Ég þarf þó nokkuð af persónulegu frelsi í mínu lífi og má segja að ég hafi mikla einstaklingsþörf en þrátt fyrir að ég sé móðir og næstum því eiginkona þá þýðir það ekki að ég vilji eyða öllum vakandi stundum í faðmi fjölskyldunnar þegar ég er ekki í vinnunni.
Mér finnst æði að hitta vinkonur mínar reglulega, skottast ein í Kringlunni, fara á námskeið og fleira. Ég vil ég geta fengið spontant hugmyndir að hitta einhvern í vikunni án þess að þurfa bera það undir kallinn, eða redda pössun. Ég bara vil stundum vera ég sjálf án þess að vera í einhverju hlutverki.
Kallinn minn hefur þessa þörf líka (kannski ekki skottast einn í Kringlunni og hitta vinkonur mínar) en hann er með allskonar áhugamál sem ég hef takmarkaðan áhuga á og til þess að við fáum að njóta okkar sem einstaklingar erum við með kerfi.
Miðvikudagar eru mínir dagar og fimmtudagar eru hans dagar.
Á miðvikudögum fer ég í vinnuna og eftir hana þarf ég ekki að sækja drenginn á leikskólann, þarf ekki að hafa áhyggjur af matnum (við reyndar eldum alltaf saman hjúin, en þetta kvöld þarf ég ekkert að pæla í matnum), ég þarf ekki einu sinni að koma heim. Get bara hætt í vinnunni, farið þess vegna EIN á kaffihús með fartölvuna og notið lífsins. Á miðvikudögum er ég í saumaklúbb, bókarklúbb, fer á hlaupaæfingu, fer í heimsóknir eða bara geri það sem mér dettur í hug hverju sinni. Stundum er ég heima og þá er ég í algjöru fríi!. Get verið í tvo tíma í baði ef mér dettur það í hug.
Ég er ekki búin!
Við skiptum einnig laugardögunum á milli okkar, en annahvorn laugardag á ég frí og hann á hinn laugardaginn, en þegar mínir laugardagar eru get ég sofið úúúúúúúút og skipulagt daginn algjörlega eftir mínu höfði. Ohhhhh þetta finnst mér svo mikið æði! en við vöknum alltaf saman á sunnudögum og gerum eitthvað sniðugt saman.
Ástæðan fyrir því að við gerum þetta svona er að það er svo algengt í samböndum að það hallar oft á annan aðilann hvað félagslífið varðar. Ég þekki svo marga sem eru í sambandi þar sem annar aðillinn þarf ALLTAF að lúffa fyrir hinum og fresta sínum plönum því plan hins aðilans eru merkilegri. Það lendir líka svo oft á öðrum aðilanum að redda endalaust pössum og ef hún reddast ekki þá er það alltaf sami aðilinn sem þarf að fresta sínum plönum.
Með okkar kerfi getum við planað allt sem við gerum án makans eða með fjölskyldunni á vikudögunum okkar og á frí laugardeginum en með þessu kerfi minnka árekstrar og við fáum bæði jafn mikið tækifæri á að vera einstaklingar í hjónabandi.
Það er nefnilega mikilvægt að gleyma ekki sjálfum sér þegar maður er í sambandi og mjög nauðsynlegt að rækta sambandið við sitt eigið sjálf reglulega.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.