Öll sambönd og hjónabönd glíma við einhverskonar vandamál er varða ólíka sýn, mismunandi hegðun eða jafnvel léleg samskipti á milli maka.
Ekkert samband er það fullkomið að engin vandamál séu til staðar í því en það sem skilur á milli sambanda sem endast og þeirra sem líða undir lok er HVERNIG tekið er á vandamálum og hvernig samskipti eiga sér stað á milli maka. Sambandið er í hættu ef þú leyfir neikvæðni, spennu og egóinu að vera ráðandi í samskiptum ykkar.
Ef þú kannast við eitthvað af eftirfarandi þá þarf að grípa inn í og reyna að bjarga sambandinu:
Samskipti sem einkennast af GAGNRÝNI og ÁSÖKUN:
Slík samskipti lýsa sér þannig að rifrildi snúast oftar en ekki um persónuna sjálfa og hver hún er, þannig að ekki er verið að rífast um vandamálið sjálft.
Stundum gleymist að átta sig á því að þegar maður er í sambandi gengur maður að því að sætta sig við einstaklinginn eins og hann er. Aftur á móti er neikvæð hegðun eitthvað sem má gagnrýna en ekki detta í þann pytt að gagnrýna makann fyrir það hver hann er.
Í samskiptum er best að byrja setningar á „Ég“ í staðinn fyrir „Þú“, og greina þannig frá hvernig þér líður vegna hegðunar maka.
Dæmi: „Mér þykir mjög leitt hvernig staðan er á sambandi okkar, ég er ekki að ásaka þig um neitt, en ég get ekki boðið mér upp á svona aðstæður mikið lengur“.
Samskipti sem einkennast af ANDÚÐ eða FYRIRLITNINGU:
Oft lýsa samskiptin sér í staðhæfingum sem eru kaldhæðnar og innihalda jafnvel uppnefni, líkamstjáningu sem líkist hæðni eins og að ranghvolfa augunum eða gera lítið úr viðkomandi með fjandsamlegum húmor. Til að brjóta upp slíkt mystur þarf að byggja upp andrúmsloft sem felur í sér þakklæti, viðurkenningu og virðingu gagnvart hvort öðru.
Samskipti sem einkennast af VÖRN:
Þegar einstaklingur heldur vörn í samskiptum er hann líklegur til að finna upp sífelldar afsakanir, neita því að bera ábyrgð og snúa því sem verið er að ræða um upp á maka sinn.
Sá sem er í vörn á mjög erfitt með að heyra það sem makinn er að tjá sig um og sér oft ekki aðstæðurnar frá sjónarhorni annara. Það fyrsta sem þarf að gerast er að sá sem er í vörn þarf að átta sig á því, taka ábyrgð á eigin líðan/hegðun og byrja á því að finna út af hverju vörnin myndaðist. Ábyrgð á eigin hugsun, hegðun og líðan þarf að vera til staðar og það verður að hætta að kenna öðrum um eigin aðstæður.
Samskipti sem einkennast af AFNEITUN um stöðu mála:
Slík samskipti lýsa sér þannig að annar aðilinn (eða báðir) neita að sjá eða takast á við vandamálið í sambandinu. Að bretta upp ermar og vinna á málinu er yfirþyrmandi fyrir viðkomandi og hann/hún endurtekið reynir að koma sér úr aðstæðum með að flýja samræður eða sópa öllu undir teppi og láta sem ekkert sér að.
Slík hegðun er mjög skemmandi því sá sem er í afneitun er að stimpla sig út úr sambandinu og jafnvel mjög góðu sambandi (gæti verið það rétta). Til að byrja með þarf sá sem er í afneitun að byrja á því að rýna ofan í það af hverju honum/henni reynist svona erfitt að viðurkenna að vandamál sé til staðar, næst þarf að brjóta óttann við að stíga út fyrir þægindahringinn og takast á við óþægilegar aðstæður. Tjáning við maka um það hvernig og af hverju þú velur afneitun og leyfa honum/henni að hjálpa þér að vinna í því að sjá hversu miklu betra það er að ráðast í verkefnið og leysa vandamálið.
Taktu ábyrgð á lífi þínu, leyfðu þér að njóta þess og ekki láta það fljóta framhjá þér !
Ragnheiður Guðfinna er fædd árið 1980. Hreinræktaður Vestmannaeyingur í húð og hár. Hún hefur í gegnum tíðina sinnt ýmsum störfum til sjávar og sveita, meðal annars tekið á því í netavinnu og humarvinnslu, sinnt fyrirsætustörfum og sölu -og markaðsmálum svo sitthvað sé nefnt en í dag starfar hún sem ráðgjafi í vinnusálfræði hjá Stress.is. Ragnheiður á tvö börn og á fyrirtaks mann sem tekur rómantíkina alvarlega.