Hæ. Ég heiti Guðný, ég er 28 (og hálfs) ára gömul og ég hef aldrei verið í sambandi.
Í lengri tíma fannst mér að það væri eitthvað sem ég ætti að halda fyrir sjálfa mig, leyndarmál sem væri best að halda frá öðrum eftir bestu getu.
Ég sá það nefnilega sem einhvers konar áfellisdóm yfir sjálfri mér. Eftir allt saman þá eru sambönd hinn eðlilegasti hlutur. Ég veit um fullt af fólki sem fer úr einu sambandi í annað, án vandkvæða. Það að ég gerði ekki slíkt hið sama hefur óhjákvæmilega orðið til þess að ég hafi spurt mig:
„Hvað í fjandanum er eiginlega að mér?“
Mér fannst því eftirfarandi bréf eftir Emily Bracken áhugavert en það er skrifað til framtíðarmaka hennar.
Bréfið er skrifað til þess að biðjast afsökunar á því að þau hafi ekki náð saman og til þess að biðla til viðkomandi að hann, já eða hún, muni bíða eftir að Emily verði tilbúin í samband þeirra.
Ástæðurnar sem hún gefur upp fyrir því að þau séu ekki saman ennþá eru:
1. Ég hef ekki hent listanum yfir það hvernig ég tel að þú eigir að vera.
2. Ég er með persónu núna sem er ekki sú rétta fyrir mig.
3. Ég er ekki tilbúin til þess að vera elskuð skilyrðislaust.
4. Af því að líf mitt er ekki í réttum skorðum, er ég hrædd um að þú munir hafna mér.
5. Ég held ennþá að dramatík sé merki um ást.
6. Ég hef viljandi haldið huganum á mér of uppteknum til þess að hugsa með hjartanu.
7. Ég þarf að deita meira til að skilja hvað mér líkar og hvað mér líkar ekki.
8. Ég mun ekki kunna að meta þig fyrr en lífið hefur tekið mig í karphúsið.
9. Ég er of upptekin af mínum eigin þörfum.
10. Ég kann ekki að skapa þá tilfinningu um „heima“ sem býr í hjarta mínu.
Við erum ansi oft upptekin af því að tilheyra, að passa inn í kassann, þrátt fyrir að það henti okkur kannski alls ekki. Það getur hins vegar vel verið að það sé ýmislegt sem við þurfum að vinna úr, áður en við erum tilbúin til þess að vera í heilbrigðu ástarsambandi.
Sjálf hef ég komist að því að það er nákvæmlega ekki neitt að mér. Ég hef hins vegar gefið mér nægan tíma til að finna út úr mínum málum. Ég hef farið úr því að eltast við stráka sem höfðu engan sérstakan áhuga á mér, yfir í að verða upptekin við það að greiða úr alls konar misskilningi um sjálfa mig, samskipti mín við aðra, og líf mitt í heild. Ég er enn að finna út úr því hver ég er og hver ég vil verða.
Ég komst að því að ég átti mér, og á mér enn, milljón drauma sem mig langar til að láta rætast, og ég er ennþá að vinna í því. Hvort ég geri það ein eða með annarri manneskju skiptir ekki öllu máli. Það er réttur tími og réttur staður fyrir allt.
Ætli ástin muni ekki finna mig á nákvæmlega því andartaki þegar ég verð tilbúin – og ekki mínútu fyrr.
Guðný Guðmunds fæddist árið 1986 og ólst upp á Vestfjörðum. Hún hefur aðallega verið búsett í Reykjavík en líka alið manninn í Barcelona, Finnlandi og Englandi. Í dag starfar hún sem texta- og hugmyndasmiður auk þess sem hún rekur Innblástur.is, upplýsingasíðu um nám, atvinnu og ferðalög fyrir ungt fólk. Guðný hefur þó mestan áhuga á andlegum málefnum og sjálfsrækt.