist aldrei fá þessa athygli frá sínum manni og var komin á þá skoðun að best væri að skipta þeim gamla út fyrir nýjan. Hann talaði um að hún væri alveg hætt að vilja stunda kynlíf og hann næði alls ekki til hennar.
Ári síðar voru þau skilin. Börnin voru miður sín og fjölskylda og vinir ringluð. Allt í einu var eins og við vinirnir þyrftum að velja á milli þeirra því eins og svo oft vill verða skildu þau ekki í góðu. Mikil heift var í gangi og kenndu þau hvort öðru um allt sem miður fór í þeirra sambandi. Ef vinkona mín hélt matarboð þá leið okkur vinunum illa þegar fyrrverandi maðurinn hennar hringdi kannski sama kvöld til að spjalla, en við vorum of upptekin við að undirbúa okkur fyrir að fara í heimsókn til hans fyrrverandi.
Vinkona mín rasaði algjörlega út. Hún fór út að skemmta sér aðra hverja helgi og daðraði við allt og alla. Hún er virkilega falleg og fékk fjöldan allan af tilboðum með hinum og þessum náungum. Fljótlega hitti hún Árna, þriggja barna einstæðan föður með gífulegar skuldir á bakinu. Hún féll algjörlega fyrir honum. Hann jós yfir hana ástarjátningum, sendi blóm í vinnuna og skildi eftir skemmtileg skilaboð á símanum hennar. Hún var í skýjunum með þessa nýju athygli.
Blandaðar fjölskyldur
Þremur mánuðum síðar voru þau byrjuð að búa. En þá byrjuðu vandræðin. Börnin hennar og börnin hans vildu ekki kynnast. Vildu ekki eyða tíma saman og vildu alls ekki vera með nýja makanum. Hann Árni átti aldrei til peninga svo vinkona mín borgaði fyrir húsnæðið, bensín á bílana, matinn og föt fyrir sín börn og hans. Ef þau fóru út að borða þá borgaði hún það líka.
Vinkona mín var miður sín og vildi ekki viðurkenna mistökin svo hún faldi ástandi fyrir okkur vinunum. Smá saman hætti hún að hafa samband og hvarf í sitt eigið líf. Hætti að svara símanum og var óskaplega upptekin ef henni var boðið eitthvað.
Tveimur árum síðar hitti ég hana á förnum vegi og mér brá. Þarna stóð vinkona mín sem var alltaf svo vel til fara, alltaf svo glæsileg og geislandi eins og tuska. Hún var algjörlega ótilhöfð með vonleysiblik í augunum. Ég dró hana á kaffihús og bað hana um að tala við mig. Svona þekkti ég hana bara alls ekki.
Vandræði
Hún viðurkenndi fyrir mér að hún hefði gert mistök. Hún hefði aldrei átt að skilja við barnsföður sinn sem hún var búin að eyða með helmingnum af sínu lífi. Hún hefði frekar átt að vinna í sambandinu og ná aftur upp lostanum og spennunni. Í dag væri hún föst í skuldum og föst í hatursambandi við móður stjúpbarna sinna sem gerðu allt til að eyðileggja samband hennar og mannsins. Maðurinn hennar vildi ekki opna augun fyrir vandamálunum og drakk á hverju kvöldi til að gleyma stað og stund. Hann hjálpaði lítið til að laga peningavandræðin og fjölskylduvandamálin. Hún var algjörlega búin á því. Sagðist ekki geta lifað lengur í þessu en skammaðist sín fyrir þetta val sitt á sínum tíma.
Sleit sambandinu
En ekki var öll nótt úti. Þessi vinkona mín náði sér sem betur fer á strik. Hætti í þessu leiðindarsambandi og náði góðu sambandi við sjálfa sig og börnin. Kom sér vel fyrir í lítilli íbúð og börnin hennar voru hæstánægð. Síðast þegar ég vissi var hún og barnsfaðir hennar aftur farin að daðra og hittast. Hún byrjaði að hafa samband aftur við sína gömlu og góðu vini sem tóku henni mjög vel og voru ánægðir fyrir hennar hönd.
Skilaboðin
Og nú kanntu að spyrja hver skilaboðin með þessari frásögn séu?
Jú – Grasið er ekki alltaf grænna hinu megin!
Stundum þurfum við að líta okkur nær og vera ánægð með það sem við höfum og gera gott úr hlutunum í staðin fyrir að rífa þá niður og leita á önnur mið. Það er ekki alltaf lausnin og réttast er að reyna allt til þrautar áður. Og annað…
Hugsum vel um okkur sjálfar og okkar fólk, við eigum það öll skilið!
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.