Það er ekki óalgengt að í barnæsku eignum við vini sem fylgja okkur í 10 ár eða jafnvel lengur. Svo kemur að því að leiðir skiljast og á fullorðinsárum fer hugurinn að leita til baka og maður byrjar að velta vöngum yfir því hvar gamli vinurinn sé staddur í lífinu, hvort hann hafi breyst sem einstaklingur, hvað hann hefur upplifað og fleira.
Undanfarna mánuði hef ég verið það heppin að gömlu vinkonur mínar hafa poppað upp í líf mitt hér og þar og með tilkomu fésbókarinnar góðu, tölvupóstsamskipta og fleiri rafknúinna tækja hafa þessi nýuppteknu samskipti gert það að verkum að ég er farin að spjalla við þá reglulega og mynda aftur tengsl sem voru brotin.
Flutt í sundur
Það eru ýmsar ástæður fyrir því að tengsl brotna á milli vina þegar maður elst upp. Án þess að hafa einhverjar sérstakar rannsóknir á bak við mig, held ég að ástæðan stafi helst af því að á unglingsárunum skiljast oft leiðir þegar vinir fara í sitthvorn skólann, samskiptin minnka og ákveðin feimni kemur upp á milli vinanna.
Foreldrarnir taka oft upp á því að flytja á milli hverfa og hérna í gamla daga voru einu samskiptaleiðirnar að fara í heimsókn eða hringja á milli og hver man ekki eftir því að mamma stóð yfir manni og sagði “jæja…” þegar maður spjallaði í tólið þar sem símakostnaðurinn var frekar hár.
Ætti ég að hafa samband?
Ég hef oft leitt hugann til margra gömlu vinkvenna minna og velt því fyrir mér hvort ég ætti að hafa samband en einhvernvegin ekki þorað því. Hvað ætti ég að tala um ? Vill hún tala við mig ? Eigum við saman núna ? Þetta eru spurningar sem hafa sprottið upp í hugann ítrekað undanfarið en vegna aðstæðna hef ég verið það heppin að þessar vinkonur hafa orðið fyrri til og eru farnar að stinga kollinum inn í líf mitt meira og meira á hverjum degi.
Ekki hika
Tilgangur minn með þessum pistli er að minna þig á að við eigum ekki að vera hræddar við að hafa samband við gamla góða vini. Einu sinni var sagt við mig að það væri ómögulegt að hafa samband við alla þá sem maður kynnist á lífsleiðinni og rækta tengslin. Þá færi tíminn á elliheimilinu eingöngu í það að hringja í vini og spjalla um daginn og veginn og maður hefði engan tíma fyrir sjálfan sig. Þegar ég heyrði þetta fyrst varð ég alveg sammála, sá það ekki fyrir mér að það gæti verið vit í að rabba við gamla vini daginn út og inn en í dag er ég hreint út sagt ósammála.
Við eigum að rækta samband við vini okkar, við eigum að leita til þeirra sem okkur þykir vænt um og ef þú átt góðar minningar af vinskap þínum við gamlar vinkonur/vini þá áttu að taka upp tólið og mynda aftur tengslin. Það gefur okkur svo mikið að eiga góða vini og vinir eru oft eins og systkyni sem maður velur sér.
Sannur vinur er sá sem er alltaf til staðar og þykir alltaf vænt um þig, þannig að það skiptir engu máli hvort það séu 10 eða 20 ár síðan þú heyrðir í honum síðast, hann verður örugglega hæstánægður að heyra í þér hljóðið
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.