Það er klárt mál að mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan 1959 í tengslum við jafnrétti kynjanna. Árið 1959 var einmitt bókin ‘Konan og óskir karlmannsins’ skrifuð, einskonar kennslubók fyrir konur sem segir þeim hvernig best sé að haga sér í kringum eiginmanninn svo að hann fái ekki leið á þeim…
…Bókin er skrifuð af sænskum manni að nafni Poul Thorsen. Hann hefði mjög líklega ekki komist upp með að skrifa þessa bók á okkar tímum (án þess að vera kýldur) enda er bókin algjör steik að flestu leiti. Ég er búin að lesa um það bil helminginn og tók hér saman nokkra úrdrætti og setningar sem mér finnst mjög merkilegar og oft fyndnar.
Njóttu vel!
Úr inngangsorðum
…þessi litla bók byggist á því, að konan þekki eitthvað til þess sem við karlmennirnir væntum af henni og ætti það því um leið að vera henni áhugamál, að haga sér í samræmi við þær óskir. Þá verður lífið þess virði að því sé lifað.
Úr kaflanum Forleikurinn
- Látið hann ekki sjá yður óhóflega málaðar.
- Verið góður hlustandi. Karlmenn eru hneigðir til að tala sjálfir og þess vegna þurfið þér að sýna áhuga fyrir því, sem hann er að segja frá, og jafnvel að spyrja hann ofurlítið um æsku hans og bernskuár. Látið hann finna, að þér óskið gjarnan að kynnast honum nokkru nánar, án ess þó að þér séuð uppáþrengjandi eð nærgönglar.
- Reynið ekki að sýnast alltof sakleysislegar í augum hans, barnalegar eða einfaldar, það verður einungis til þess að ergja hann. Jafn óhyggilegt er að láta hann álíta að þér séuð mjög veraldvanar. Hinn gullni meðalvegur er alltaf beztur, eins og kunnugt er.
- Látið svo sem hann eigi frumkvæðið að öllu. Karlmaðurinn vill hafa það á tilfinningunni að það sé hann sem taki ákvarðanir.
- Gefið honum ekki ‘franska’ kossinn of snemma. Veitið honum tækifæri til að berjast fyrir honum og því sem hann væntir sem afleiðingu hans. Það sem mestu máli skiptir er að maðurinn finni viðnámsþrótt, viðnám, sem hann þarf að yfirvinna, svo að hann fái að njóta þeirrar hamingju sem í því felst að reyna sig við erfiðleikana.
STILLTU ÞÉR Í HÓF
Kaflinn Hófstilling fjallar ‘beisiklí’ um að þú átt helst ekki að eiga frumkvæði í rúminu, þú átt að þykjast vera ekkert of spennt og aftur…láta hann berjast fyrir ‘verðlaununum’.
- Hún getur þráð ástaratlot andartaki eftir fróun heitustu faðmlaga, en hann ekki. Veitið honum þá hvíld, þar til þrá hans vaknar á ný.
Aðskilnaður
- Aðskilnaður í hæfilega langan tíma getur verið ástinni nauðsynlegur lífsgjafi en þó því aðeins, að þér bæði vanrækið ekki að skrifa manninum kærleiksrík bréf og varist að þreyta hann ekki með rauntölum og áhyggjum. En framar öllu þetta: Vanrækið hann ekki.
- Svo kemur smá klausa um það að ef eiginmaðurinn heldur framhjá í aðskilnaði þá átt þú líklega sökina; ….öllu þessu getið þér sjálfar átt sök á, ef þér vanrækið hann.
Gjafir
- Gjafir má ekki þyggja undir hvaða kringumstæðum sem vera skal, nema þér séuð sannfærðar um að yður sé ljúft að gefa honum nokkuð í staðinn.
- En er við hæfi að hún gefi honum gjafir? Já, en það verður að gerast á mjög nærfarinn hátt og það verða einungis að vera smáhlutir, eins konar skyndihugmynd, eitthvað, sem henni ‘datt allt í einu í hug’.
- Það má raunar teljast tilheyrandi gjöfum karlmanninum til handa að vera honum hjálpleg við innkaup og þess háttar og þá ekki sízt við saumaskap og þjónustubrögð.
- Verið ekki úrillar þótt hann gleymi einhverjum merkisdegi sem yður finnst að bæri að halda upp á. Menn hafa tíðum hvorki tíma né næði að hugsa um þess konar.
Trúnaðartal
- Vera kann að þér séuð sjálfar orsök þess að henn hegði sér þannig að þér finnist hann verðskulda hörð orð í eyra. Reynið því fyrst að leita orsaka og rannsakið hvort ekki geti verið að þér berið sjálfar ábyrgðina.
- Varist að láta í ljós forvitni eða hnýsni. Það vitnar til um andlega fátækt, því oft stendur forvitnin og greindarstigið í líku hlutfalli.
OG FARÐU SVO Í KALDA STURTU
Útrás
- Leyfið manninum yðar annað veifið að fá útrás fyrir tilfinningar sínar þegar nauðsyn krefur. Hvað yður sjálfar áhrærir getið þér reynt að lægja öldurnar með því að fá yður kalt bað en gætið þess þá, að skella ekki alltof fast á eftir yður hurðinni þegar þér yfirgefið herbergið.
Verndun ástarinnar
- Gleymið ekki hverjar þér voruð þegar hann varð ástfanginn af yður! Treystið því ekki að hann elski yður ef þér breytist verulega fram yfir þær breytingar sem aldurinn leiðir af sér.
- Sýnið að yður þyki vænt um hann, en látið það þó ekki í ljós í tíma og ótíma. Gleymið ekki að fýsn karlmannsins er breytilegri en hjá heilbrigðum konum. Þar að auki hefur karlmaðurinn leyfi til þess að gleyma sér við starf sitt og annað er bindur huga hans og þá orka ástaratlot truflandi á hann, já eru honum jafnvel ógeðfelld.
Minnimáttarkennd
- ….enda þótt maðurinn kunni í mörgum tilfellum að vera betur að sér og greindari en konan, hindrar það hana ekki í því að reyna að fylgjast með skoðunaum hans og áhugamálum, eða hlýða á leiðsögn hans ef með þarf.
- Heilastarfið þarfnast- eins og öll önnur starfsemi- bæði þjálfunar og áreynslu, en mannsheilinn er svo undursamlegt tæki að það er hægt að auka afköst hans og hæfni aðeins ef viljinn er fyrir hendi. Þér haldið sjálfar að þér getið ekki gert jafn miklar kröfur til yðar og manns yðar í þessu efni en það er ástæðulaust að álíta að þér getið ekki þjálfað yður svo að þér standið honum jafnfætis í andlegu tilliti.
Afbrýðisemi
- Ef þér eigið mann, sem vegna skorts á samhug og skilningi á sniði ástarlífsins byrjar að renna hýru auga til annarra kvenna skuluð þér líta á það sem viðvörun um að ekki sé allt eins og það á að vera og reyna þá að bæta úr- og þér, sem kona, munuð af eðlislægri tilfinningu vita hvernig það skal gert. Lítið á yður í spegil með gagnrýni og látið hann herma yður, að ef þér hafið tækifæri til þess að endurlífga ást manns á yðar aðeins ef þér breytið lítilsháttar útliti yðar, framkomu eða klæðaburði.
- Vekið með honum forvitni og jafnvel óróleika. Farið út án þess að greina frá ástæðu eða tala um hvers vegna eða hvert þér ætlið.
Ég mæli með þessari bók þó ég sé reyndar bara búin með helminginn. Kaflarnir ‘Öryggi’ og ‘Ástmeyjan’ eru einnig mjög áhugaverðir. Þar er stungið upp á að þú takir þér verkfall í bólinu til að fá þínu framgengt og um galla þess að vera útivinnandi eftir brúðkaup.
Einnig er stungið upp á því að fara til læknis eða sálfræðings ef þú getur ekki fengið fullnægingu því þú þjáist mjög líklega af kyndeyfð…en alls ekki láta manninn vita, það gæti einungis valdið honum óþarfa áhyggjum.
Jaaaáhá!
Guðný Hrönn Antonsdóttir útskrifaðist úr Listaháskóla Íslands 2011 með B.A í Myndlist. Árið 2012 kláraði hún svo Tísku- og auglýsingaljósmyndun í Fashion Academy Reykjavík. Hún er fædd í október 1988 og hefur ótæmandi áhuga á tísku, förðun, myndlist og shitzu hundum.