Sambönd geta verið erfið og það er bara staðreynd að fólk gengur ekki í gegnum lífið í sambandi án þess að rífast og þræta á einhverjum tímapunkti.
Þegar eitthvað fer í taugarnar á okkur, eða við erum ósátt, tölum við um það við okkar nánustu og getum jafnvel vælt um það klukkutímunum saman.
Segjum sem svo að við förum á veitingastað og allt fer úrskeiðis. Vondur matur, léleg þjónusta, dýrt osfv… – við segjum ÖLLUM frá því og kvörtum. Aftur á móti ef við förum á veitingastað þar sem maturinn er góður, þjónarnir kurteisir og verðið er gott gleymum við frekar að tala um það. Jú, jú það má svo sem vera að við minnumst á það, en einhvernveginn fá vondu hlutirnir alltaf að heyrast meira.
Svona er þetta alltof oft í samböndum. Við tölum bara um slæmu hlutina, það sem fer í taugarnar á okkur við hinn aðilann: “Hann gerði þetta!”, rifrildin og allt þar á milli.
Ég hef nokkrum sinnum lent í því að eiga vini í samböndum og haldið að sambandið þeirra sé gjörsamlega hryllilegt – en svo kemur í ljós að allt það neikvæða var muuun minni partur af sambandinu en það jákvæða. Ég fékk hinsvegar BARA að heyra um það neikvæða.
Tölum fallega um makana okkar. Það hlýtur að vera góð ástæða fyrir því að þú valdir þér þessa manneskju til að elska?
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.