1. Að vera í sambandi er vinna. Við eigum öll okkar líf við erum í starfi, það þarf að huga að heimilinu, ala upp börnin, hitta vinina og svo vill makinn fá sinn tíma líka! Því er nauðsynlegt að tjá sig -segja hreint út hvað býr í hjartanu og í huganum.
2. Þú getur aðeins breytt þér, ekki makanum. Ef þú elskar einhvern og heldur að eftir einhvern tíma að makinn muni breyta þeirri hegðun sinni sem fer svo hrikalega í taugarnar á þér, þá gætir þú orðið fyrir vonbrigðum. Komdu frekar hreint fram, sestu niður með makanum og ræddu málin þannig að makinn viti hvað það er sem þú vilt að breytist.
3. Öll rifrildi stafa yfirleitt út af því að þú ert hrædd/ur eða sár. Þegar þú ert í uppnámi teldu upp að tíu og veltu fyrir þér hver raunveruleg ástæðan, því oft liggur vandinn hjá manni sjálfum. Sannleikurinn er oft sá að uppnámið er ekki af völdum makans.
4. Kvenfólk og karlmenn eru mjög ólíkar verur það er staðreynd og því fyrr sem þú áttar þig á því að við erum bara ólík (enda væri lífið frekar leiðinlegt ef við værum öll mótuð í sama formið) því fyrr sem þú gerir þér grein fyrir því verður sambúðin enn skemmtilegri og þægilegri.
5. Komið vel fram við hvort annað á einhvern hátt á hverjum degi. Á hverjum morgni átt þú tækifæri á að gera samband ykkar enn betra og dýpra með því að einfaldlega að vakna með jákvæðu hugarfari og fara með gleðina inn í daginn. Þú hefur möguleika á að sýna makanum að þú virðir og elskir hann/hana því það eru litlu hlutirnir sem skipta máli: útbúa kaffi og nesti, segja falleg orð, faðmlag, koss á kinn og skrifa skilaboð á spegilinn – þetta gerir lífið enn betra.
6. Reiði er alger tímasóun. Að vera reið/ur er tilvalin leið til að drepa allt niður. Því reiðin gerir þig sjálfhverfa/n og fyrir vikið þá sérðu ekki það sem gott og fallegt er. Ef makinn fer í taugarnar á þér, dragðu þig þá í hlé láttu reiðina hjaðna og þegar þú hefur róað þig þá er loksins rétti tíminn til að “ræða málin” við makann. Oft eru hlutir sagðir í reiði sem særa og ekki er hægt að taka tilbaka.
7. Finnið leið til að verða bestu vinir. Fyrir suma þá hljómar þetta frekar órómantískt en fólk sem á líka sinn besta vin í makanum segir ekkert dýrmætara.
8. Þú berð ábyrgð á þinni eigin hamingju. Engin önnur manneskja getur gert þig hamingjusama. Hamingjan er algerlega á þinni ábyrgð og eitthvað sem þú verður að finna hjá sjálfri þér. Ef þú ætlar að kenna makanum um hversu óhamingjusamur/söm þú ert, hugsaðu málið og reyndu að finna út hvað vantar hjá þér. Oft er það afar einfalt og þá hugarfar þitt sem þú þarft að breyta.
9. Komdu fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig. Og gefðu af þér það sem þú vilt fá tilbaka. Því þarfir okkar breytast með tímanum, ef þú vilt fá skilning, reyndu þá að sýna stuðning. Ef þú vilt meiri ást, gefðu þá af þér meiri ást.
Díana Bjarnadóttir útlitsráðgjafi og stílisti hefur margra ára reynslu við að aðstoða fólk með fataval. Hún starfaði meðal annars á Ítalíu og í London þar sem hún var stílisti stjarnanna hjá Giorgio Armani og Gucci.
Hefur einnig verið búsett í svíþjóð, Hollandi og á Selfossi en býr nú í Reykjavik. Díana er einnig með menntun í förðunarfræði. Greinar og ljósmyndir Díönu hafa m.a. verið birtar í tímaritunum Veggfóður, Ský og Smáralindarblaðinu. Díana er fædd 1. maí og er því naut.