Hvernig kemst ég í gegnum helgina ef Liverpool tapar leiknum á eftir?
…Svona hljómaði byrjunin á smsinu sem ég fékk frá Valdísi rétt fyrir leikinn. Hún var á tauginni. Það var samt ekki eins og hún ætti sjálf að fara að inn á völlinn…
Nei, hún var bara á leiðinni úr vinnunni – en hún vissi nákvæmlega hvað beið hennar heima. Ekki beint spennandi rómantísk helgi framundan, það er að segja EF!
Annað sms stuttu seinna. Þá var hún sem sagt komin heim að húsinu og sá að “félagarnir” voru mættir. Það leyndi sér ekki, pappinn utan af nýja flatskjánum stóð langt út úr öskutunnugeymslunni. Það hafði ekki legið lítið á að kaupa nýja flatskjáinn, tveimur númerum stærri en þann sem bilaði fyrr í vikunni – það átti sko að vera hægt að sjá mörkin almennilega núna, ekkert vesen takk fyrir.
Hún vissi að strákarnir yrðu með þetta allt á hreinu, leikurinn yrði örugglega tekinn upp í þokkabót þannig að EF dómurunum myndi yfirsjást eitthvað þá vissu þeir allt um það. Það átti sko að passa uppá að Liverpool fengi sitt núna.
TAPLEIKUR OG FJÖLSKYLDULÍFIÐ FER Á HLIÐINA
Eftir síðasta tapleik hjá Liverpool hafði allt farið í þvílíkan mínus hjá þeim Valdísi og Bjarna. Bjarni hafði orðið alveg brjálaður af því að hann var ekki sáttur við hvernig var farið með “hans menn”. Dómararnir voru víst hlutdrægir. Leikurinn hafði gengið vel til að byrja með en þegar dómararnir tóku að draga mislit spjöld upp úr brjóstvösunum þá tók nú heldur betur að syrta í álinn. Það hafði verið svínað þvílíkt á hans menn, ekki spurning um að þeir hefðu átt að vinna.
Undir lok leiksins var hann orðinn alveg miður sín og borðaði ekkert það kvöldið. Hún skaust meira að segja út í búð – ætlaði að kaupa nautasteik til að grilla honum til huggunar – en allt var búið. Ekki var það nú til að bæta málin. Svo um kvöldið, – hann fór víst bara út í bílskúr og sat þar, alveg miður sín, ég meina það – þetta er nú ekki eðlilegt – finnst ykkur það?
Kannski hefði verið skárra þarna um daginn ef strákarnir hefðu séð leikinn með honum – þeir hefðu þá gera syrgt saman – en þá var hvorugur þeirra í bænum.
Valdís þurfti að vinna stórt verkefni eftir helgina og stólaði á Bjarna að passa krakkana svo hún gæti einbeitt sér en það varð lítið úr því. Hún þurfti að vaka báðar næturnar og mætti dauðþreytt til vinnu á mánudag. Einn leikur getur bara eyðilagt vinnu fyrir fólki sem stendur á sama um hver nær að sparka hvaða tuðru hvert!
…En – það gerist jú bara Ef þeir tapa. Hvernig skyldu horfurnar vera? Það var rosalegt stuð þarna hjá þeim daginn sem „rétta liðið“ vann. Krakkarnir settir i pössun til mín um kvöldið og þau út á lífið að fagna. Það liggur náttúrulega alveg í augum upp að það þarf að halda upp á það þegar maður sigrar?
ÉG LIFI Í DRAUMI – FÓTBOLTADRAUMI
Hvað í ósköðunum er það sem fær fullorðna karlmenn til að haga sér eins og smákrakka útaf fótbolta manna sem þeir þekkja alls ekki neitt, manna sem eru eiginlega bara fyrir þeim í lífinu?
Er það einmanakennd og ósjálfstæði, óöryggi, minnimáttarkennd og mælikvarði á hvað það er að vera flottur gæi, hæfilega myndarlegur, umfram allt karlmannlegur og stæltur, sætur og sexý? Sækja þeir fyrirmyndir og hálf brenglaða vináttu svo langt yfir skammt, að þeir hætta að greina á milli þess sem er og þess sem þeir vilja að sé í alvörunni?
Þeir velta sér upp úr liðsmönnum liðanna, fylgjast í laumi með vöðvastæltum kroppunum, konum þeirra og frama… Eru þeir í raun og veru dagdraumamenn sem láta síg hverfa frá amstri hversdagsins yfir í sýndarveruleikann? Taka þeir jafnvel í laumi nokkra takta fyrir framan spegilinn inni á baði þegar enginn sér til? Hver veit – ekki fáum við að vita það.
STUÐNINGSHÓPUR?
Þetta gæti jú verið ein skýringin. Er mögulegt að þeir samsami sig svo við sína uppáhaldsmenn í liðinu að þeim finnist í raun ráðist persónulega á sig þegar liðsmaðurinn þeirra fær pokann sinn. Getur það verið?
Fyrst að ástandið getur orðið svona slæmt hjá Valdísi – Skyldi þetta þá ekki viðgangast víðar? – Jafnvel í vinahópnum hjá þeim hjónum? Þyrfti ekki að stofna stuðningshóp sem væri til staðar um helgar – þeir væru allavega opnir eftir að úrslitaleikjum líkur. Þar mætti spila slökunartónlist og æfa Chi Gong. Við ættum kannski bara að opna slíka miðstöð, hjálparmiðstöð sambýlinga sem þjást af fótboltaröskun.
Ég ætti nú bara að kanna þetta hjá Valdísi, hún þekkir ábyggilega fleiri stelpur sem eru að festast í þessu sama rugli – kanski ég geri það bara!
Jóna Björg Sætran ACC markþjálfi www.coach.is
Jóna Björg er menntunarfræðingur, M.Ed., frá KHÍ, er með alþjóðlega vottun sem ACC markþjálfi frá ICF (International Coach Federation) og er einnig Feng Shui ráðgjafi.
Í vetur hefur Jóna Björg svo lagt stund á Hugræna atferlismeðferð (HAM) í Endurmenntun HÍ. Jóna Björg starfar sjálfstætt við einkaleiðsögn, námskeiðahald, ritstörf, fyrirlestra og ráðgjöf jafnt hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Hún var leiðbeinandi hjá Brian Tracy International hér á landi og er fyrrverandi námstjóri hjá menntamálaráðuneytinu.
Jóna Björg fer ótroðnar slóðir, elskar að takast á við krefjandi verkefni og finnst langmest gefandi að vinna með fólki að bættri líðan, meiri hamingju og hugrró.
Einkunnarorð hennar eru: Blómstraðu í einkalífi og starfi, njóttu þess að vera þú!