Konur virðast margar hafa það í eðli sínu að hugsa um aðra og hjúkra þeim sem eru veikir. Þetta sést meðal annars á því hvernig við röðum okkur í umönnunarstörf hverskonar en þetta sama á ekki við um flesta karlmenn þó auðvitað séu alltaf undantekingar.
Af reynslu minni að dæma þá er það í raun eitt stærsta “prófið” hvernig kærastinn kemur fram við konuna sína þegar hún er veik.
Jú. Þegar maður er lasinn þá verður maður sérstaklega viðkvæmur og mikilvægt er að bregðast rétt við.
Kærastinn þarf að sýna umhyggju og hjúkra rétt eins og kærastan gerir við hann þegar hann er veikur.
Ef þú forðast kærustuna “vegna þess að þú vilt ekki smitast” þá þarftu að hafa ansi góða ástæðu (maraþonhlaup eða mikilvægt próf framundan) og sýna henni umhyggju með því að til dæmis:
- Senda henni blóm -(þið ætlið aldrei að ná því hvað það gleður okkur flestar mikið) og þið skorið mörg stig!
- Hringja reglulega til að athuga líðan.
- Bjóðast til að koma með mat -þó það sé ekki nema bara rétta take-away og senda fingurkoss.
- Kaupa uppáhalds tímaritið hennar.
- Fara á videóleiguna: Topp- flensubíómyndir eru Bridget Jones, allar Jane Austen myndirnar, Notting Hill, Love Actually og svo klikka Friends og SATC þættirnir ekki.
Ef þú ert ekki að forðast kærustuna þá máttu samt gera allt sem talið er upp hér að ofan og hjúkra henni líka, gefa henni kalda bakstra ef hún er með hita, breiða yfir hana sængina, rétta henni það sem hana vantar, elda fyrir hana og leyfa henni að stjórna sjónvarpsefninu, jafnvel þó það þýði að þú þurfir að sitja undir einhverjum sjónvarpsþætti sem hún elskar og þú þolir ekki vel.
Þegar kærastan liggur eins og slytti á sófanum, í púkalegum innifötum og termosokkum, með rautt nef og skítugt hár, já allt annað en fab, þá þarftu samt að láta eins og hún sé aðlaðandi og krúttleg og gefa henni smá knús eða fótanudd.
Aðrir hlutir sem gera lífið bærilegra og flýta fyrir bata eru:
- Heitur drykkur: Te, vatn með hunangi og sítrónu, kakó með chilli, jafnvel koníaksdreitill sem rífur í hálsinn og drepur bakteríur.
- Kraftaverkasúpa full af grænmeti, engifer, hvítlauk og chilli svo sterk að hún logar svo það losni um allar stíflur í nefi, ennis- og kinnholum. Ef þú kannt ekki að elda þá geturu fengið svona súpu á öllum austurlenskum take-away stöðum.
- Mjúkur snýtipappír og græðandi krem á nebbann, til dæmis Penzim.
- Meðul, nefspray, hálsbrjóstsykur, vítamín, vínber og ferskir ávextir.
Ég þarf auðvitað ekki að taka það fram að öll þessi ráð eiga eins vel við okkur konurnar þegar karlinn er veikur, nema valið er kannski svolítið öðruvísi stundum.
Þeim er flestum nokkurnvegin sama um blóm og vilja ekki að þú hringir OF oft til að athuga með líðanina 😉
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.