Við heyrum oft talað um það að góður göngutúr geti haft ótrúlegustu áhrif á heilsuna. Hvort sem það er að ganga upp á fjall eða út í fjöru.
Sjálf fann ég mikið fyrir þessu þegar ég starfaði í ferðamálabransanum. Þar fór ég mjög oft í allskyns ferðir í náttúruna, auk þess sem ég tók staðarlotur í náminu í ferðamálafræði sem snerust um útivist.
Náttúran hefur ótrúlega heilandi eiginleika. Við erum hluti af náttúrunni og náttúran er hluti af okkur. Ég man þegar ég las um það í einum áfanganum að þrátt fyrir að þróunin og tæknin hafi verið ótrúlega hröð á síðustu árum þá þýði það ekki að við sjálf séum að þróast á sama hraða.
Við höndlum þetta ekki
Nú man ég þetta ekki orðrétt og eflaust blandast þetta eitthvað við mína sýn og trú sem er sú að við mannfólkið séum ekki gerð fyrir að vera svo fjarri náttúrunni og svo háð tækninni. Að vera alltaf í tölvum og tækjum veldur miklu áreiti enda höfum við sem manneskjur ekki þróast jafn hratt og tæknin. Við „höndlum” þetta ekki í raun og veru, sem leiðir til þess að margir upplifa svo mikla streitu og leita í leiðir til þess að flýja þær aðstæður, hverjar sem þær eru. Svo kemstu ekki úr þeim vítahring fyrr en þú sameinast náttúrunni aftur og í því samhengi er talað um að göngutúrar innan um byggða væru ekki nóg, maður þarf að komast í meiri ró.
Best að vera utan byggða
Sjálfri líður mér sjaldan jafn vel og þegar ég er komin út fyrir byggðina, þegar ég labba í friði og mér finnst ég geta tekist á við allt. Ég furða mig alltaf á af hverju ég sé ekki alltaf úti í náttúrunni en það gleymist svo oft jafn fljótt og ég fæ hugmyndina. Ég reyni þó að vera sem mest úti við og mun gera mig besta til að strákurinn minn verði eins mikið utandyra og mögulegt er. Ef við erum úti í náttúrunni þá erum við oftast að hreyfa okkur og hreyfing er alltaf holl, auk þess að við græðum þá betri líkamlega heilsu þá græðum við betri andlega heilsu. Þetta helst allt í hendur.
Meðal við kvíða og þunglyndi
Ef þú þjáist af kvíða, þunglyndi eða einfaldlega ert döpur þá er þess virði að reyna að komast út í náttúruna eða bara út undir beran himinn. Það er erfiðast að koma sér út úr húsi, en mundu að það er bara þú sjálf/ur sem getur komið þér þangað og ef þú trúir því nógu mikið að þér líði betur eftir labbitúrinn þá er frekar möguleiki að þú farir af stað.
Svo má ekki gleyma allri þeirri fegurð sem náttúran hefur upp á að bjóða. Náttúran er svo ótrúleg og ef við gefum okkur tíma til að horfa í kringum okkur og njóta þess sem við sjáum þá getur það komið okkur svo mikið á óvart hvað þetta gerir fyrir kollinn á okkur, hvernig streitan minnar og hugurinn verður rórri.
Með þessum orðum hvet ég þig til að leggja frá þér símann og skella þér út í stuttan labbitúr. Það byrjar allt bara á einu skrefi og þó þú farir bara í fimm mínútur í dag, þá verða þær örugglega tíu á morgun.
Kærleiks og hvatningar kveðja
Sylvía
Sylvía er einkaþjálfari, yin jóga kennari, heilsumarkþjálfi og eigandi Optimal Health sem er andleg og líkamleg þjálfun fyrir konur. Sylvía býr á Spáni ásamt syni sínum og Oreo kisunni þeirra.