Sambönd eru eins misjöfn og þau eru mörg. Þó erum við öll mannleg og opin samskipti eru gríðarlega mikilvæg í öllum samböndum, þá sérstaklega milli maka til að forðast rifrildi og leiðindi.
Þegar pirringur á sér stað
Í stað þess að byrgja öll smáatriði inni þar til þau verða að tifandi tímasprengju, sestu þá niður með makanum í rólegheitunum og ræddu hvað er að angra þig.
Þetta kemur í veg fyrir að þú missir stjórn á skapinu kannski þegar þið eruð að rökræða aðra hluti. Mikilvægt er að vera búin að róa sig niður, taka sér göngutúr, hugleiða og hugsa um hvað þú ætlar að segja, hvernig þú ætlar að orða hlutina og hver ástæðan er fyrir gremjunni.
Beinist pirringurinn raunverleg a að makanum eða liggur eitthvað annað að baki?
Lykilsetningar
Dæmi: “Mér líður eins og þú takir stundum ekki eftir mér”
Í staðinn fyrir: “Þú hundsar mig alltaf”. Við verðum að forðast alhæfingar muna að særa ekki aðra með hlutum sem við segjum. Þó svo að við gætum haft rétt fyrir okkur þá þarf ekkert að vera að makinn sé búinn að taka eftir atriðunum sem eru að pirra mann.
Uppbyggileg gagnrýni, dæmi: “Þú brýtur þvottinn fallega saman” eða “Ég kann að meta að þú takir þátt í húsverkunum ” Og svo kemur hitt: “En gæti verið að þú gleymir stundum að ganga frá þvottinum?” eða “Mér sýnist þú samt gleyma stundum að þvo pottana þegar þú vaskar upp”.
Ekki öskra eða segja eitthvað óhugsað
Það hefur betri áhrif að tala í eðlilegri tónhæð heldur en að öskra á hvort annað. Það er sniðugt að taka eins og nokkrar mínútur/klukkutíma í sitthvoru lagi áður en þið talið saman ef þið verðið reið eða æst. Þó við séum öll mannleg og gerum mistök þá er þetta betri aðferð en að öskra eða hækka röddina verulega. Skilaboðin komast til skila og æsingurinn er minni sem gerir það að verkum að minni hætta er á því að þið særið hvort annað með niðurlægjandi athugasemdum. Þar fyrir utan heyra flestir minna því hærri sem rómurinn verður.
Dæmi: Fjölfarinn staður eins og hljóðlátt og rólegt kaffihús er oft góður vettvangur til að ræða málin, það er að segja ef þau eru ekki af stærri gerðinni.
Ástin er yndisleg og í samböndum verður að vera sveigjanleiki til staðar, samræður og rökræður. Talið saman og njótið sambandsins betur og alls þess sem það hefur upp á að bjóða.
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.