Þegar hjón ákveða loks að skilja er aðdragandinn sjaldnast stuttur. Yfirleitt hefur sambandið verið að liðast í sundur í lengri tíma, oftast í ár eða lengur, meðan báðir aðilar hafa reynt að gera það sem þau gátu til að halda sambandinu gangandi.
Flestir eiga það þó sameiginlegt að geta litið um öxl eftir að skilnaðurinn er komin í gegn og nefnt eitt andartak, eða rifrildi, svona ‘moment of clarity’ þar sem þau áttuðu sig á að þetta var komið gott og gæti ekki gengið lengur.
Á þriðjudaginn sem leið birtist magnaður listi á Reddit þar sem fráskildir karlmenn sögðu frá dropanum sem fyllti mælinn þeirra. Eftirfarandi eru dæmi um það sem þeir höfðu að segja. Ástæðurnar fyrir því að þeir gátu ekki meira.
1. Þegar hann fær nóg af ‘köstum’
“Ég lenti í bílslysi. Missti vinnuna. Ég var enn dapur eftir að hafa misst náinn ættingja minn. Þá ákveður hún að hún bara verði að eignast gullúr sem kostar rúmlega 100 þúsund. Ég sagði henni að ég hefði ekki efni á þessu miðað við stöðuna eins og hún var. Þá lokaði hún sig inni á klósetti og fór að væla. Þetta var í fyrsta sinn sem ég brást ekki við þessum aðferðum hennar. Hún kom út af klósettinu eftir nokkra tíma og spurði mig bara beint hvort ég vildi skilnað. Ég var alls ekki að hugsa um það þegar hún spurði en á þessu andartaki vissi ég að það var málið og svaraði. Já.”
2. Þegar traustið er ekkert
“Ég var farinn að mynda öll skilti sem ég sá á leiðinni heim úr vinnunni og senda henni í gegnum símann til að sanna hvað ég var að gera og hvenær, til að sanna að ég væri ekki að halda framhjá henni sem hún ásakaði mig stanslaust um… Eftir þetta þá fór ég bara.”
3. Þegar konan er orðin ‘meðleigjandi’ með mikil forréttindi
“Síðasta árið sem við vorum saman leið mér meira eins og við værum bara að leigja saman fremur en par. Hún hafði engan áhuga á að vera með mér, við hættum að fara saman í sturtu og fórum í rúmið á sitthvorum tímanum. Hún var alltaf ósátt. Mig langaði virkilega að bjarga þessu hjónabandi en þegar hún sagðist ekki elska mig lengur þá var þetta auðvitað búið.”
4. Þegar dæmið gengur ekki upp
“Ég kom heim eftir að hafa verið að vinna í öðru landi. Konan var komin fimm mánuði á leð. Ég hafði verið í sjö mánuði í burtu. Maður þarf ekki að vera neitt sérstaklega góður í stærðfræði til að fatta þetta.”
5. Þegar hann tjáir tilfinningar sínar og hún hlær
“Ég var að segja henni hvernig mér leið, var þunglyndur og fullur af vonleysi. Ég upplifði einskonar tilvistarkreppu. Hún hló bara að mér. Hún bókstaflega hló framan í opið geðið á mér og þá skildi ég að ég vildi bara ekki vera giftur henni lengur þar sem ég skipti hana ekki máli.”
6. Þegar hann áttar sig á að hún hefur ekki trú á honum
“Fyrir fimm árum sagði ég henni að ég vildi hætta í hernum og gerast læknir. Hún er vísindamaður sjálf en brást við eins og þetta væri algjörlega fáránlegt. Hún sagði orðrétt: ‘Þú getur ekki bara ákveðið að gerast læknir’. Ímyndið ykkur að vera búinn að pæla í einhverju í heilt ár og segja svo besta vini þínum frá draumnum en viðbrögðin eru að horfa á þig eins og þú sért fábjáni. Skemmst er frá því að segja að ég byrjaði í læknanámi fyrir mánuði. Ég er ekki bitur en hún á eftir að verða f**ing hissa ef hún prófar einhverntíma að gúggla mig í framtíðinni.”
7. Þegar hann er ekki sammála henni um barnauppeldi
“Þegar hún lýsti því allt í einu yfir að ófædd börn okkar myndu ganga í ‘heimaskóla’ og að hún, (sem lauk ekki menntaskóla), yrði kennarinn og bætti því svo við að þau ætti ekki að bólusetja þá voru engar málamiðlanir í boði. Ég var ungur og hafði aldrei pælt í þessum hlutum fyrr en við fórum að tala um þá. Ég sá bara hvað þetta skipti mig gríðarlegu máli og sá strax að við gætum aldrei gengið upp.”
8. Þegar honum var sama um framhjáhaldið
“Ég átti þetta móment fyrir nokkrum mánuðum þegar framhjáhaldið hennar hætti allt í einu að gera mig brjálaðan. Það slokknaði bara á reiðinni, ég áttaði mig á að þetta væri loksins búið og ég hugsaði ‘Takk guð, nú get ég endað þetta eitraða samband sem ég er í’.
9. Þegar hann lét dóttur sína ganga fyrir
“Við seinni konan mín vorum mjög náin og það gekk allt vel hjá okkur en hún átti mjög erfitt með að mynda gott samband við dóttur mína úr fyrra sambandi. Hún var bara ekki til í að verða mamma stelpu sem hún átti ekki sjálf. Mér fannst mjög erfitt að sætta mig við þetta. Við fórum í ráðgjöf í mjög stuttan tíma en hún afgreiddi ráðgjöf sem eitthvað fyrir geðbilaða og hún var auðvitað ekkert geðbiluð. Þetta þróaðist þannig að við dóttir mín fluttum út. Ég vonaðist til að konan myndi sjá að sér og reyna að leysa þetta en það gerðist ekki. Ég þurfti bara að gera það sem var rétt fyrir barnið mitt, þó það væri erfitt.”
10. Þegar hann gerði sér grein fyrir að hann mátti ekki hafa áhugamál
“Við fyrrverandi vorum að horfa á þátt þar sem kona grunar manninn sinn um framhjáhald. Hún eltir hann en sér svo að hann er bara að stelast á körfuboltaleik. Mín fyrrverandi snýr sér að mér og segir ‘Sjáðu hvað hann er falskur og sjálfselskur að gera þetta. Laumast svona’ – Ég leit á hana og sagði ‘Sjáðu hvað hún er ömurleg að banna honum að hafa áhugamál þannig að hann þarf að laumast til að gera það sem hann hefur gaman af.’ Á þessu mómenti sá ég að hún var búin að gera nákvæmlega það við mig. Hún notaði sektarstjórnun á mig, kúgaði mig og lét mig fá móral yfir því að áhugamálin mín væru óþroskuð og barnaleg. Málið var að hún þoldi bara ekki að ég væri ekki alltaf með henni. Á sama tíma hafði hún sjálf engin áhugamál þó ég væri alltaf að hvetja hana.”
11. Þegar hún nennti ekki að sækja hann.
“Ég þurfti að vinna frameftir, það var vetur, ég missti af lest, þurfti að taka strætó ótrúlega langa leið og svo ganga meira en kílómeter heim frá stöðinni. Hún nennti ekki að sækja mig af því þá hefði hún þurft að fara fyrr úr jógatíma. Þetta samband hafði staðið í 20 ár og það komu upp allskonar leiðinlegir hlutir en þetta kvöld ákvað ég að þessu væri lokið. Hún áttaði sig reyndar á því hvernig hún var búin að vera en þá var það of seint.”
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.