Vinkonurnar geta talað við hvern sem er, ókunnugar stelpur og stráka, hvar sem þið eruð. Líka þessar stelpur sem eru ekki næstum því eins sætar og þú.
Þær eiga ekki einu sinni almennilega flott föt, eru meira að segja stundum hálf hallærislegar og í einhverju sem þú myndir sko aldrei láta sjá þig í. Þú sem ferð ekki út fyrir dyr nema að vera búin að setja upp andlitið, kaupir alltaf flottustu fötin og átt fullt af skóm.
Hvað er þá að?
Jú, þér líður alltaf hálf illa þegar þú ferð út á lífið. Þig langar að fara með stelpunum – og ferð oftast með en ert með kvíðakast í marga daga áður þegar þú veist að það stendur til. Er ekki í lagi með þig?
Þú átt engan kærasta. Það er ekki að þú hafir ekki átt neinn sjéns, langt því frá. Málið er bara það að þú forðar þér alltaf ef einhver flottur strákur sýnir þér áhuga. Hvers vegna í ósköpunum getur þú ekki hætt þessu?
Skilin útundan
Stelpurnar eru meira að segja farnar að tala um þetta, þú sem hefur reynt að fela þetta fyrir þeim með því að segja að þú verðir að drífa þig heim út af einhverri fáranlegri ástæðu sem þú býrð til á staðnum. Þú hefur meira að segja feikað símhringingar og látið líta svo út að það sé verið að kalla þig út á aukavagt í vinnunni þannig að þú bara verðir að fara strax.
Þetta er nú ekki beint eðlilegt að láta svona til lengdar, er það. Þú verður að fara að hætta þessu. Þú kynnist aldrei neinum almennilega ef þetta heldur svona áfram mikið lengur. Fólk gefst bara upp á þér. Þér finnst líka að stelpurnar séu farnar að sjá í gegnum þig með þetta, þær eru ekki eins duglegar og áður að láta þig vita þegar þær eru að fara eitthvað. Fóru þær ekki einmitt eitthvað um daginn, út að borða og svo niður í bæ? Þú heyrðir óvart af því á mánudeginum þegar þú hittir eina þeirra óvænt í vinnunni.
Leystu málið, taktu þetta sem verkefni
Hvernig væri nú að taka sér tak, taka þetta bara sem verkefni sem þarf að vinna markvisst í til að leysa. Hverri stelpnanna getur þú treyst fyrir leyndarmálinu? Hún gæti hjálpað þér við að halda þér á staðnum ögn lengur næst. Á meðan þú ert ein með vandann þá verður erfiðara að leysa hann.
Góð og traust vinkona gæti hjálpað þér þó það væri ekki með öðrum hætti en þeim að hún vissi af kvíða þínum og myndi halda sig nærri þér, veita þér þannig stuðning. Málið er að á meðan þú heldur áfram að flýja af hólmi þá versnar vandamálið. Flóttinn af staðnum verður til þess að auka á vandann, hann verður æ fastari í sessi og þú grípur til hans, heldur traustataki sem þú þorir ekki að sleppa.
Eru rök fyrir þessu?
Spáðu líka í að þegar allar neikvæðu hugsanirnar dembast yfir þig eins og steypiregn, hugsanirnar um það að hann, strákurinn sem ætlar að fara að tala við þig, sé algjör deli með flotta útgeislun, 100% lúser sem muni koma illa fram við þig – allar þessar neikvæðu hugsanir eru ósköp einfaldlega hugsanir sem leita á þig. Það er ekki víst að það sé neitt einasta sannleikskorn í þeim. Hvaða rök hefur þú fyrir því að þær séu réttar?
Þú verður að gefa fólki tækifæri til að kynna sig og á sama hátt þarftu að gefa fólki (ekki ara stelpum heldu líka bæði sætum og fallega ljótum strákum) tækifæri til að kynnast þér. Þú getur sjálf ráðið hversu langt það gengur.
Talaðu nú við þá „vinkonu“ þína sem þú treystir best. Leyfðu henni að reynast þér góð vinkona og hjálpa þér út úr þessari hringiðu sem þú ert að festast í.
Gangi þér vel,
bestu kveðjur
Jóna Björg Sætran M.Ed., markþjálfi www.coach.is
Jóna Björg er menntunarfræðingur, M.Ed., frá KHÍ, er með alþjóðlega vottun sem ACC markþjálfi frá ICF (International Coach Federation) og er einnig Feng Shui ráðgjafi.
Í vetur hefur Jóna Björg svo lagt stund á Hugræna atferlismeðferð (HAM) í Endurmenntun HÍ. Jóna Björg starfar sjálfstætt við einkaleiðsögn, námskeiðahald, ritstörf, fyrirlestra og ráðgjöf jafnt hjá einstaklingum og fyrirtækjum. Hún var leiðbeinandi hjá Brian Tracy International hér á landi og er fyrrverandi námstjóri hjá menntamálaráðuneytinu.
Jóna Björg fer ótroðnar slóðir, elskar að takast á við krefjandi verkefni og finnst langmest gefandi að vinna með fólki að bættri líðan, meiri hamingju og hugrró.
Einkunnarorð hennar eru: Blómstraðu í einkalífi og starfi, njóttu þess að vera þú!