Reykjavik
23 Mar, Saturday
-2° C
TOP

UPPSKRIFT: Sætkartöfluhummus með stökkum tortillastrimlum

Hummus hefur átt vaxandi vinsældum að fagna hér á landi undanfarin ár.

Hummus er ídýfa eða mauk úr kjúklingabaunum og á uppruna sinn að rekja til arabískrar matargerðar.

Þetta er fyrirtaksfæða, gómsætt sem smáréttur á partíborðið en ekki síðra sem meðlæti með fiski eða kjöti.

Gaman er að gera nýjar útfærslur á hinu hefðbundna hummusi, og er hér uppskrift með sætum kartöflum og sólþurrkuðum tómötum.

Á mínu heimili finnst krökkunum sætkartöfluhummus bragðbetra en hið venjulega og rennur því ljúflega niður í litla maga.

Vinsælt er að bera hummus fram með niðurskornu grænmeti eða snittubrauði. Hér er lagt til að skera tortillahveitikökur í strimla og steikja við háan hita á pönnu sem pensluð hefur verið með svolítilli ólífuolíu. Líka væri sniðugt að grilla strimlana en þeir verða stökkir og sérlega góðir við steikinguna.

  • 1 stór sæt kartafla, um 400 g
  • 350 g kjúklingabaunir, t.d. niðursoðnar
  • 2 msk. tahini (sesamfræmauk)
  • 2 hvítlauksrif, gróft söxuð
  • safi af einni sítrónu
  • 1-2 msk. ólífuolía
  • salt og grófmalaður pipar
  • 10 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir gróft

Skerið sætu kartöfluna í bita, skrælið og sjóðið í léttsöltu vatni í um 10 mínútur. Setjið síðan í matvinnsluvél ásamt öðru hráefni og maukið þar til blandan er orðin slétt og fín.

Rósa starfaði um árabil sem blaða- og fréttamaður lengst af hjá fréttastofu Stöðvar tvö og Bylgjunnar. Hún hefur skrifað um mat og matargerð í ýmis blöð og tímarit, þar af í rúman áratug fyrir Gestgjafann. Rósa gaf út sína fyrstu matreiðslubók, Eldað af lífi og sál, haustið 2009. Nú starfar Rósa við ritstörf hjá Bókafélaginu og er bæjarfulltrúi í Hafnarfirði.