Ótti við nánd eða kommittment fóbía eins og við köllum hana stundum heitir á fræðimálinu Gamophobia – Hvað er það og hvernig lýsir þessi ótti sér? Og hvernig eru sambönd hjá gamophobes sem óttast nánd?
Oft heyrum við talað um að karlmenn séu haldnir skuldbindingarfælni en öllu sjaldnar heyrum við talað um að kvenfólk sé svona. Fæst, hvort sem það eru karlar eða konur, forðast alfarið sambönd því flest eru alltaf að reyna en samböndin eru yfirleitt mjög endaslepp. Sumar konur eru ekki lengur en í fáein ár í hverju sambandi, kannski tvö til fjögur, en þar sem konan skiptir reglulega um maka eru fáir sem átta sig á, og allra síst hún sjálf, að hún er í raun og veru hrædd við sambönd, eða réttara sagt nándina sem þarf að vera til staðar svo að samband verði farsælt og gangi vel.
Eru eins og afrit af hver öðrum
Ólíkt konum sem eru haldnar sambandsfælni þá eru karlmenn ekki endilega með svipaða týpu sem þeir velja sér. Karlmaður getur byrjað með rólegri hannyrðakonu sem er öll af vilja gerð til að vera í sambandi og hann leitar í raun fremur á þau mið frekar en að sækja sjálfur í konur sem vilja ekki skuldbinda sig í samband. Þetta er auðvitað ekki algilt en þó mjög algengt. Sú sambandsfælna kvartar mikið undan því hvað karlmenn séu erfiðir en sér ekki að kærastarnir hennar eru eins og afrit af hver öðrum með örlitlum blæbrigðamun, en það sem þeir eiga allir sameiginlegt er að vera ekki tilfinningalega tiltækir frekar en hún sjálf. Skoðum hér nokkrar gerðir af þeim karlmönnum sem hún heillast af:
1. Ekki vinamargur heldur vinkonumargur
Dæmigert fyrir hana væri að finna sér mann sem á margar vinkonur eða eina eða tvær nánar sem eru hvorki skyldar honum né með aðra kynhneigð. Þvert á móti þá eru þetta bara frekar huggulegar konur sem hann hefur ýmist þekkt lengi eða kynnst í gegn um vinnu.
Hún finnur auðvitað á sér að það sé nú eitthvað bogið við að fullorðinn karlmaður sé ekki vinamargur heldur vinkonumargur, og spyr sig af hverju hann vilji tala við aðrar konur en hana um sín innstu mál. Hann þrætir auðvitað alltaf fyrir að það sé meira en vinskapur sem búi að baki, hann nái bara betur til kvenna en karla, enda hafi hann alist upp með systrum (algeng skýring) en það er yfirleitt ekki lengi að bíða þar til annað kemur í ljós.
2. Sá upptekni
Þessi er alltaf alveg meiriháttar upptekinn. Upptekin af strákunum, upptekin af fótbolta, upptekinn af vinnunni, upptekin í símanum, ræktinni, golfi, hjólaferðum og bara svona yfir höfuð alltaf alveg rosalega upptekinn. Hann er svo upptekinn að hann hefur engann tíma fyrir sambandið við hana og það er vissulega tilfinningalegt turn-on fyrir vinkonu okkar.
Turn-on af því hún er með keppinauta (sem er allt þetta sem hann er svo svakalega upptekinn af) og nánast linnulaust reynir hún að draga að sér athyglina eða alveg þangað til hún nær henni. Þá fer hún með hugann annað og eftir situr sá upptekni, búinn að færa til öll plön og skilur ekki neitt í neinu en auðvitað gat hún ekki verið með honum þegar hann var loks tilbúinn til þess. Hún er jú skuldbindingafælin.
3. Sá listræni
Sá listræni er haldin þeirri ranghugmynd að til að geta verið skapandi listamaður þá verði hann að fá að vera frjáls. Hann lítur þannig til fyrirmynda eins og Picasso og Hemingway og minnir sig á að þeir hafi jú verið kvennamenn og verulega frjálsir. Gátu gert það sem þeim sýndist.
Þann listræna dreymir heldur ekki um ábyrgð eða fjölskyldulíf og litla hvíta girðingu. Langt því frá. Hann langar að rúlla sér nakinn upp úr olíulitum, nota stólpípu og kyrja möntrur fram á morgun eins oft og hann kemur því við og fyrir konu sem telur sig hafa eðlilegar væntingar til sambands og vill eitthvað stabílt og öruggt þá er eiginlega vonlaust að aðlagast svona týpu.
4. Sá félagslyndi
Þessum finnst ótrúlega gaman að fá sér einn kaldann, og fara á Kalda eða í hvert einasta partý sem honum er boðið í. Hann fer alltaf í bjór með strákunum eftir vinnu, hann mætir á bókstaflega alla fótboltaleiki sem hann kemst á og svona mætti lengi telja. Hann er samkvæmisljón sem fær aldrei nóg.
5. Sá sem býr erlendis
Sú sem er haldin ótta við nánd á auðvelt með að stofna til kynna við menn sem búa erlendis (það hljóp aldeilis á snærið þegar túristarnir byrjuðu að koma til landsins). Það er svo mikið af áhugaverðum mönnum sem búa erlendis, mikið meira úrval en hér á Íslandi segir hún til að sannfæra sjálfa sig og svo taka við stefnumót á Zoom og stuttar helgarferðir til London og Berlínar. Þetta gengur sjaldan upp því eins og vitað er með fjarsambönd.
6. Sá sem er nýkominn úr löngu hjónabandi
Hvað er meira heillandi en maður sem er nýkominn úr tuttugu og fimm ára sambandi og skráir sig á Tinder? Ekkert! Að minnsta kosti í huga sambandsfælnu konunnar. Maðurinn er auðvitað alveg ringlaður ennþá í sínu nýja lífi og á sama tíma er hann að reyna að bæta upp fyrir öll árin þar sem hann „missti af því” að sofa hjá allskonar konum. Þar fyrir utan á hann þrjú börn og er verðandi helgarpabbi. Ekki að það sé slæmt en fyrir konu eins og hana þá er það full mikil áskorun.
Sambandsfælnu finnst engin ástæða til að bíða eftir því að svona maður jafni sig, og heldur verða sú sem hann kynnist eftir rebound, en þetta verður að sjálfssögðu bæði dramatískt og endasleppt – sem er svona eiginlega eins og hún vill hafa það þó hún geri sér enga grein fyrir sjálf.
Hvað veldur og hvað er hægt að gera?
Samkvæmt sálfræðinni þá er það svo að fólk sem er haldið þessum ótta við nánd á það flest sameiginlegt að hafa alist upp á heimilum þar sem fyrirmyndirnar, það er að segja foreldrarnir, voru ekki góð við hvort annað.
Sem stelpur horfðu þá konurnar oft upp á pabba sinn svkíkja mömmu, og þær báðar, og strákarnir upplifðu að eiga móður sem veitti þeim ekki ást og hlýju, eða alveg hið gagnstæða að þeir voru kæfðir af mæðrum sínum sem notuðu drengina sem einskonar andlega staðgengla fyrir makann. Svo er líka mjög algengt að svona fólk hafi átt mjög erfiða upplifun af fysta ástarsambandinu sínu sem mótaði það og gerði það hrætt við að treysta.
Skortir hvorki áhugann eða löngunina
Það er samt ekki eins og skuldbindingafælnar konur (og karlar) hafi ekki áhuga eða löngun til að upplifa ást. Þvert á móti þá þrá þau ást og hlýju og tilfinningalegt öryggi eins og allir aðrir.
Málið er bara að um leið og öll þessi yndislegheit banka uppá þá eykst áhættan á að vera særð og eins og til að verja sig þá byrja þau að mjaka sér út áður en gatið rifnar á hjartað og blóðið flæðir út -Eða að þau koma sér vísvitandi í sambönd þar sem litlar líkur eru á því að nándin eigi eftir að verða raunveruleg samanber listinn hér að ofan. Samböndin hætta þannig af sjálfu sér.
Sérfræðingar benda á að til þess að reyna að komast yfir svona fælni þá sé í fyrsta lagi nauðsynlegt að setjast niður, líta yfir barnæskuna og fara í saumana á fyrri samböndum. Skrifa þau jafnvel stuttlega niður og sjá hvort ekki sé hægt að koma auga á mynstrið. Um leið og búið er að greina það er hægt að taka þá ákvörðun að gera ekki sömu mistökin aftur og endurtaka ekki sömu hegðunina gagnvart nýja makanum, sem þá væntanlega er ekki á listanum fyrir ofan.
Fer gagngert og fiskar í vondum vötnum
Kona sem óttast nánd hefur vísvitandi, en samt alveg ómeðvitað, farið á veiðar í hættulegum vötnum og um leið tekið stóran sveig framhjá ánum þar sem feitu laxarnir liggja, fullir af ást og öryggi og hlýju. Fyrsta skrefið er semsagt að taka eftir þessum krúttum sem taka líka eftir henni og hafa eitthvað meira að gefa,.
Framtíðin:
Þegar hún svo finnur sér einhvern til að raunverulega treysta og elska er nauðsynlegt fyrir hana að taka því rólega í byrjun. Fólk sem er haldið nándarfælni á það einmitt til að vilja fara af stað með miklum krafti en missir svo áhugann eftir smá tíma. Nú er ráð að slaka á og nálgast hægt og rólega. Taka sérstaklega vel eftir eigin viðbrögðum og tilfinningum og þegar gömlu stælarnir fara að gera vart við sig að bregðast þá ekki eins við eins og áður. Bara bremsa, anda djúpt og hugsa áður en talað er.
Og talandi um að tala. Það er verulega mikilvægt að tjá sig. Segja þegar þú ert hrædd við að fara of hratt, segja frá því að þú sért að reyna að gera þitt besta og að þetta sé hluti af því ferli, bara í stutti máli tjá þig og berskjalda til þess að mega skapa nánd.
Passa sig að opna ekki allt upp á gátt
Stundum er samt hægt að ofopna eða óver-sjéra eins og það er kallað. Þegar þú ofopnar þá ertu með það að leiðarljósi að vera virkilega opinn en í stað þess að vera opinn á þægilegan og sjarmerandi hátt, þá hellirðu öllum hugsunum þínum (um leið og þú hugsar þær) óritskoðað yfir áheyrandann hvort sem hann er í stakk búinn til að hlusta eða ekki.
Og þetta með að ofopna. Það getur einmitt verið leið til að fæla ómeðvitað frá sér… segja jafnvel mikið frá fyrri kynlífsreynslum, kærustum og öðru slíku. Nú á að sleppa þessu öllu og leyfa frekar hlutunum að koma fram hægt og rólega og á sínum eigin tíma en ekki í einhverri gusu á fyrsta eða fjórða stefnumóti. Þú ætlar jú að endast í þessu sambandi.
Ef rétt er staðið að málunum, og allir meðvitaðir um eigin hegðun og veikleika, þá ætti litla smeyka stelpan að geta verið orðin alsæl í góðu sambandi áður en hún veit af en fyrst og fremst verður hún samt að finna út hvað hún hefur verið að gera rangt og gera svo eitthvað allt annað en það er jú grundvallarregla allra andlegra framfara.
Fylgist með því við ætlum að fjalla nánar um “gamófóbíu” síðar…
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.