Hummus hefur átt vaxandi vinsældum að fagna hér á landi undanfarin ár.
Hummus er ídýfa eða mauk úr kjúklingabaunum og á uppruna sinn að rekja til arabískrar matargerðar.
Þetta er fyrirtaksfæða, gómsætt sem smáréttur á partíborðið en ekki síðra sem meðlæti með fiski eða kjöti.
Gaman er að gera nýjar útfærslur á hinu hefðbundna hummusi, og er hér uppskrift með sætum kartöflum og sólþurrkuðum tómötum.
Á mínu heimili finnst krökkunum sætkartöfluhummus bragðbetra en hið venjulega og rennur því ljúflega niður í litla maga.
Vinsælt er að bera hummus fram með niðurskornu grænmeti eða snittubrauði. Hér er lagt til að skera tortillahveitikökur í strimla og steikja við háan hita á pönnu sem pensluð hefur verið með svolítilli ólífuolíu. Líka væri sniðugt að grilla strimlana en þeir verða stökkir og sérlega góðir við steikinguna.
- 1 stór sæt kartafla, um 400 g
- 350 g kjúklingabaunir, t.d. niðursoðnar
- 2 msk. tahini (sesamfræmauk)
- 2 hvítlauksrif, gróft söxuð
- safi af einni sítrónu
- 1-2 msk. ólífuolía
- salt og grófmalaður pipar
- 10 sólþurrkaðir tómatar, saxaðir gróft
Skerið sætu kartöfluna í bita, skrælið og sjóðið í léttsöltu vatni í um 10 mínútur. Setjið síðan í matvinnsluvél ásamt öðru hráefni og maukið þar til blandan er orðin slétt og fín.

Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.