Ég hef aldrei stillt mér fremst í röðina til að fá að þrífa bíla. Mér finnst það satt að segja mjög leiðinlegt enda er ég 1.58 sentimetrar á hæð og það er sumt sem verður flókið og leiðinlegt þegar manni er skammtaður þessi sentimetrafjöldi frá skaparanum (og svo auðvitað annað sem er einfalt og æðislegt, svona svo það sé á hreinu).
Eitt af því sem gerir það erfitt að hafa fæðst sem smávaxin kvenmaður er að standa veðurbarinn með kúst á blautu plani við bensínstöð og rembast við að koma burstanum upp á þakið á bílnum. Djöflast svo hringinn í kringum hann með krókloppna fingur og rautt nef. OMG… þvílík leiðindi! Það er örugglega meira gaman að vera Leppalúði en ég að þrífa bíl.
En það er ljós í myrkrinu! Eftir að ég uppgötvaði bílaþvottastöðina Löður hef ég alltaf rennt blessuðum bílnum mínum í gegnum stöðina úti á Granda og borgað þessar rúmu 2500 sem það kostar. Rétt stráknum í lúgunni peningana með bros á vör, guðs lifandi fegin að þurfa ekki að standa í þessu sjálf og fullkomlega sátt við nýtingu fjármuna minna.
[youtube]https://youtu.be/ZBiJv0Wxcgg[/youtube]
Ég varð svo enn glaðari þegar ég áttaði mig nýlega á því að ég gat LÍKA fengið þessa dáðadrengi til að þrífa bílinn minn að innan og á meðan beið ég (ef bið skyldi kalla) í mjög snyrtilegu umhverfi sem kallast BETRI STOFAN (sjá myndband).
Þeir stukku þrír í einu á súkkuna mína eins og ninjur, með tuskur og spreybrúsa á lofti… og meðan ég varla gat klárað kaffið voru þeir búnir að þrífa bílinn hátt og lágt svo hann leit úr fyrir að vera nýr þegar ég keyrði heim til mín. Motturnar glönsuðu!
Sjáðu bara myndbandið hér að ofan. Þetta gerðist svo hratt að ég tók varla eftir því. Næstum eins og fljóti strákurinn í X-Men hefði verið verkstjóri þarna.
Þessum upplýsingum vildi ég gjarna deila með þér ef þú skyldir vera damsel in distress líkt og ég sjálf þegar kemur að bílaþrifum.
Og fyrir að fá bílinn svo tandurhreinan að innan sem utan að þú gætir boðið sjálfri Dorrit á rúntinn beint á eftir þarftu að borga rúmlega 5000 krónur. Þetta er þjónusta sem ég mæli óhikað með og ég mun sannarlega nýta mér hana áfram.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.