Ég hef oftar en ég kæri mig um heyrt talað um stelpur sem er gefið það að sök að vera örvæntingarfullar eða „desperate“.
Þessar „örvæntingafullu“ stelpur eiga það sameiginlegt að eiga að vera svo æstar í hjónaband og að þær sætti sig við hvaða mann sem er bara svo þær geti eignast hús, barn, bíl og hund helst ekki seinna en í gær!
Líklega dreymir flestar stelpur þennan draum þó það sé oftast ekki á þessum hraða sem við viljum að hann rætist. En svo við horfumst í augu við staðreyndir þá verðum við að viðurkenna að flesta stráka sem dreymir þennan draum líka, annars myndi gagnkynhneigð pörun ekki ganga upp og konur væru löngu búnar að finna leið til þess að eingeta börn.
Ástæðan fyrir því að þessi staðalímynd er frekar bundin við stelpur en stráka er líklega sú að stelpur eru óhræddari við það að viðra vonir sínar um framtíðina. Þær ræða við vinkonur sínar um hvernig draumamaðurinn þeirra sé; hávaxinn, dökkhærður og myndarlegur eða lágvaxinn, ljóshærður, fyndinn og sætur. Að þær vilji helst eignast börn í kringum einhvern ákveðinn aldur og svo framvegis.
Þetta eru hins vegar bara vonir stelpna sem koma fjölskyldulífinu við, stelpur ræða líka um það hverjar framtíðarvonir þeirra eru þegar kemur að vinnu, pólitík og hvert þær langi að ferðast og svo margt, margt fleira.
Þó að við stelpur ræðum allar þessar vonir og drauma okkar hvor við aðra, stundum meira að segja of nákvæmlega, er ekki þar með sagt að við séum allar það örvæntingarfullar að láta þær rætast að við tökum öllu sem gæti kannski orðið til þess að einhver hluti af draumi okkar muni rætast, hvort sem það þá tengist vali á lífsförunauti eða einhverju öðru.
Helsta ósk allra sem ég þekki er fyrst og fremst að lifa hamingjusömu lífi og sem betur fer reynum við stelpur flestar að byggja val okkar á lífsförunaut á því hver muni gera okkur hamingjusamar og hver muni elska okkur til baka en ekki á því hver liggur hendi næst þegar okkur dettur skyndilega í hug að nú sé góður tími til þess að eignast kærasta.
Þó að hamingjan felist ekki algjörlega í því að finna sér lífsförunaut, þá erum við flest mun hamingjusamari með einhvern sérstakan við hlið okkar heldur en án og ég sé persónulega ekkert örvæntingarfullt við það að leggja sig fram um það að vera hamingjusöm og láta drauma sína rætast. Hvort sem draumurinn er að finna sér lífsförunaut, finna hina fullkomnu vinnu eða eitthvað allt annað.
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.