Einn þáttur í óheilbrigðu sambandi er þegar fólk ætlast til þess að maki sinn breyti sér.
Breytingar að vissu marki geta verið eðlilegar og uppbyggjandi fyrir sambandið en ég er að tala um breytingar sem fela í sér valdabaráttu. Algengt leið til að stjórna makanum er að biðja hann um að breyta sér, falla í það mót sem maður vill að hinn passi í svo manni líði betur með sig og hafi á tilfinningunni að maður stjórni og “hafi yfirhöndina” í sambandinu.
Nýlegt dæmi sem ég hef heyrt var af pari sem var í ferðalagi með vinafólki. Samferðamenn voru vitni að því þegar maðurinn lítillækkaði konu sína ítrekað með illkvittnum athugasemdum á borð við “Ætlar þú að borða þetta, ertu ekki búin að fitna nóg?”, “Ertu heimsk?” og “Djöfull ertu ömurlega leiðinleg!”..
Það sem sjokkeraði samferðamenn þeirra mest var að konan, sem nota bene er mjög fögur, klár, vel menntuð og grönn, lét þessar athugasemdir og illkvittni yfir sig ganga í stað þess að svara fyrir sig.
Þetta er klassískt dæmi um andlegt ofbeldi og valdabaráttu í sambandi og því miður gerist þetta oftar en maður heldur, svona ofbeldi fer oftast leynt og aðstandendur geta verið mjög sein að sjá það ef þau þá sjá það yfir höfuð. Ég vil koma að þessu vegna þess að ég þekki of margar konur sem eftir áralangt andlegt ofbeldi á borð við þetta hafa misst sjálfstraustið.
Á endanum trúir hún makanum, sveltir sig fyrir hann, þorir ekki að opna munninn af hræðslu við að segja eitthvað heimskulegt og leyfir makanum að ráða ferðinni til að forðast ágreining.
Ef þið kannist eitthvað við svona hegðun eða þekkið einhvern sem er í svona sambandi þá skulið þið endilega benda á þennan pistil, hann gæti opnað augu einhvers sem lifir í niðurbrjótandi sambandi. Hér er einnig áhugaverður pistill á ensku um “Manipulative” sambönd.
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.