Framhjáhald er með því versta sem getur komið fyrir sambönd. Stundum lifa þau framhjáhaldið ekki af en oft tekst fólki að lækna sárin með samstilltu átaki.
En er hægt að gera eitthvað til að koma í veg fyrir framhjáhald? Og hvernig veit maður hvort makinn er byrjaður að hitta aðra konu (eða mann)?
Hér eru nokkur góð ráð
1. Mundu að fólk sem hefur ekkert að fela, felur ekkert. Ef þig grunar að makinn haldi framhjá skaltu leita að augljósum merkjum: Til dæmis breyttu hegðunarmynstri; áttu erfitt með að ná í hann? er peninganotkunin að breytast? er hann ekki lengur eins áreiðanlegur? …er einhver feluleikur í gangi?
Svo eru fleiri merki eins og mikill og skyndilegur áhugi á eigin útliti; Allt í einu er hann farinn að mæta í ræktina af kappi, nota rakspíra daglega og passa sig allann betur. Gættu samt að því að rústa ekki sambandinu með stöðugri tortryggni án þess að hafa neitt raunverulega fyrir þér í því. Það getur skemmt traustið ykkar á milli og verið skaðlegt ef hann er svo með hreinan skjöld.
2. Ef þú átt sjálf í vandræðum í eigin sambandi þá skaltu ekki snúa þér FRÁ makanum til að bæta lífið og tilveruna, það gerir ekki annað en að auka á vandamál þín. Snúðu þér heldur AÐ honum og þá fer eitthvað að gerast.
3. Ekki fara í leiki í höfðinu og detta í dagdrauma um aðra menn. Það getur verið mjög stutt bil á milli hugsunar og hegðunar.
4. Ekki rugla raunveruleikanum saman við rómantískar gamanmyndir sem fjalla flestar um fyrstu daga sambandsins. Það er stór munur á tilhugalífi og að viðhalda ástinni og rómantíkinni í langtímasambandi. Það þarf að hafa fyrir þessu.
5. Ef þú vilt eiga góðan maka þá skaltu byrja á sjálfri (eða sjálfum) þér og vera góður maki. Gefðu allt í sambandið. Það er grunnurinn að gleði í lífi þínu.
6. Leiðist ykkur? “Leiðinlegt fólk er leiðinlegt,” segir Dr. Phil. Finnið eitthvað sem þið hafið áhuga á, eitthvað sem þið getið kynnt ykkur saman og minnið ykkur um leið ástina og skuldbindinguna sem þið hafið ákveðið að gefa hvort öðru.
7. Þú þarft að vinna í sambandi þínu á hverjum degi, ekki aðeins þegar illa gengur. Þegar þú vaknar á morgnanna skaltu prófa að spyrja sjálfa þig hvað þú getir gert í dag til að gera sambandið betra. Hver er sinnar gæfu smiður.
8. Búið til áætlun um hvernig þið viljið mæta hvort öðru. Ef þið eruð farin út af sporinu þá er aldrei of seint að koma sér aftur á betri stað í lífinu. Bara að byrja strax.
9. Hugsaðu um sjálfa þig. Borðaðu hollan mat, hreyfðu þig og reyndu að líta sem best út. Ef þér líður vel með sjálfa þig þá taka aðrir eftir því og makinn er ekkert undanskilinn.
10. Sambandið ykkar verður að byggjast á vinskap. Það er grunnurinn. Og vinir tala saman, hlægja saman, gera hluti saman sem báðir hafa gaman af. Ekki hætta að vera vinir bara af því þið eruð makar hvors annars.
Og að lokum…
Öll sambönd samanstanda af tveimur einstaklingum og þörfum beggja þarf að mæta. Reyndu að átta þig á hvaða þarfir makinn þinn hefur og mættu þeim svo eftir bestu getu. Svo skaltu einbeita þér að því hverjar þínar eigin þarfir eru og skýra þær fyrir honum svo hann geti reynt að mæta þér.
Ef þetta gengur ekki allt að óskum skaltu reyna málamiðlanir og samninga. Ekki láta gremjuna vaxa innra með þér. Hún er eitur fyrir sambönd og getur endað með t.d. framhjáhaldi.
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.