…og strákarnir sem þær verða skotnar í.
Þá erum við komnar með lesefni helgarinnar og það fjallar um stelpur sem höndla ekki sambönd. Ha? Eh… hvað er það?
Já. Það er nefninlega oft talað um að STRÁKAR og karlmenn séu haldnir skuldbindingarfælni en öllu sjaldnar heyrum við talað um að kvenfólk sé haldið þessari fælni.
Það dettur engum í hug að stelpa sem hoppar á milli sambanda sé kannski með sambandsfælni. Sú staðreynd að hún er allavega að reyna að finna sér mann bendir þá til þess að hún geti ekki verið með fælnina.
Ef maður tekur þetta til nánari athugunar þá er kannski gott að byrja á því að skoða hvernig stráka hún velur sér.
Öfugt við stelpur þá er strákur sem er með sambandsfælni ekki með neina sérstaka takta í makavali. Hann byrjar kannski með “hannyrða Hönnu” í janúar en “Guggu grasdíler” í mars. Það er eins og hann láti bara reka á reiðanum í makavalinu en stelpa sem er með sambandsfóbíu er hinsvegar mjög vandlát í sínu makavali.
Týpurnar sem hún hrífst af eiga það sameiginlegt að vera ekkert sérstaklega aðgengilegar. Til dæmis gæti hún valið sér kærasta sem á rosalega margar “vinkonur” úti um allt. Hún finnur á sér að það er eitthvað bogið við hvað hann er vinsæll og nær að tengja andlega við margar konur en lætur eins og það sé ekki að gerast. Svo dag einn fær hún sönnun þess að honum finnt rosa kósí að sofa hjá “vinkonum” sínum og gerir það að sjálfssögðu þegar tækifærin bjóðast. Sambandfælna stelpan verður særð (eins og hún bjóst náttúrlega við) og hættir með honum með skít og skömm. Eitt núll fyrir henni.
Sú sambandsfælna kvartar líka endalaust undan því hvað karlmenn séu erfiðir en gleymir því alltaf að kærastarnir hennar eru eins og afrit af hver öðrum með örlitlum mismun til og frá. Þeir eiga það til dæmis sameiginlegt að sjá ekki mikla ástæðu til þess að vera í föstu sambandi og eru eins og hún sjálf -að deyja úr ótta við einhverja alvöru.
Skoðum hér nokkrar gerðir af þeim karlmönnum sem hún heillast hvað mest af:
Sá upptekni
Þessi er alltaf alveg meiriháttar upptekinn. Upptekin af “strákunum”, upptekin af fótbolta, upptekinn af vinnunni, upptekin af símanum, próteini, ræktinni, tölvuleiknum og bara svona yfir höfuð alltaf alveg rosalega upptekinn.
Hann er svo upptekinn að hann hefur engann tíma fyrir samband og það er að sjálfsögðu svakalegt turn on fyrir vinkonu okkar. Turn on af því hún er kominn með keppinaut (sem er allt þetta sem hann er svo svakalega upptekinn af) og nánast endalaust er hún til í að keppa um athyglina, eða þangað til hún fær hana. Þá labbar hún í burtu eins og köttur sem maður skilur ekki. Því innst inni þá er hún hrædd við nánd og langar því ekkert í samband.
Hljómsveitagaur eða maður með “sérstakan áhuga á tónlist”
Það er vert að benda á það að flestir hljómsveitagaurar eða þá karlmenn með “sérstakan áhuga á tónlist” eru því miður vonlausir sem makar. Ástæðan er sú að þeir ganga allir með sama drauminn í maganum og sá draumur gengur út á að standa uppi á sviði og glamra á tippið á sér með sveittar grúppíur fyrir framan svið. Þessi týpa er svosem til í að vera í lauslegu sambandi – eða alveg þangað til hann “meikar” það.
Þá ætlar hann að hamast í rokkinu og fá b-j baksviðs þar til Hallgrímskirkja hrynur. Stelpur með sambandsfælni er mjög hrifnar af þessum manngerðum.
Listræni eða hljómsveitargaurinn
Listræni gaurinn er eiginlega eins og þessi í hljómsveitinni nema hvað að í stað þess að vera haldin ranghugmyndum um að meika’ða og fá b-j baksviðs, þá heldur listræni gaurinn að til að vera listamaður, þá verði hann að vera “frjáls”.
Hann er náttúrlega líka haldinn einhverju rugli eins og því að Picasso hafi verið kvensamur og þessvegna verði hann að vera það líka til að geta orðið alvöru listamaður sko.
Listræna gaurinn dreymir heldur ekki um ábyrgð eða fjölskyldulíf og litla hvíta girðingu. Langt því frá. Hann langar til að rúlla sér upp úr olíulitum, prófa vímuefni, nota stólpípu og kyrja ljóð fram á morgun eins oft og hann kemur því við og hvað hefur almenninleg kona eiginlega að gera í slíku samhengi?
Djammarinn
Honum finnst gaman að djamma. Já. Honum finnst mjööög gaman að djamma. Satt best að segja lifir hann fyrir djammið og það sem er að gerast á staðnum þar sem honum finnst skemmtilegast að djamma. Eftir að hann er búinn að ná sér á þriðjudegi, byrjar undirbúningur fyrir næstu helgi og það á svo sannarlega að verða rosalegt. Sms sendingar, ljósabekkjaferðir, símtöl við vafasama menn úti í bæ og partýskipulagningar eru alltaf mjög ofarlega á dagskrá hjá þessum. Hún kynnist honum á djamminu og þau hætta saman á djamminu. Með sms-i.
Alkinn
Alkinn er oft sjarmerandi gáfumaður með rosalega margt að gerast í kringum sig. Hann getur verið mjög duglegur að vinna (*flótti frá sjálfum sér) en gallinn er sá að eftir duglega vinnutörn þá langar hann ekki til að fara upp í rúm að hvíla sig heldur “verðlaunar” hann sig með því að fara á barinn.
Þetta byrjar á föstudögum og laugardögum en smátt og smátt verður ekkert að því að verðlauna sig svolítið oftar, og oftar, og svo aðeins oftar. Hann langar alveg í samband en skuldbinding hans við Ölstofuna er sterkari en skuldbindingin við helgarpabbastöðuna, þig og allt hitt.
Námsmaðurinn sem er erlendis
Sú sambandsfælna er mjög hrifin af strákum sem eru í námi erlendis og koma hingað annað slagið. Þá er hann aldrei á svæðinu og þessvegna er svona ljómandi gott að vera í “sambandi” við hann gegnum tölvupóst og Skype. Og þegar kærastinn loksins klárar námið og nálgast landið eins og aðvífandi ógn þá finnur hún það að sjálfsögðu út að hún eigi aldrei eftir að endast með mannfræðingi, hagfræðingi, íslensku eða uppeldisfræðingi. Okbæ!
Já en HVAÐ er það sem veldur þessu og HVAÐ er hægt að gera!?
Sálfræðingar segja að fólk sem haldið er nándarfóbíu eigi það oft (þó er það ekki algilt) sameiginlegt að foreldrar þeirra hafa verið vond við hvort annað. Hjá stelpum er algengt að þær hafa horft upp á pabba svíkja mömmu eða þær báðar á einhvern hátt og strákarnir hafa upplifað mömmu sem stóð sig ekki alveg í því að veita þeim ást og hlýju.
Eins er algengt að fólk með sambandsfóbíu hafi átt svo slæma reynslu af fyrstu ástinni að hjartað eigi afskaplega erfitt með að treysta aftur.
Það er samt ekki eins og sambandsfóbískt fólk hafi ekki áhuga eða löngun til að upplifa ást. Þvert á móti þá þrá þau ást og hlýju og tilfinningalegt öryggi eins og allir aðrir. Málið er bara að um leið og öll þessi yndislegheit banka uppá þá eykst áhættan á að vera særð og eins og til að verja sig þá byrja þau að mjaka sér út áður en gatið rifnar á hjartað og blóðið flæðir út -Eða að þau koma sér vísvitandi í sambönd þar sem litlar líkur eru á því að nándin eigi eftir að verða raunveruleg samanber listinn hér að ofan. Samböndin hætta þannig af sjálfu sér.
Sérfræðingar í sambandsfóbíum benda á að í fyrsta lagi sé gott að setjast niður og fara í saumana á fyrri samböndum. Skrifa þau jafnvel stuttlega niður og sjá hvort ekki sé hægt að koma auga á eitthvað munstur. Um leið og búið er að greina munstrið er hægt að taka þá ákvörðun að gera ekki sömu mistökin aftur og endurtaka ekki sömu hegðunina gagnvart nýja makanum, sem þá væntanlega er ekki á listanum fyrir ofan.
Sambandsfóbíska stelpan hefur bara hingað til ekki haft neinn áhuga á strákum sem gætu hugsanlega haft áhuga á henni lengur en í þrjá mánuði. Hún hefur vísvitandi farið á veiðar í hættulegum vötnum og um leið tekið stóran sveig framhjá ánum þar sem feitu laxarnir liggja, fullir af ást og öryggi og hlýju. Fyrsta skrefið er semsagt að fara að taka eftir þessum strákum sem taka eftir henni og hafa eitthvað meira að gefa en sætan rass og nokkur sms annað slagið.
Framtíðin:
Þegar hún svo finnur sér einhvern til að dúlla sér með þá er nauðsynlegt fyrir hana að taka því rólega í byrjun.
Sambandsfóbískt fólk á það einmitt til að vilja fara út í allt með rosa krafti en missir svo áhugann eftir smá tíma. Nú er ráð að slaka á og nálgast hægt og rólega. Taka sérstaklega vel eftir eigin viðbrögðum og tilfinningum og þegar gömlu stælarnir fara að gera vart við sig að bregðast þá ekki eins við eins og áður. Bara bremsa, anda djúpt og hugsa áður en talað er. Og talandi um að tala. Það er um að gera að segja bara frá því hvernig staðan er. Eitthvað eins og:
- *Ég er hrædd við að fara of hratt.
- *Æi. Ég er bara að reyna að breyta ákveðnu munstri.
- *Núna líður mér svona… Núna líður mér hinsegin os.frv.
Sambandsfóbískt fólk á oft erfitt með að vera einlægt og tala beint út um eigin tilfinningar.
Stundum er samt hægt að ofopna sig eða óver-sjéra eins og það er kallað í hinu tilfinningaglaða landi USA. Þegar þú ofopnar þá ertu með það að leiðarljósi að vera rosalega opinn en í stað þess að vera opinn á einhvern þægilegan og sjarmerandi hátt, þá hellirðu öllum hugsunum þínum (um leið og þú hugsar þær) óritskoðað yfir áheyrandann hvort sem hann er í stakk búinn til að hlusta eða ekki. Og þetta með að ofopna. Það getur einmitt verið leið til að fæla ómeðvitað frá sér… segja jafnvel mikið frá fyrri kynlífsreynslum, kærustum og öðru slíku. Nú á að sleppa þessu öllu og leyfa frekar hlutunum að koma fram hægt og rólega og á sínum eigin tíma en ekki í einhverri gusu á fyrsta deiti.
Ef rétt er staðið að málunum, og allir rosa meðvitaðir um eigin hegðun og veikleika, þá ætti litla nándarfælna stelpan að geta verið orðin alsæl í sambandi áður en hún veit af en fyrst og fremst verður hún samt að finna út hvað hún hefur verið að gera rangt og gera svo eitthvað allt annað sem er jú grundvallar-regla allra andlegra framfara.
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún hefur lesið þúsund bækur um andlegan þroska og byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso. Bella er þannig að þú getur líka sagt henni allt. Hún dæmir engan og tekur á móti skilaboðum á: pjatt (hja) pjatt.is
10 comments
Frábær grein! En það eru ekki bara “sambandsfælnar” stelpur sem hrífast af þessum týpum, meðvirkar stelpur hrífast líka af þeim og halda í alvöru að þær geti breytt þeim og að þeir muni skuldbinda sig við þær og þau vera hamingjusöm til æviloka.. Á meðan karlmenn hrífast af sjálfstæðu fjörugu stelpunni og vilja alls ekki að hún breytist þá hrífst stelpan af “klikkaða” gaurnum með stjörnur í augunum en með áform um að breyta honum að sínum hugmyndum..Svo þegar hann tekur ekki vel í “persónubreytingar” og stjórnsemi stelpunnar þá endar sambandið.. er þaki?
Takk 🙂 Jú, örugglega meðvirkar líka. Þetta helst allt í hendur er það ekki? Ef fyrirmyndirnar hegða sér ekki sómasamlega fyrir framan börnin þá virðist það hafa allskonar afleiðingar um ókomin ár t.d. meðvirkni og nándar og sambands issjú… larída… 🙂
Góðan daginn.
Ég vildi bara benda á að það eru ekki allir í heiminum gagnkynhneigðir.
Takk fyrir.
Er þetta steríótýpuleikurinn, frjálsi listamaðurinn og bj elskandi hljómsveitanaggurinn. Ef lífið væri nú bara svona straight forward.
Góðan daginn
Ætli meirihlutinn sé þó ekki gagnkynhneigður.
Takk fyrir
Og hvað með það? Það er ekki erfitt að segja “fyrir þær stelpur sem laðast að karlmönnum…” og halda svo áfram, frekar en að gera ráð fyrir því að svona eigi við alla.
Þannig jú halda fordómarnir áfram, þegar smá skilaboð hér og þar gefa til kynna að þeir sem eru ekki gagnkynhneigðir séu “öðruvísi” og passi ekki inn í hluti eins og svona stereótýpuleiki. Vonandi tekur þetta blogg þetta sér til hugsunar í framtíðinni, sem og margir aðrir.
ég sé ekki hvernig þú getur fengið það út að samkynhneigðir séu öðruvísi út frá þessu.
Þeir sem skilgreina sig sem listatýpur eða einhverjar af þeim týpum sem hún nefndi þarna uppi eru sjálfsagt ekkert sáttir við að vera skilgreindir svona. Af lýsingunum að dæma myndi ég halda að þetta væri smá djók þar sem þær eru nú augljóslega pínulítið öfgafullar, mér tókst nú allavega að sjá smá húmor í þessum lýsingum. Skil ekki afhverju fólk þarf alltaf að vera missa sig algjörlega yfir öllu.
Er ekki bara málið að vera aðeins jákvæðari, þá sér maður hlutina kannski ekki eins svart.
Allavega finnst mér þetta mjög flott grein
Ég myndi nú ekki kalla þetta að missa sig, heldur benda á að í þessari grein (sem er svosem alveg fyndin!) heldur er gert ráð fyrir að stelpur séu hrifnar af strákum. Ef þetta væri einstakt dæmi þá væri það nú varla heimsendir, en staðreyndin er sú að í miklum meirihluta greina og bara í samfélaginu fyrihöfuð eru þeir sem eru ekki gagnkynhneigðir ekki taldir með – þeir eru “öðruvísi”. Að vera bara jákvæður og hunsa svoleiðis er örugglega besta leiðin til að breyta hugarfari…. já, hljómar mjög vel.
Alveg róleg þú þarna að taka þessu svona alvarlega.
Allir með meira en 2 heilasellur í gangi sjá eftir lestur greinarinnar að þarna er ekki mikil alvara í gangi.
Aðallega verið að gera grín að steríótýpu-karlmönnum og okkur vitleysingunum sem falla alltaf fyrir sömy týpunni og skilja ekki afhverju hlutirnir ganga ekki upp.
Engin geimvísindi hér á fer, aðallega háð.
Ja þetta er rétt, þetta er stereótýpu-skilgreining og við gagnkynhneigðu stelpurnar sem allar skiljum hvaða eiginleika karlmanna er verið að vísa í höfum gaman af að lesa þetta, höfum nú flestar deitað nokkra svona dúdda.. Það mætti alveg gera svona grein um stereótýpu-stelpur líka, en það er ekki í okkar verkahring þar sem við höfum ekki reynslu af að deita stelpur, þú vilt kanski taka það að þér?
Lokað fyrir athugasemdir.