Framhjáhald er með því versta sem getur komið fyrir þá einingu sem myndast hefur í sambandi. Sá eða sú sem haldið er framhjá upplifir djúpan sársauka, höfnun og svik sem erfitt getur verið að vinna úr en það er þó hægt, – eða svo segja sérfræðingarnir.
Ef þú átt þessa reynslu að baki er gott að fara yfir eftirfarandi lista og sjá hvort þið getið ekki notað heilræðin til að bæta skaðann og byggja traustið upp að nýju.
1. Minntu þig á þakklætið
Burtséð frá því hvað gerðist þá hjálpar það mjög að minna sig á að vera þakklát fyrir það góða. Þegar þig verkjar í hjartað yfir svikum og lygi skaltu einbeita þér að allt öðru, nefninlega því hvað þú ert þakklát fyrir í sambandinu, í fari makans, hvað gerir hann vel sem þér finnst þakkar vert? – Einbeittu þér að þessu og finndu hvernig þér fer að líða öðruvísi.
2. Viðurkenndu og leyfðu tilfinningunni að klárast
Þegar þú ert særð þá gætirðu átt það til að fara í ásakanir, flýja, dæma eða reyna að réttlæta það sem hann gerði. Ef þú getur bara staldrað við og leyft öllum þessu erfiðu tilfinningum að koma upp á yfirborðið án þess að hugsa um þær, bara láta hjartað um þetta, þá áttu eftir að undrast hvað þér léttir á eftir. Stundum er best að líða bara eins og manni líður í stað þess að berjast gegn því.
3. Hafðu tilganginn á hreinu
Þegar maður er sár og svekktur þá á maður til að hugsa aftur og aftur um það sem gerðist. Ef þú gerir það þá finnurðu bara enn meira til. Hugsaðu frekar um hvert þú stefnir og hvernig á að komast þangað. Einbeittu þér að lausninni og svörin munu berast.
4. Bætið nándina milli ykkar.
Þegar fólk heldur framhjá þá virðist ástæðan þar á bak við sjaldnast snúast um kynlíf. Yfirleitt snýst þetta um skort á nánd og þarfir sem ekki hefur tekist að fylla. Til að ná að heila sambandið aftur þurfa báðir aðilar að læra að vera tilfinningalega nánari. Þetta gerið þið með því að vera meira saman, tala saman og deila hugsunum, tilfinningum, vonum, ótta… með öðrum orðum verðið þið að taka sénsinn á að sýna viðkvæmni. Gefðu maka þínum tækifæri á að vera nánari þér.
5. Gerið eitthvað skemmtilegt saman.
Pör sem eyða tíma saman og deila áhugamálum ná sér mun fyrr á strik og jafna sig fyrr eftir framhjáhald. Finnið einhver áhugasvið sem þið getið ræktað saman, finnið eitthvað að gera sem þið njótið bæði. Hafið í huga að öll hobbý þurfa ekki að vera kostnaðarsöm. Það er fullt sem þið getið gert sem þarf ekki að kosta peninga.
6. Sjáið fortíðina og framtíðina fyrir ykkur.
Prófaðu að rifja upp af hvernig sambandið ykkar var þegar þið kynntust, af hverju fóruð þið að vera saman? Hvað sástu við hann? Hvernig var sambandið ykkar þá? Hugsaðu svo um framtíðina… Hvernig verða elliárin ykkar, ferðalögin og leikir með barnabörnunum. Fjölskyldulífið, – hvernig verður það? Sjáðu fyrir þér hvernig þetta getur orðið, líf með manneskjunni sem þú elskar mest, manneskjunni sem þú giftist og/eða ákvaðst að búa með og deila lífi með.
7. Hvaða tilfinningar eru eðlilegar?
Þú ert reið út í maka þinn en þú upplifir líka sárar tilfinningar í eigin garð. Þú veltir því fyrir þér hver þú sért og hvaða þýðingu þú hefur í lífi maka þíns. Hvort þú skiptir hann máli. Þú veltir því kannski fyrir þér hvort þú sért ekki lengur aðlaðandi í hans augum, hvort þú hafir mögulega sjálf orsakað framhjáhaldið. Það hjálpar að lesa bækur og vefrit um hvaða tilfinningar er eðlilegt að upplifa eftir áfall sem þetta og þú sérð að þú ert ekki ein um hugsanirnar.
8. Spurðu um það sem þér finnst þú þurfa að fá svör við.
Hvað stóð sambandið lengi? Var það líkamlegt/kynferðislegt? Hvað voru lygar, notaðar til að fela sambandið? Hvað eyddirðu miklum peningum í sambandið? Þarf að fara í kynsjúkdómatékk?
9. Ekki spyrja um það sem skiptir ekki máli.
Þig langar eflaust að fá nákvæm svör, til dæmis þegar kemur að kynlífinu eða þá að þú vilt að maki þinn beri þig saman við manneskjuna sem haldið var við. Ekki gera það. Fókuseraðu frekar á sambandið ykkar, ekki viðhaldið/manneskjuna sem hann/hún var með. Það skiptir í raun engu máli ef þið ætlið að vera saman.
10. Frestaðu því að taka loka ákvarðanir.
Það gæti tekið þig og ykkur langan tíma að átta þig á hvað var sem leiddi til framhjáhaldsins og hvert skal halda eftir það. Það fyrsta sem kemur upp í huga þinn er eflaust ekki það skynsamlegasta. Reyndu að fresta því að taka afdrifaríkar ákvarðanir þar til þú ert orðin skýrari í hugsun.
11. Bíddu þar til öldurnar lægir.
Leyfðu öldu áfallsins að ganga yfir þig, sjokkið, sársaukinn, óttinn og sorgin mun rísa þar til þessar tilfinningar ná hápunkti sínum og hníga svo aftur, alveg eins og öldur hafsins. Bíddu þar til þetta gengur allt yfir og áttaðu þig þá á nýjum og breyttum aðstæðum. Það er aldrei gott að taka ákvarðanir í reiði og hvatvísi. Það mun gera slæmar aðstæður enn verri.
12. Forvarnir.
Reynið sem par, að koma í veg fyrir að framhjáhaldið taki sig upp aftur með því að líta um öxl, skoða vandlega hvað gerðist, horfist í augu við það allt og skrifið niður hvert þrep sem var stigið og leiddi til þess að framhjáhaldið átti sér stað. Skrifið svo hjá ykkur hvað þið vilduð að hefði verið gert með öðrum hætti. Með þessari aðferð er auka líkurnar á að þið finnið fyrir öryggi ef svipaðar aðstæður verða í framtíðinni.
13. Bætið sambandið og gerið það betra en nokkru sinni fyrr
Farið í hjónabandsráðgjöf, á námskeið um hvernig bæta megi sambandið ykkar, skilja veiku hliðar þess og hvernig megi styrkja það fyrir framtíðina svo að þið bæði verðið hamingjusöm í sambandinu. Því sterkari sem þið eruð í að tala saman um viðkvæm mál, því minni eru líkurnar á að þið fjarlægist hvort annað eða látið reiðina ná tökum á ykkur með tilheyrandi sprengjum og rifrildum.
14. Hlustið hvort á annað, jafnvel þó það sé erfitt.
Prófið að hlusta bara á hvort annað. Sú eða sá sem talar ætti ekki að vera of lengi að því og þegar hún/hann hefur lokið sínu máli á áheyrandinn að endurtaka það sem hann heyrði. Oft gerist það að viðkomandi heyrði bara brot af því sem var sagt. Endurtaktu það sem ekki fór í gegn og tékkaðu áður en haldið er áfram yfir að næsta atriði.
15. Segðu satt – vertu heiðarleg/ur.
Sá eða sú sem hélt framhjá ætti að deila hvaða hugsanir og tilfinningar brutust um innra með viðkomandi sem leiddu svo að því að haldið var framhjá. Með þessu gætuð þið bæði átt auðveldara með að skilja hvaða vandamál það eru sem þið horfist í augu við að þurfa að leysa. Sú eða sá sem er særður getur líka viðurkennt sinn þátt í því að aðstæðurnar leiddu til framhjáhalds ef slíkt á við.
16. Syrgið saman.
Jafnvel þó að þið ákveðið að halda áfram að vera saman er eitthvað farið og því verður ekki neitað; sú saklausa trú að þið mynduð vera hvort öðru trygg og ekki halda framhjá er farin. Hvað sem verður skapað upp úr þessu verður öðruvísi, vonandi betra, en klárlega öðruvísi. Að syrgja sakleysið hjálpar ykkur að segja skilið við það sem er liðið til og búa til rými fyrir nýja framtíð.
17. Vertu inni af heilum hug og viðurkenndu.
Heilunarferlið er erfitt, stundum ómögulegt, þegar annar aðilinn er kominn með fótinn út um dyrnar. Ef þið viljið vera saman þá skuluð þið hegða ykkur eins og þið meinið það. Manneskjan sem haldið var framhjá er særð, reið og viðkvæm tilfinningalega. Sá/sú sem hélt framhjá ætti að samþykkja þessar tilfinningar maka síns, gangast við þessu og viðurkenna með því t.d. að segja, “Auðvitað ertu sár, ég klúðraði þessu.” Alls ekki snúa vörn í sókn. Viðurkenndu að maka þínum líður illa. Sýndu því skilning.
18. Leitið faglegrar aðstoðar.
Finnið þerapista/sálfræðing/ráðgjafa sem er sérfróð/ur um framhjáhöld í samböndum. Hjónabandsráðgjafa sem hefur mikla reynslu. Það er alltaf ástæða á bak við framhjáhald. Bæði þurfið að horfast í augu við hvaða þarfir var ekki verið að uppfylla og hvernig er hægt að lækna þessi sár. Þriðji aðili getur næstum án undantekninga hjálpað ykkur að komast aftur á réttan kjöl og sjá hvað gerðist með hlutlausari hætti en þið bæði.
19. Byggið upp traust.
Eina leiðin til að byggja upp traust að nýju er að láta verkin tala. Ef þú segir “Ég elska þig” skaltu bakka það upp með því að gera eitthvað sem sýnir og sannar að þú elskir manneskjuna. Ef þú segir “Ég vil að þetta samband gangi,” þá skaltu hætta öllum samskiptum við manneskjuna sem þú hélst við (eða hefur verið í samskiptum við). Það er ekkert verra fyrir maka þinn en að komast að því að þú ert ekki heiðarleg/ur.
20. Hættið í afneitun.
Manneskjan sem hélt framhjá þarf að viðurkenna, opinberlega og skýrt, að hún/hann gerði rangt. Vertu sannleikanum samkvæm/ur, heiðarleg/ur og tilbúinn í hvaða samstarf sem makinn biður þig um svo að hægt sé að byggja sambandið upp að nýju, – að því gefnu að þú viljir vera áfram í því. Ef þú vilt vera áfram í sambandinu þarftu að gera það af heilum hug, sleppa allri afneitun og vera til í að ganga alla leið til að endurreisa það sem hrundi þegar haldið var framhjá.
Þú getur ekki verið í sambandi og á leið úr því á sama tíma. Þú getur ekki haldið framhjá maka þínum og ætlast til að það hafi engar afleiðingar. Þið verðið bæði að vera heiðarleg, loka á alla afneitun og vera tilbúin að gera allt sem þarf til að hægt sé að búa til gott samband að nýju og byggja upp það traust sem brast.
Athugið að í 65% tilfella ákveður fólk að halda áfram að vera saman eftir að framhjáhald kemur upp en það er óþarfi að sambandið sé gegnsýrt af vantrausti, sektarkennd og ásökunum á báða bóga í mörg ár ef hægt er að vinna gegn því.
Gefið ykkur í uppbygginguna af heilum hug og sambandið mun smátt og smátt jafna sig og verða gott, jafnvel betra en áður.
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.