Sumt fólk er (eða þykist vera) afskaplega saklaust þegar verið er að reyna við það. Það virðist alls ekki gera greinarmun á daðri, viðreynslum og vingjarnlegheitum.
Af þessum völdum verður það oft af góðum bitum af því það áttar sig hreinlega ekki á því að verið er að reyna við það fyrr en viðreynarinn kemur með tunguna iðandi á móti þeim eftir að hafa boðið þrálátlega upp á tvöfaldan romm í kók.
Þá svona „hmmm… ég held hann sé kannski að reyna við mig?“
Og sem vinur eða vinkona svarar maður kurteislega „no shit, Sherlock!“
Eftirfarandi eru 10 atriði sem benda sterklega til þess að það sé verið að reyna við þig.
1. Brosið
Ef hann eða hún brosir mjög mikið til þín má reikna með að það sé merki um að viðkomandi líki sérlega vel við þig. Tala nú ekki um ef hann/hún stendur álengdar, horfir á þig og brosir bara.
Ef þú hefur áhuga er ekki úr vegi að gefa sig hægt og rólega á tal við manneskjuna því hún/hann gæti hugsanlega verið smá feimin/n.
2. Þau roðna
Það getur verið erfitt að daðra við feimið fólk en það þýðir ekki að maður eigi að gefast alveg upp á þeim. Ef þú tekur eftir því að hann eða hún roðnar í kringum þig þá er það nokkuð öruggt merki þess að viðkomandi er frekar spennt/ur. Fólk hefur enga stjórn á því að roðna. Þetta gerist alveg af sjálfu sér og enn frekar ef maður er skotin/n og eða heilluð/aður.
3. Augnsamband
Það er eitt að stara endalaust í augun á manni og annað að ná augnsambandi og horfa andartaki lengur en venjulega. Augnsambandið er í raun grunnurinn að heppilegri viðreynslu. Svo ekki sé minnst á ef brosið fylgir með. Fólk sem þú ekki þekkir, stendur álengdar og horfir í augun á þér er mjög, mjög líklega að reyna við þig.
4. Speglun
Að herma eftir því sem hinn er að gera er nokkuð einfalt og ómeðvitað tákn um viðreynslu. Þetta getur verið allt frá raddblæ, líkamsstöðu og því að blikka augunum. Það kemur alveg af sjálfu sér að spegla þá sem okkur þykir vænt um, alveg ómeðvitað og eðlilegt. Að spegla er líka algengt viðreynsluráð og það má jafnframt nota í netspjalli en þá notarðu bara sömu orð og viðkomandi, eða tekur eftir því hvernig hann/hún tjáir sig svipað og þú.
5. Með hendur á mjöðmum
Ef karlmaður stendur með hendur á mjöðmum eða hengir þumlana í beltisstrenginn þá gæti það verið merki um áhuga. Með þessum töktum er hann að sýna þér að hann er sannarlega karlmenni, “macho” af gamla skólanum.
6. Snerting
Ef hann/hún snertir þig, lúmskt eða þykist hafa gert það óvart, þá eru mjög góðar líkur á að það sé verið að meina eitthvað með því. Ef þér líkar við manneskjuna þá er um að gera að snerta bara á móti, með svipuðum hætti… ekkert káf samt. Ef þér líkar ekki við manneskjuna þá læturðu bara eins og þú hafir ekkert tekið eftir þessu.
7. Hallar sér fram
Ef manneskjan sem þú ert að tala við hallar sér mikið að þér þá getur það verið gott merki um að viðkomandi líki sérlega vel við þig, hafi mikinn áhuga á að heyra hvað þú hefur að segja, – nú eða sé að reyna að sýna smá brjóstaskoru… svona til að fá þig aðeins í gang.
8. Stórir augasteinar
Stundum koma augun upp um okkur þegar okkur langar ekki til þess. Stórir augasteinar eru merki þess að fólki líki sérlega við mann. Sjáðu bara börnin okkar hvernig augasteinarnir þeirra stækka um leið og þeim líður vel með okkur. Ef okkur líkar ekki eitthvað þá dragast augasteinarnir saman (þetta gerist reyndar líka í mikilli birtu).
Ef þú verður vör við að augasteinar hans eða hennar sem þú ert með, stækka mjög mikið og breyta um stærð þá gæti það verið skýrt merki þess að viðkomandi er alveg frekar mikið skotin/n.
9. Augabrúnir uppi
Ef fólk er með augabrúnirnar uppi meðan það talar við mann þá er það oftast merki um tvennt. Annaðhvort er það að segja ósatt og leggur sig fram um að sannfæra mann með því að lyfta brúnum og virka þannig sakleysislegra eða… Það er að reyna við mann.
Ef augun eru vel opin og brúnirnar uppi meðan viðkomandi er í hörkuspjalli þá eru góðar líkur á að honum eða henni líki aðeins meira en pínulítið við mann. Allt í lagi að skoða það aðeins nánar.
10. Alveg á iði
Ert þú tvístígandi nálægt manneskjunni sem þú ert hrifin af? Það er óskaplega eðlilegt. Við gerum þetta flest af því við erum stressuð, skotin og stressuð.
Ef þú tekur sérstaklega eftir því að manneskja sem þú kannast við, vinnur með, ert í námi með os.frv. virðist alltaf fara á span þegar þú ert nálægt þá gæti það verið merki um eitthvað… og auðvitað gæti það verið merki um ekki neitt líka.
Að þessu sögðu bið ég þig að opna aðeins augun og reyna að sjá merkin. Hermir hann eftir þér, brosir hún endalaust mikið til þín, iðar nálægt þér og roðnar. Verða augasteinarnir stórir?
Allt gætu þetta verið merki um skot eða ást í laumi. Láttu nú vaða. Kannski verður þú komin/n á ótrúlega skemmtilegt stefnumót innan skamms?
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.