Flest getum við viðurkennt að hafa verið í (eða mögulega vera núna) í sambandi sem er útrunnið fyrir löngu.
Því miður eru oft margar ástæður fyrir því að við ílengjumst, en svo rennur upp sá dagur að maður sér ljósið og vel það. Þá kemur maður sér úr sambandinu. Mestu skiptir að sjá sambandið í réttu ljósi, fyrir það sem það er, og ekki síður, – það sem það er ekki.
Þetta eru merki þess að þú ert ekki í heilbrigðu sambandi:
1. Þér líður eins og þú getir aldrei gert neitt rétt.
Hann er alltaf að setja þig niður eins og þú sért ekki nógu góð. Hann gerir grín að persónuleika þínum og þér líður eins og þú eigir að skammast þín. Þér finnst eins og hann afsaki þig bara þegar þú hegðar þér nákvæmlega eins og hann vill, og jafnvel það er ekki nógu gott. Þér finnst þú lítils virði þegar hann talar niður til þín og það tekur frá þér bæði styrk og sjálfstraust.
2. Það snýst allt um hann – aldrei þig.
Þú ert auðvitað þínar tilfinningar en hann vill ekki hlusta á þig tala um þær. Þið hafið aldrei átt tvíþætt samtal þar sem hann hlustar á það sem þú hefur að segja, af virðingu, og tekur það til sín sem hann má taka. Í stað þess að hann hlusti á þig og viðurkenni tilfinningar þínar þá berst hann við þig þar til hann fær að eiga síðasta orðið. Í eitruðu sambandi ertu sjaldan eða aldrei spurð út í sjálfa þig og samtölin eru einhliða. Ef þú færð að opna þig þá er það yfirleitt í mjög stuttan tíma í senn og hann er fljótur að ná að snúa samtalinu aftur að sjálfum sér. Nú eða í það að niðurlægja þig.
3. Þér finnst erfitt að upplifa góðar stundir með honum.
Hver dagur er ný áskorun. Hann er alltaf að finna eitthvað nýtt til að rífast yfir. Tilraunir hans til að stjórna því hvernig þú hagar þér er tilraun til að hafa stjórn á hamingju þinni. Og það sem meira er, svona fólk einbeitir sér alltaf að því leiðinlega og neikvæða því það vill draga þig niður á sama plan og þau eru á: óhamingjusöm og vansæl – þó þau muni auðvitað aldrei viðurkenna þessa taktík.
4. Þér finnst þú ekki geta verið þú sjálf með honum.
Þér finnst þú ekki hafa frelsi til að tjá hug þinn. Þér finnst eins og þú verðir að setja upp grímu til að hann samþykki þig. Þú gerir þér grein fyrir því að þú kannast varla lengur við sjálfa þig og það sama gildir um fjölskyldu þína og vini sem velta því fyrir sér hvað varð um þig.
5. Þér líður eins og þú hafir ekki pláss til að fá að vaxa og þroskast.
Þegar þú reynir að vaxa og hlúa að sjálfri þér þá bregst hann við því með því að gera grín að þér og hæðast að þér. Hann hvetur þig aldrei, þvert á móti dregur hann úr þér og heldur því kannski fram að þú verðir alltaf eins.
Ef þú kannast við eitthvað af þessu skaltu líka lesa þessa grein. Gangi þér vel. Mundu að um leið og einar dyr lokast, – opnast aðrar.
[þýtt og endursagt: womenshealth]
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.