Okkur barst þetta skemmtilega lesendabréf um helgina:
Kæru Pjattrófur,
Mig langar svo að deila með ykkur nokkrum pælingum sem ég hef gengið með í kollinum síðustu daga.
Fyrir rúmu ári sleit ég sambandi sem ég hafði verið í allt of lengi eða um sjö ár.
Við rifumst meira en helminginn af tímanum og vorum bæði mjög ósátt en af gömlum vana, og kannski ótta við hið óþekkta, héldum við áfram að vera saman.
Hvorugt okkar fékk þó það sem við vildum út úr þessu sambandi og þegar ég lít um öxl þá sé ég að það var ansi fljótt sem ég áttaði mig á því að þrátt fyrir ástina myndi sambúðin eflaust alltaf ganga illa.
Það er ekkert sem segir að konur í dag geti ekki búið einar og séð um sig sjálfar. Þetta gildir reyndar fyrir karlmenn líka. Við einstæðu stelpurnar getum eldað saman og haft börnin á sömu helgum en notið lífsins hinar helgarnar.
Svo kom að því að við slitum þessu. Það gekk svolítið brösulega. Við vorum alltaf að tala saman og í raun ekki um bráðnauðsynlega hluti. Áttum bara bágt með að sleppa. Að slíta sambandi er auðvitað eins og að missa ástvin og þú þarft að reikna með því að það taki svolítið á í einhvern tíma. Ekki er verra að tala við sálfræðing meðan það gengur yfir.
Á endanum, eða eftir svona 5-6 vikur, hættum við svo þessum óþarfa samskiptum.
Ég mæli með því við alla sem eru að slíta samböndum að byrja sem fyrst á því að fjarlægjast og taka tíma í að sniðganga staði eða hluti sem þið áttuð saman.
Ekki hringjast á eða senda sms og það er ekkert að því að eyða honum af Facebook.
Það má alltaf tengjast síðar þegar hlutirnir hafa fallið í ró og það er vel hægt að eiga börn saman án þess að vera í mjög miklum samskiptum.
Skaðlegt heilsunni
Nú hef ég búið ein með syni mínum í heilt ár og nýt lífsins sem aldrei fyrr. Það er svo mikið frelsi að vera ekki í slæmu sambandi! Það fer ómæld orka í vonbrigði og særindi, rifrildi og togstreitu. Orka sem með tímanum getur orðið skaðleg heilsunni og hún dregur úr okkur sköpunargleði og hamingju. Ég hef sjaldan litið jafn vel út og eftir að ég skildi og fæ óspart að heyra það. Mér finnst svo dásamlegt að geta gert það sem ég vil þegar ég vil og þurfa ekki að taka tillit til einstaklings sem dró frekar úr hamingju minni en að bæta á hana. Ég er líka mun betri mamma en áður.
Það er ekkert sem segir að konur í dag geti ekki búið einar og séð um sig sjálfar. Þetta gildir reyndar fyrir karlmenn líka. Við einstæðu stelpurnar getum eldað saman og haft börnin á sömu helgum en notið lífsins hinar helgarnar.
Við getum þess vegna ferðast saman, farið í útilegur og fleira. Frelsið gefur okkur líka kost á að hitta og kynnast nýjum mönnum í rólegheitum, pabbahelgarnar eru til þess. Það er af sem áður var að konur þurftu margar að sætta sig við léleg hjónabönd því það sem beið þeirra eftir skilnað var að fara sem ráðskonur í sveit eða láta börnin í heimavist.
Við getum sótt um meðlagsgreiðslur og getum með bara örlítilli útsjónasemi haft það bara ágætt. Konur þurfa ekki menn til að hafa það gott. Við erum góðar í að sjá um okkur sjálfar og aðra. Það er frekar að blessaðir strákarnir detti í óhollustu og lélega lifnaðarhætti þegar þeir eru einir.
Mig langar að hvetja ALLAR KONUR sem eru ósáttar og óhamingjusamar í sínum samböndum og hafa verið lengi til að láta verða af því og slíta þeim. Það er alveg víst að framtíðin ber eitthvað betra í skauti sér.
Ef sambandið ykkar er fullreynt skaltu alls ekki dvelja við þetta lengur. Þú átt ekki að vera ergileg út í makann næstum á hverjum degi. Þú getur vel séð um þig sjálf, það geta það allir! Þú þarft ekki mann til þess. Við megum ekki láta lífshamingjuna að veði!
Frelsið er yndislegt vinkona, þú getur gert það sem þú vilt. Betra er autt ból en illa skipað segir máltækið gamla.
Ekki sætta þig við að vera í sambúð sem uppfyllir engar af þörfum þínum aðrar en þörfina fyrir fjárhagslegt öryggi. Lífið snýst um svo miklu meira og við fáum bara eitt líf.
Kveðja,
Anna María
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.