Það getur verið erfitt að vera einstæð móðir á stefnumótamarkaðnum…
…því það er jú ekki bara þú sem málið snýst um, krakkarnir þurfa að kunna að meta hann og hann verður sannarlega að kunna að meta blessuð börnin.
Hér er topp 10 listi yfir týpurnar sem einstæða móðirin ætti að varast.
1. Sá sem sér ekki börnin.
Sá er talinn ruddi og dóni sem heilsar öllum nema tveimur eða þremur í hópnum og þessi regla gildir líka þó um börn sé að ræða. Þannig að ef vinurinn gefur sig á tal við þig, með ákveðnar hugmyndir í kollinum, en lítur ekki við börnunum þínum þá er augljóst að hann kann ekki að setja þau í fyrsta sæti og mun aldrei gera það.
2. Sá sem talar illa um sína fyrrverandi eða barnsmóður sína.
Ef hann gerir ekki annað en að bölva barnsmóður sinni og finna henni allt til foráttu máttu alveg búast við því að hann geri það sama þegar þú ert farinn. Þó honum sé ekki vel við hana á hann að geta haft hemil á sér og sleppt því að tala mjög illa um hana.
3. Sá sem hringir aldrei. Sendir bara sms.
Helsta ástæða þess að karlmaður hringir ekki í konu heldur sms’ar bara er ekki feimni, heldur önnur kona. Ofast sambýliskona eða eiginkona. Þeim finnst kannski tilvalið að fá sér einstæða móður sem viðhald en elskan – þú hefur ekki tíma í svoleiðis rugl.
4. Týpan sem safnar stöðumælasektum.
Einstæðar mæður eru jú vanalega með að minnsta kosti eitt barn. Það er algjör óþarfi að bæta fleirum á sig. Maðurinn þinn þarf ekkert að þéna rosalega mikið af peningum en hann þarf að kunna að fara vel með peningana sem hann þó þénar. Ef hann eyðir í dýrt úr, flott íþróttaföt eða flugmiða en borgar ekki reikninga á réttum tíma þá ertu ekki með rétta manninum.
5. Sá sem kvartar yfir meðlaginu.
Kannski finnst honum það mikið, kannski ósanngjarnt, en það er ekki í lagi með mann sem telur það eftir sér að þurfa að borga eitthvað fyrir barnið sitt. Þú vilt hann að minnsta kosti ekki.
6. Sá sem er stoltur af því að vera góður lygari.
Þurfum ekki að hafa fleiri orð um þessa týpu. Einstæð mamma eða ekki – hlauptu kona, hlauptu! Og það sama gildir ef þú kemst að því að maðurinn á bágt með að segja satt.
7. Týpan sem veit ekki einföldustu hluti um sitt eigið barn.
Ef hann hvorki man hvað börnin eru gömul eða hvenær þau eiga afmæli þá er spurning um að kíkja eitthvað annað? Hann er kannski djúpvitur og duglegur að vinna en menn sem eru ekki með svona hluti á hreinu eru ekki með forgangsröðina á hreinu.
8. Týpan sem kallar eitthvað „kvenmannsverk“.
Langar þig í maka eins og Fred Flintstone? Nei, pass. Karlmenn sem halda að konur séu betri að elda og þrífa eru stórkostlega að misskilja eitthvað. Við erum öll að leita að stuðningi og vináttu í samböndum okkar. Ekki týpu sem lifir á annari öld.
9. Sá sem veit ekkert hvað er að gerast í heiminum í kringum hann.
Til lengdar verður það þreytandi að eiga mann sem hefur ekki minnstu hugmynd, hvað þá skoðun, á því sem er að gerast í heiminum í kringum okkur. Hann þarf kannski ekki að vera fréttafíkill en maðurinn má endilega vera viðræðuhæfur um dægurmálin og geta haldið uppi samtali þó hann sökkvi sér stöku sinnum í tölvuleiki.
10. Sá sem ber ekki virðingu fyrir mömmu sinni.
Ef hann kemur ekki vel fram við mömmu sína er ekki líklegt að hann komi vel fram við þig. Það máttu bóka. Maður sem getur ekki komið fallega fram við konuna sem kom honum í heiminn er ekki líklegur til að vera ljúfur og góður við aðrar konur.

Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.