Við höfum allar séð myndir af fallegu Sankti-Bernharðshundunum með litlu koníakstunnuna í ól um hálsinn á leiðinni til að bjarga fjallaköppum í neyð.
Það sem við gerum okkur líklega ekki grein fyrir er sú staðreynd að fjöldinn allur af konum hefur skipað sér í sama hlutverk og þessir ágætu hundar og finnst það heilög skylda að að bjarga öllum þeim sem eiga í erfiðleikum. Þessar konur eru stundum kallaðar björgunarfíklar.
Ég heiti Lilja – og ég er björgunarfíkill
Lilja er hinn dæmigerði björgunarfíkill og viðurkennir það fúslega:
,,Ég vissi að Rikki þarfnaðist mín um leið og hann sagði mér frá mömmu sinni. Hún hringdi í hann daglega til þess að nöldra og kvarta og var alveg að gera út af við hann. Rikki var leiður og fúll út í lífið og tilveruna. Hann eiginlega fyrirleit foreldra sína fyrir hversu illa stæð þau voru fjárhagslega og hann var brjálaður út í yfirmann sinn sem ávítaði hann fyrir leti. Aumingja Rikki. Ég VARÐ AÐ BJARGA HONUM …
Ég hvatti hann til þess að hringja í mömmu sína (úr símanum mínum) og tók þátt í nöldrinu yfir yfirmanninum. Hann var í vandræðum með leiguna svo ég bauð honum auðvitað að flytja inn á mig og ég kvartaði ekki þegar hann bauð vinum sínum í heimsókn, sem tæmdu ísskápinn hvenær sem færi gafst. Það var ekki fyrr en við fórum saman í partí og ég horfði á hann kyssa aðra konu fyrir framan nefið á mér að ég áttaði mig á því að Rikki átti alls ekkert bágt. Hann var einfaldlega skíthæll. Og ég? Ég var björgunarfíkill.“
Engin kona hefur elskað hann eins og ég
Þú ert alls ekki ein. Margar konur eru sama merki brenndar. Þær eru sankti bernharðshundar kvenþjóðarinnar sem þrá ekkert heitar en að bjarga flækingsköttum og Rikkum þessa lands.
Sálfræðingurinn Barbara De Angelis gefur lýsingu á einkennum björgunarfíkninnar í bók sinni SECRETS ABOUT MEN EVERY WOMAN SHOULD KNOW. Þau eru meðal annars þessi:
1.
Þú telur þér trú um að maðurinn þinn þurfi aðeins meiri tíma til þess að koma sjálfum sér og lífi sínu í betra horf (og minnir þig á það með reglulegu millibili).
2.
Þú telur þér trú um að enginn hafi í raun elskað manninn þinn nógu heitt og aðeins ást þín geti breytt honum.
3.
Þú kemur með endalausar afsakanir gagnvart vinum og vandamönnum þegar þeir benda á að maðurinn sé þér ekki nógu góður og að allt gangi á afturfótunum hjá honum. Hljómar þetta kunnuglega?
Listin að breytast úr skt Bernharðshundi í ofdekraðan kjölturakka eða Rottweiler
Gerum ráð fyrir að maðurinn þinn sé vanur að kvarta yfir því að hann eigi ekkert hreint til að fara í á morgnana. Það er alls ekki ólíklegt að þú verðir miður þín og biðjir hann afsökunar. Þar með hefur þú sett þig í stöðu Sankti-Bernharðshundsins; maðurinn ætlast til að þú komir honum til bjargar.
Dr. Judith Sills, höfundur bókarinnar LOVING MEN MORE, NEEDING MEN LESS, segir að það sé ekki auðvelt að breyta fólki.
Þegar konan bregst við eins og hún sjálf kýs, í stað þess að bregðast við eins og karlmaðurinn ætlast til, kemur það honum á óvart og fer í taugarnar á honum. Þetta er taugatrekkjandi fyrir björgunarfíkilinn en hún verður að hætta að láta í minni pokann.
,,Það er ekki ólíklegt að hann fari í fýlu og fari í vinnuna án þess að kveðja,“segir Dr. Sills. ,,Það er heldur ekki ólíklegt að hann skelli á eftir sér hurðinni en konan verður að gæta þess að láta ekki undan og halda sínu striki eins og ekkert hafi í skorist.“
Það er ekki auðvelt. Það er rétt eins og að eiga lítinn hvolp sem hefur komist upp með að fá að hreiðra um sig í stofusófanum og er svo einn góðan veðurdag refsað fyrir það. Maðurinn þinn mun ekki skilja hugarfarsbreytinguna í einum hvelli. En þegar hann loksins kveikir á perunni verður lífið léttara.
Málið er að fólk kemst ekki upp með að valta yfir okkur nema við leyfum því það.
Sem björgunarfíkill getur þú laðað að þér fólk sem gengur á lagið. Galdurinn er sá að læra að bregðast við á annan hátt. Í hvert sinn sem einhver biður þig einhvers eru fyrstu viðbrögð þín að segja JÁ á stundinni. Öllu skynsamlegra er að temja sér að þegja nógu lengi til þess að gefa sjálfum sér val.
Björgunarfíklar þessa heims ættu að sameinast um það að grafa koníakstunnuna í jörðu (eða a.m.k. að drekka koníakið sjálfir) og reyna fyrir sér í öðru hlutverki, hlutverki sem lætur þeim sjálfum líða vel.
Það væri líklega alveg óvitlaus hugmynd að reyna frekar fyrir sér í hlutverki ofdekraða kjölturakkans eða Rottweiler!
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.