Auglýsingastofur og fyrirtæki eru alltaf að reyna að gera eitthvað sniðugt til að fanga athygli okkar og í þetta sinn tókst þeim amk að fanga mína.
TM er að búa til svokallað Ástarkort en með því vilja þau hvetja landann til að merkja inn á landakort þann stað sem þau fundu ástina. Til dæmis er spurt hvort margir hafi kynnst á balli með Stjórninni í Sjallanum 94 eða í Þjórsárdal 10 árum þar á undan. Niðurstaðan á að leiða í ljós ástríkasta stað landsins og um leið kemst maður að því hvar vinir og vandamenn fundu hvort annað.
Einhvernveginn grunar mann nú að Reykjavík hljóti að vera ástríkasti staður lansdins enda búa hér flestir og kynnast þó að útilegur og flakk geti vissulega kynt undir ævintýraelda.
Nokkrar sögur eru þegar komnar inn á kortið. Ein sagan segir af pari sem voru pennavinir í 7 ár áður en þau loksins byrjuðu saman. Einn herramaður sá að henni var kalt og bauð henni far, þau hafa verið óaðskiljanleg síðan. Ein kona segir frá því að árið 1998 var hún á balli í Borgarnesi og var að labba niður stiga í síðu pilsi, steig á pilsið og var við það rúlla niður stigann en þá var hann þar og greip hana, sannkölluð ást við fyrst sýn!
Prófaðu að kíkja á þetta ástarkort og merkja inn hvar þú fannst blossann. Þú getur líka súmmað inn á kortið til að finna staðinn nákvæmlega og svo dregurðu hjartað á sinn stað. Svo er líka hægt að “logga” sig í gegnum Facebook og þá sérðu kannski hvar vinir og vinkonur fundu hvort annað. Ég sá sögu frá einni FB vinkonu:
“Við hittumst á Boston eitt jólakvöld. Þekktumst reyndar áður en þarna kviknaði neistinn. Bjössi var einstaklega hrifinn af pilsinu mínu sem ég hafði saumað fyrir þessi jól. Annars bauð ég honum á deit sem hann afþakkaði en við fórum nú samt á þetta deit viku síðar “.
Hann fílaði pilsið og hún bauð honum á deit! Bara sætt og sniðugt. Meiri ást – meiri hamingja!
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.