Framhjáhöld hafa verið stunduð í mörg ár eða jafnvel frá upphafi en dæmum við einstaklinga eins hvort sem það eru konur sem halda framhjá eða karlar?
Við vitum flest að það er rangt að halda framhjá maka sínum. Það eru hrein svik og andstyggilegt gagnvart fjölskyldu manns. Mikil reiði og vonbrigði eru eitthvað sem hinn aðilinn verður fyrir þegar upp kemst um framhjáhald.
Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort karlar fá verri skítköst en konur varðandi framhjáhöld.
Sterkar í vörninni
Oft er það þannig að ef kona heldur framhjá þá verja vinkonur hennar hana, þær segja að maðurinn hennar sé svo vondur við hana. Hann hefur ekki sýnt henni neinn áhuga í mörg ár. Hefur ekki kommentað á útlit hennar eða jafnvel gefið henni svo lítið sem þurrkuð blóm svo árum skipti. Svo það var nú eiginlega ekkert skrýtið að hún tók hliðarspor…
Ef karlmaður heldur framhjá er hann aumingi! Það er oftast viðhorfið. Þá er hann kynlífssjúkur lygari sem er bara hreint og beint vondur maður. Aumingja konan hans að þurfa að búa með þessum aula! Skjótum hann og það strax!
Jafn slæmt
Af hverju ætli við verjum hvor aðra en skjótum þá niður? Þetta er alveg jafn ljótt og leiðinlegt hvort sem konan gerir það eða karlinn.
Stundum þurfum við að hætta að vera svona dómhörð og líta í eigin barm. Karlmenn eru jafnmiklar tilfinningaverur og við, þeir bara sýna það oft á annan hátt en við konurnar. Munum svo að það er aldrei kúl að halda framhjá. Leysum málin frekar öðru vísi. Tölum saman um vandamálin, fáum hjálp frá hjónabandsráðgjafa eða presti. Reynum allt áður en við horfum í aðrar áttir eða gerum eitthvað meira en það.
Ef svo er að ekkert virkar þá er betra að hætta saman og líta svo í kringum sig að öðrum leikfélaga eða lífsförunaut. Hitt er bara óheiðarleiki, vesen og alls ekki þess virði!
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.