SAMBÖND: Að vera ekki ástfangin og sætta sig við það? Eða ekki?

SAMBÖND: Að vera ekki ástfangin og sætta sig við það? Eða ekki?

pam and jim

Það er alveg einstaklega margt sem ég þoli ekki við það að vera einhleyp, númer eitt er það hvað ég þarf að borga háa leigu og númer tvö er það að vera stimpluð sem einhleyp.

Persónulega finnst mér engin skömm fylgja því að vera einhleyp (fyrir utan þá einstaka þunglyndisdaga sem ég upplifi þar sem ég horfi á helling af Friends og græt í koddann minn yfir því að enginn vilji mig) en skömmin sem fólk tengir einhleypisstimplinum er engu að síður oftar en ekki notuð til þess að neyða mig til þess að finnast ég þurfa að vera ástfangin af eða skotin í einhverjum öllum stundum.

Ekki misskilja mig, ég væri alveg til í að vera skotin í, eða ástfangin af einhverjum öllum stundum (þá er ég að meina af sama einstaklingnum) ég verð bara ekki skotin auðveldlega og hvernig ég verð ástfangin hef ég ekki hugmynd um en ég kemst vonandi að því einhvern daginn. Ég hef aldrei verið, til að vitna í Cher Horowitz,

“Totally butt crazy in love”.

Ég hef verið skotin og laðast að einhverjum líkamlega en í flest skipti sem ég hef átt í sambandi við einhvern, hvort sem það samband entist í nótt eða meira, hef ég einfaldlega verið hrædd við að neita mér um þessa æðislegu tilfinningu sem ást á að veita mér.

Ég hata þig ekki fullkomlega

Ég hef verið hrædd við að enda ein og hef þess vegna staðið í tilraunastarfsemi hvað sambönd varðar í þeirri von að tilfinningar mínar sem byrja sem “ég hata þig ekki fullkomlega” gætu kanski, mögulega orðið að ást. Ég held að allir heilvita einstaklingar viti að þannig tilraunir virka aldrei, sama hvað manneskjan sem maður hatar ekki 100% er aðlaðandi.

Það er pressan sem ég finn fyrir ásamt endalausum spurningum um mitt ástarlíf sem setja tilfinningar mínar gagnvart ást allar úr skorðum.

Vissulega getur verið að ég sé óþarflega viðkvæm en staðreyndin er samt sem áður sú að áherslan sem sett er á það að finna sér maka er óþarflega mikil hvert sem litið er.

Tilfinningar mínar gagnvart ást stangast á að flestu, ef ekki öllu leyti. Ég vil trúa því að ég sé rómantísk og ég trúi því að ást geti sigrað allt (sönnunargagn #1: #LoveWins) en ég hata samt sem áður PDA, The Notebook (fyrir utan mjög svo sexy hattinn hans Ryans) og Twilight. Ég elska kynlíf og kynferðislegt frelsi einstaklinga og ég trúi því staðfastlega að kynlíf í sambandi, þar sem traust er ríkjandi, sé það besta sem hægt er að upplifa en samt sem áður hef ég upplifað mun meira af einnar nætur samböndum en þessum sem allt hæpið er í kringum (þessum af lengri gerðinni).

Sumum finnst þetta kannski það þunglyndislegasta og truflaðasta sem þeir hafa lesið.

Engar áhyggjur ég er alveg sama sinnis að sumu leyti og það á sérstaklega við þá daga sem ég sit ein í sófanum mínum í 10 klukkutíma samfleytt og á meðan ég horfi á Doctor Who og óska þess að David Tennant væri maðurinn minn á meðan ég háma í mig þrjá poka af örbylgjupoppi, — en flesta daga er ég mjög hamingjusöm með stöðu mála og það er sérstaklega þá daga sem ég sit ein í sófanum mínum í 10 klukkutíma samfleytt og á meðan ég horfi á Doctor Who og óska þess að David Tennant væri maðurinn minn á meðan ég háma í mig þrjá poka af örbylgjupoppi.

Fallega hálffulla glasið mitt

Ég á ekki í neinum vandræðum með það að viðurkenna að ég væri frekar til að vera í ástríku og traustu sambandi heldur en að vera ein en það þýðir samt ekki að ég væri til í að sætta mig við hvaða samband sem er. Ef ég fer í samband þarf það að vera aukadropi í hálffulla glasið mitt en það á ekki að vera það sem gerir glasið mitt hálffullt.

Ég veit ekki hversu oft ég hef verið skömmuð fyrir það að gera allt of miklar kröfur þegar kemur að samböndum og mér verið sagt að ég muni aldrei finna ástina ef ég slaka ekki á kröfunum. En það eru alveg svakalega fáir sem meðtaka það að ég mun aldrei slaka á kröfunum og ég mun ætlast til þess sama af þeim einstaklingi (eða ketti) sem ég mun enda á að eyða ævikvöldinu með.

Enda finnst mér ekki til of mikils mælst að að ætlast til þess af sambandi að  það sé fullt af ástríðu og vináttu ásamt trausti og gagnkvæmri virðingu.

Mér finnst ekki til of mikils mælst að vilja hversdagslega ást þar sem orð eru oft óþörf og dagleg verk verða að rútínu þar sem við snúumst um hvort annað og stelum kannski litlum kossum af hvoru öðru á milli verka.

Þar sem við rífumst heiftarlega um hvort okkar á að fara út með ruslið í það skiptið en föttum svo seinna að þetta var líklega kjánalegasta riflildi sem við höfum lent í. Ég vil ást sem er það ófullkomin að hún verður fullkomin. Ást sem er það sársaukafull að hún er það besta sem ég hef upplifað.

Ég vil eitthvað frábært, eitthvað sem er fullkomið fyrir mig en aðrir sjá ekki hvernig ég þoli og ég sé ekkert að því að halda mig við þessar kröfur. Svo ég held áfram að vera ekki ástfangin, en vona að einn daginn verði ég það.

Share on facebook
Deila á Facebook
Share on twitter
Deila á Twitter
Share on pinterest
Deila á Pinterest