Um daginn birtist frétt hér á Pjattinu um að Madonna ætti kærasta sem er 30 árum yngri en hún sjálf.
Ég verð að viðurkenna að ég fór í stutta heimspekilega kreppu yfir þessu. Vissi ekki hvað mér átti að finnast.
Mér hefur yfirleitt alltaf þótt Madonna mjög svöl og það er sannarlega ekkert að því að eiga yngri kærasta (þó þessi sé soldið mikið ungur), en pælingin var líka bara hvort hún væri eitthvað öðruvísi en gamlir, ríkir og valdamiklir karlar sem fá sér ungar og fallegar konur upp á punt. Svona ‘trophy wife’ eins og það er kallað. Blessaður drengurinn er jú bara 26 ára (og auðvitað svo fáránlega sætur að það hálfa myndi duga).
Ég velti því fyrir mér hvort Madonna væri kannski bara dólgur, hvort þetta væri feminiskur performans, „statement“, hvort hún væri í raun og veru ástfangin af honum eða hvað væri eiginlega í gangi?
Ég hef alltaf haft mjög gaman af eldri konum sem fara sínar eigin leiðir í lífinu, gera það sem þeim sýnist og spyrja ekki heiminn leyfis um hvernig þær eiga að klæða sig eða hvað þær eiga/mega gera.
Heimspekilega kreppan mín orsakaðist bara af spurningunni, – af hverju dæmi ég frekar konur sem töffara þegar taka sér fallega yngri ástmenn en karla sem lyppur sem þora ekki jafnöldrur sínar og andlega jafnoka? Þetta þurfti ég að skoða. Var ég með fordóma?
Að storka norminu
Líklegast finnst mér konurnar svalar, einfaldlega af því þær eru að storka norminu og normið er heldur kjánalegt. Af hverju ætti þetta með aldursmuninn að vera eitthvað öðruvísi fyrir konur en karla? Af hverju er eitthvað einfaldara að samþykkja það þegar eldri efnaður maður finnur sér yngri konu, en furðulegt þegar efnuð eldri kona gerir það?
Er konan eitthvað verri og meiri perri… eða er hún kannski bara sjálfstæð, góð feminisk fyrirmynd kynsystra sinna? Ef rúmlega fimmtug kona í góðu formi kýs að taka sér mikið yngri mann þá má hún það. Þau um það þó árin á milli séu mörg.
Okkur varðar ekkert um hvort sambandið blessast eða ekki. Og skiptir það yfirleitt gríðarlegu máli? Hvað blessast almennt mörg sambönd, jafnvel þó aldursmunurinn sé lítill sem enginn?
Er ekki skilnaðartíðnin um 60%?
Og hver hefur ekki reynt að ráðleggja fólki til eða frá með þeirra ástarlíf án þess að það fari neitt eftir því sem sagt er? Fólk gerir alltaf það sem því langar sjálft. Lækurinn rennur sína leið.
Er á meðan er – heimurinn hossar mér
Þær eru nokkrar miðaldra konunar sem ég þekki sem hafa skilið við menn sína, sagt ráðskonustarfinu lausu og geta ekki fyrir sitt litla líf hugsað sér að hefja sambúð aftur. Þær njóta þess að sitja heima hjá sér, lesa spennusögur, sötra rauðvín með tærnar upp í loft, smjatta á lífrænu súkkulaði og hafa bara sína eigin óhreinu sokka að hugsa um. Og hefðu þær kost á að spila Olsen Olsen með laglegum yngri manni af og til, taka hann á hestbak sér til upplyftingar annað slagið, hvernig sem er … ég segi ekki meira. Þú veist svarið.
Tímarnir breytast og viðhorfin með
Svo er það tíðarandinn. Mér virðist satt að segja sem fólki sé orðið meira sama aldursmun en fyrir tíu til fimmtán árum. Fólk eldist líka eitthvað öðruvísi en þegar amma mín var ung. Fertugt fólk var á grafarbakkanum í gamla daga en sjáið J Lo, Halle Berry, Söru Jessicu Parker og þetta fallega fólk allt. Það verður bara glæsilegra eftir því sem það eldist. Maður spyr sig hvar þetta endar.
Madonna er sannarlega ekki eina fræga konan sem er komin yfir fimmtugt sem á sér mikið yngri ástmann.
Susan Sarandon, lætur ekki mikið yfir sér. Fær sér ekki grill á tennur og gengur með pípuhatt en hennar kærasti er mikill hipster og heilum 30 árum yngri en hún sjálf. Susan er nefninlega 67 og kæró er 36 (lestu um þau hér).
Karlarnir slá heldur ekki slöku við að vanda. Leikarinn Al Pacino á sér líka mikið yngri konu en hans dama er fædd tæplega 40 árum á eftir honum sjálfum. Lucia Sola var 33 þegar þau fóru að vera saman en Al gamli 72 ára.
Við sem lesum Hollywoodpóstinn höfðum þó ekki heyrt mikið látið af þessu sambandi enda telst það almennt ekki til tíðinda þegar efnaðir eldri karlar ná sér í yngri konur (nema kannski þegar Cal og Anna Mjöll byrjuðu saman, það var líka mjög spes).
Getur þetta gengið? Þarf það að ganga?
Margir myndu halda því fram að svo breitt aldursbil gæti varla blessast í sambandi því fólk er alltaf að taka út mismunandi þroska á mismunandi aldursskeiðum. Tuttugu og fimm ára vill kannski fara út á lífið og skemmta sér á djamminu meðan fimmtíu og fimm ára vill heldur vera heima að hlusta á hljóðbók, sötra flóaða mjólk og sortera bækur.
Það er spurning.
Svo er þetta kannski bara alls ekki alltaf þannig? Tuttugu og fimm ára getur verið með þroskað sálarlíf og fimmtíu og fimm ára getur verið ung í anda og ekki átt neina samleið með jafnöldrum sínum. Sumir eru mjög extrovert og aðrir introvers, þá skiptir aldurinn ekki öllu heldur hvernig fólk á saman.
Svo er það algengt að listafólk á það til að eldast með einhverjum allt öðrum hætti en þau sem lifa þessu hefðbundna 9-5 lífi. Listamenn lifa, vinna og hugsa oft „öðruvísi“ og því ekkert skrítið að ástarlíf þeirra sé stundum óvenjulegt og ekki samanburðarhæft við það sem litla Gunna og litli Jón miða við sem norm.
Og þá komum við kannski að kjarna málsins. Til hvers að hafa norm í ástarmálum? Erum við ekki að berjast gegn því fyrirbæri, meðal annars með hinsegin dögum og annari vitundarvakningu?
Þegar öllu er á botninn hvolft hlýtur fullorðið fólk að mega gera það sem því sýnist í einkalífinu og vera með þeim sem því sýnist án þess að eiga yfir sér dómhörku annara, bölbænir og dómsdagsspár? Er það ekki?
Svo lengi sem þetta ástarlíf er ekki að trufla aðra sérstaklega og skaðar engann, þá hlýtur þetta allt að vera í fínasta.
Ég set læk á það. Burt með fordóma!
…og læt hér þessum vangaveltum lokið.

Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.