Ég las nýlega grein sem fjallaði um rannsókn sem sýndi fram á það að karlmenn fíla ekki fyndnar konur.
Niðurstöður rannsóknarinnar bentu til þess að karlmenn sækjast frekar eftir konum með húmor sem bólfélaga eða sem einnar nætur gaman en þannig konur vilji þeir í flestum tilvikum ekki í langtíma samband.
Þegar karlmaður velur sér konu í langtíma samband vill hann frekar konu sem hlær að brandörunum hans heldur en konu sem sér um það að segja brandarana. Án þess að slá sjálfri mér of mikla gullhamra þá sá ég þarna góða útskýringu á því af hverju ég hef verið einhleyp 92% ævi minnar (já ég reiknaði það út).
Sú útskýring að ég sé of fyndin og skemmtileg til að laða að mér karlmenn er einfaldlega bara svo miklu betri en það að ég sé óhæf um það að laða að mér aðila af gagnstæða kyninu.
Hún dregur athyglina frá þeirri staðreynd að ég gæti jafnvel verið of feimin eða óframfærin til þess að ná mér í mann og stoppar stöðugar vangaveltur mínar um það hvort ég gæti kannski, mögulega, verið nokkrum kílóum of þung til að heilla nokkurn karlmann upp úr skónum.
Eftir þessa uppgötvun er það ekki bara sú staðreynd að ég er alltof ólík Scarlett Johansen og Katy Perry í útliti sem er að hamla mér í því að fjölga mannkyninu (allavega með varanlegum félaga), heldur er offramboði mínu á bröndurum nær eingöngu um að kenna.
Það á líka eftir að vera svo ótrúlega skemmtilegt að svara eilífum spurningum um vöntun mína á kærasta með því að segja: Veistu…ég held bara að ég eigi eftir að pipra að eilífu þar sem nýlegar rannsóknir sýna fram á að ég sé einfaldlega of fyndin til að ná mér í mann!
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.