Af hverju breytast konur stundum í mennina sem þær eru að deita? Af hverju höldum við að til þess að þeir verði meira spenntir fyrir okkur, þá ættum við að taka upp þeirra áhugamál, þykjast vera svalari eða bara öðruvísi týpur en við erum í raun og veru.
Þú kannast við þessa stelpu. Hún byrjar með grænmetisætu og þá er hún allt í einu farin að gera chia graut og falafel heima hjá sér, borða á Gló eða Lifandi Markaði í hádeginu og elska ketti og hvali. Svo byrjar hún með einhverjum hipster ljósmyndara og þá er næsta skref að fá sér tattú og kaupa myndavél, lesa ljósmyndabækur, læra nöfn þekktra ljósmyndara.
Svo byrjar hún með björgunarsveitarmanni og það næsta sem þú fréttir er að hún fótbrotnar á Eiríksjökli við björgunarstörf. Hún hættir með skátanum og reynir hvað hún getur að fela tattúið af því næsti kærasti er dæmigerður sjálfstæðismaður sem grillar á kvöldin. Hún kaupir sér kápu í Karen Millen og er allt í einu byrjuð að borða kjöt aftur. Kallinn svo duglegur að grilla sjáðu til.
Með gerviáhuga á golfi
Það er ótrúlegt að sjá hvað margar konur svíkja alveg sjálfar sig þegar þær fara í sambönd. Af hverju gerum við þetta? Til hvers að breytast í aðra manneskju en þú ert, jafnvel furðulega útgáfu af unggæðingslegum karlmanni? Til hvers að gera sér upp áhuga á golfi, ljósmyndun, formúlunni, fótbolta, mótorhjólaakstri og svo framvegis, til að maðurinn sem þú ert skotin í verði enn skotnari í þér. Og þetta getur jafvel verið skaðlegt heilsunni þinni því kannski drekkur hann vín á hverjum degi og þú ferð að gera það líka, honum til samlætis.
Þeir halda sínu striki
Aldrei sjáum við karlmenn gera sér upp áhuga á því sem konur hafa áhuga á? Og breytast í konuna sem þeir eru að deita. Við sjáum ekki vini, bræður okkar eða frændur taka allt í einu upp á því að prjóna, baka cup cakes, horfa á Grays Anatomy, fara á hugleiðslunámskeið og pæla í andlegum málum bara af því þeir eru byrjaðir með nýrri konu sem hefur áhuga á slíku. Eða hvað? Nei. Það er bara ekki þannig. Þeir halda sínu striki.
Allt á forsendum mannsins
En svo ótal oft höfum við séð sumar vinkonur okkar hreinlega breytast í mennina sem þær eru að hitta. Kvenkyns útgáfur af þeim. Og mjög fljótlega verður allt í einu allt á forsendum mannsins. Hún getur ekki hitt þig af því hann er með ekki sjálfur með nein plön. Hún gerir ekkert nema ráðfæra sig fyrst við hann, hún verður einskonar framlenging af maka sínum. Er þetta málið? Að breytast í kvenkyns útgáfu af manninum og verða svo eins og framlenging af honum.
Að gefa drauma sína, áhugamál og lífstíl upp á bátinn. Breyta um mataræði og fara að drekka óhóflega, til að ganga í augun á eða geðjast manni sem hafnar þér svo jafnvel eftir einhvern tíma?
Ræktaðu garðinn þinn stelpa
Er þá ekki betra að styrkja sjálfa sig, einbeita sér að því hver þú ert, komast að því hverju þú hefur gaman af, hvað gefur þér gleði í lífinu, hver eru áhugamálin þín – hvað finnst ÞÉR skemmtilegast? Eigum við ekki að komast að því hverjar við erum í stað þess að breytast í mennina sem við kynnumst á lífsleiðinni og fylgjum í lengri eða skemmri tíma. Mun það, að þekkja okkur sjálfar, ekki gefa okkur meira þegar til lengri tíma er litið?
Eigum við ekki frekar að lifa þessu lífi á eigin forsendum í stað þess að lifa í gegnum menn sem missa áhugann þegar við erum búnar að gera svo miklar málamiðlanir að við erum orðnar eins og litlaus skugginn af manninum. Hvers vegna ættum VIÐ að hafa áhuga á því? Hvers vegna ættum við eitthvað frekar en hann að hætta að sinna áhugamálum okkar? Hvers vegna erum við að gera okkur upp áhuga á hans áhugamálum? Fæstir karlmenn kunna hvort sem er að meta eða skilja þá orku og alúð sem konur eiga til að setja í sambönd. Þeir missa yfirleitt áhugann eftir því sem áhugi þinn verður meiri. Kunna bara ekki að meta framlagið.
Fáðu því frekar áhuga á sjálfri þér. Ræktaðu garðinn þinn. Þú munt uppskera svo miklu meira.
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.