Sambönd: 10 stórkostleg ráð fyrir karla sem eiga von á barni

Sambönd: 10 stórkostleg ráð fyrir karla sem eiga von á barni

angry_pregoSvona líður sumum mönnum þegar við verðum óléttar. Hörðustu stelpur fara skyndilega að gráta og baka pönnukökur allann sólarhringinn. Konan sem hann varð ástfangin af leggst í furðulegt ofát og fitnar svo mikið að hann verður hræddur…

…mjúka, blíðróma, sæta kærastan er allt í einu orðin sveitt og argandi eins og Sigourney Weaver í Alien og þegar hann kemur heim úr vinnunni þá veit hann ekki hvort von er á WW3 eða léttum úrdrætti úr söngleiknum Hárinu.

Kæru vinir. Það er von. Það hafa ofboðslega margir gengið í gegnum þetta og í sameiginlegan reynslusjóð mannkyns hafa safnast allskonar góð ráð fyrir karlmenn sem eiga von á barni. Hér eru nokkur…

Regla #1 Forðist vont skap

Allt sem henni fannst áður pirrandi í þínu fari finnst henni nú gersamlega ÓÞOLANDI. Þú ert skotmark fyrir hormónasnjóbolta sem gætu hæglega drepið sambandið ef þú gerir ekki allt sem þú getur til að forðast að verða fyrir þeim. Það máttu ekki gera með því að fara að rífa kjaft við hana á móti heldur skaltu bara beygja þig niður og forðast að verða fyrir boltunum.

Hún lagast hvort sem er eftir einhvern tíma því hormónarnir koma og fara í bylgjum. Viðkvæmust er hún á fyrstu þrem og síðustu þrem mánuðum meðgöngunnar. Alls sex mánuðir. Þvílík eldskírn! Ef þú kemst í gegnum þetta þá kemstu í gegnum hvaða “Nam” sem er.

Regla #2 Ekki biðja um Brutal Force 5

Ef þið farið út á videoleigu að ná í mynd, í guðannabænum ekki heimta að fá að horfa á Brutal Force 5 eða Singapour Slaughterhouse 3. Óléttar konur verða oft svo viðkvæmar fyrir ofbeldi að þær geta ekki einu sinni horft á fréttir. Reyndu að gera þitt besta í að ná fram einhverjum millivegi án þess þó að fara heim með Maid in Manhattan.

Regla #3 Ekki keyra hratt

Hún er með algerlega bjargarlaust líf inni í sér sem aðeins hún getur verndað og þess vegna getur það farið hrikalega fyrir brjóstið á henni að keyra hratt eða taka þátt í einhverju sem á einhvern hátt gæti skaðað fóstrið. Ef þú ert við stýrið þá er það á þína ábyrgð að taka ekki krappar beygjur, bremsa fast, skoppa yfir hraðahindranir eða fara mikið yfir hundrað. Ef hún stressast þá getur barnið stressast í leiðinni og þið fáið stressað barn í heiminn sem grætur meira en afslappað barn. Trúðu mér, þetta vilt þú fyrir alla muni forðast.

1

Regla #4 Ekki rífast

Að rífast við ólétta konu er eitthvað sem þú skalt reyna að forðast eins og heitan eldinn. Ekki gera stórmál úr engu og vandaðu þig eins og þú getur að hafa stjórn á eigin skapi. Það sem vanalega er eitthvað smá nöldur má ekki fyrir nokkra muni breytast í rifrildi. Eins og t.d hvort þið eigið að taka Brutal Force 5 eða Women in Love á leigunni. Ólétt kona í uppnámi er eins og þrír kvenkyns yfirmenn á breytingaskeiði. Það eina sem þú þarft að gerast er að segja já og brosa.

Regla # 5 Hrósa, klappa, rétta, loka…

Það þarf stundum ekki mikil átök hjá þér til að gera ástandið betra. Eins og fyrr segir eru óléttar konur viðkvæmar og tilfinninganæmar. Það þýðir að þær eru ekki bara næmari á það sem er óþægilegt heldur líka á það sem er þægilegt. Vertu duglegur að stússast fyrir hana. Hrósaðu henni, segðu henni að þér finnist hún sexý með svona stór brjóst, sæt með roða í kinnum. Segðu elskan og ástin mín oftar en vanalega og vertu duglegur að faðma hana ef hún virðist stressuð eða lítil í sér. Vertu líka duglegur að rétta henni hluti, spyrja hvort hana vanti eitthvað úr ísskápnum þegar þú ferð að ná þér í eitthvað og lokaðu klósettsetunni!

Regla #6 Sættu þig við súrt epli

Ef hana langar ekki til að gera dodo með þér þá verður bara að hafa það. Konur eru ótrúlega misjafnar hvað þetta varðar. Sumar verða algerlega vitstola af kynæsingi og vilja helst gera það allann daginn, aðrar breytast í eitthvað jafn sexý og Elísabetu Englandsdrottningu og vilja hvorki sjá né heyra af kynlífi. Þú verður því miður að bíta í þetta súra epli og klappa spenanum sjálfur ef svo ber undir. Ef hún er hinsvegar í rosa stuði til að gera dodo daginn út og inn, þá er bara kátt í höllinni. Þú skalt samt leyfa henni að ráða stellingum og svoleiðis og ekki láta hana hafa of mikið fyrir þessu þar sem hún er jú þunguð blessunin og á ekki eins auðvelt með að brölta og hossa sér og áður.

Regla #7 Út að labba!

Stattu með henni ef hana langar að fara út að ganga eða í sund eða eitthvað svoleiðis. Að koma sér af stað getur verið erfitt fyrir hana en það margborgar sig fyrir hana að hreyfa sig. Ef þú hvetur hana til að koma út að ganga með þér, þá styrkist hún og dafnar og á þar af leiðandi auðveldara með að komast í gegnum fæðinguna. Hún er núna að fórna sér og mun gera það enn meira eftir fæðinguna. Þar sem HÚN er að ganga í gegnum þetta allt þá kraumar innra með henni sú sannfæring að þú verðir að fórna þér svolítið líka, og einn labbitúr annað slagið er jú ekki mikil fórn þegar öllu er á botninn hvolft. Svo hefur þú líka gott af því.

Screen Shot 2014-01-28 at 21.45.24

Regla #8 Ekkert óvænt

Það er ekki ráðlegt fyrir þig að breyta skyndilega plönum sem þið hafið gert saman eða tilkynna henni fyrirvaralaust að þú sért að fara að detta’íða með strákunum í kvöld. Hún þarf stundum voðalega mikið á þér að halda og stundum langar hana helst ekki til að horfa á þig. Ef þig langar út að detta’íðameðstrákunum þá skaltu nýta tækifærið þegar hún er inní sig og tilbaka og segja henni að þig langi svolítið út að viðra þig en ekki tilkynna henni það með augnabliks fyrirvara. Óléttar konur breytast yfirleitt ósjálfrátt í öryggisfíkla og allt óvænt getur slegið þær algerlega út af laginu. Farðu varlega hvað þetta varðar.

Regla #9 Slakaðu á

Þrátt fyrir að ástandið sé eins og það er, reyndu þá að gera þitt besta til að breytast ekki í taugahrúgu í kringum hana. Við nennum ekki að halda eitthvað meðvirkni-festival. Þú vilt ekki verða svoleiðis og henni finnst þú ansnalegur í þannig ástandi. Taktu þessu bara eins og hverri annari prófraun og gaktu í gegnum þetta tímabil með það fyrir augum að það taki enda. Reyndu líka að gera eitthvað fyrir sjálfan þig sem hjálpar þér að slaka á, hvort sem það er að lesa, glápa á góða mynd, synda, skokka eða hvað sem er. Þú þarft að annast sjálfan þig vel til að geta annast hana vel.

Regla #10 Þolinmæðin þrautir vinnur allar

Til var ættbálkur í Ástralíu/Asíu sem hafði það fyrir sið að binda spotta í pung barnsföðurs og í hvert sinn sem hin verðandi móðir fann hríðirnar herpast um sig, kippti hún hressilega í spottann! Með þessu móti fékk karlgreyið smjörþefinn af sársaukanum sem hún var að ganga í gegnum. Sem betur fer tíðkast þessi siður ekki á Vesturlöndum en meðgangan getur hinsvegar verið álíka andlega erfið fyrir pabbann og mömmuna. Mundu bara að uppskeran sem þú færð verður ómetaleg fyrir þig fram á elliárin og láttu þig þessvegna hafa það að ganga í gegnum þessa manndómsvígslu. Eins og áður segir –

Ef þér tekst með glæsibrag að komast í gegnum 9 mánuði með barnshafandi konu þá ertu fær í flestan sjó eftir það og útskrifaður sem klassa karlmaður.

Share on facebook
Deila á Facebook
Share on twitter
Deila á Twitter
Share on pinterest
Deila á Pinterest