Það er skemmtileg viðbót við matargerð að rækta sínar eigin kryddjurtir og mjög auðvelt að byrja á því að rækta myntu.
Það eru til hundruðir tegundir af þessari kryddjurt en algengar tegundirnar eru grænmynta (e. spearmint), piparmynta, sítrónumynta, eplamynta og svo er líka til SÚKKULAÐIMYNTA!
Best er að kaupa forræktaða myntu í gróðrarstöðvum, fá afleggjara frá vinum og vandamönnum eða rækta myntu frá fræjum en þar sem sumarið er komið vel í gang er sniðugast að skella sér í gróðrastöð og kaupa forræktaða plöntu.
Kosturinn við myntuna er að þær dafna einstaklega vel við mismunandi aðstæður og er mjög auðvelt að rækta þær út á svölum í potti eða í löngu kari en myntuplantan er mjög plássfrek á opnum svæðum og hentar þ.a.l. vel að rækta hana í ílátum.
Svo er líka yndislegt að vakna á morgnana á góðum sumardegi, skella sér út á svalir, nudda plöntuna létt með fingrunum og finna ilminn. Hann er svo frískandi og myndar góða stemningu fyrir daginn.
Hér er dæmi um hvernig er hægt að byrja mynturæktun:
- Keyptu þér myntuplöntu, eða skelltu þér í sunnudagsbíltúr og fáðu afleggjara hjá t.d vinkonu, kannski bíður hún þér upp á myntute í leiðinni, Mohito ef þú ert heppin.
- Gróðursettu myntuna í potti með götum, hafðu vikur í botninum og settu gróðurmold þar ofan á. Ef þú fékkst afleggjara settu hann í glas fullt af vatni og bíddu í viku, þá fara að koma rætur. Bíddu þá í smá stund lengur eða þar til ræturnar hafa dafnað betur og eru tilbúnar að fara í mold.
- Þegar plantan er komin í pottinn, vökvaðu hana en jarðvegurinn á að vera rakur til að plantan þrífist vel (mikilvægt er þó að ofvökva ekki plöntuna) og leyfðu sólina að verma hana til að gera hana hamingjusama.
Myntuna er svo hægt að setja út á salatið, í kjúklingaréttinn, á lambakjötið, í jógúrtsósuna, Mohito-inn, gera sér te og fleira og fleira.
Fyrir þær sem vilja sökkva sér í myntupælingar þá er gott að gúggla “Grow your own mint plant in a container” eða “How to Grow Mint plant”.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.