Spéhræðsla virðist ekki hrjá Rihönnu miðað við síðasta dress sem söngkonan valdi sér til að klæðast á rauða dreglinum.
Söngkonan var mætt á CFDA verðlaunahátíðina í fatnaði sem skildi ansi lítið eftir fyrir ímyndunarafliðansi. Klæðnaður hennar samanstóð af efnislitlum, húðlituðum nærbuxum og gegnsæjum kjól úr hvorki meira né minna en 2600 Swarovski kristöllum. Við herlegheitin bar hún svo skuplu í stíl við kjólinn og fölbleikann loðfeld.
Hönnuður kjólsins er Adam Selman sem er hvað þekktastur fyrir að hanna sviðsklæðnað fyrir poppstjörnur. Auk Rihönnu hefur hann hannað fyrir Lady Gaga og Gwen Stefani. Ætlunin var að fá tískuheiminn til að taka eftir. Það má segja að það hafi tekist heldur betur vel.
Umtalað og eftirminnilegt dress, svo ekki sé meira sagt.
Rihanna fór ekki tómhent heim af verðlaunahátíðinni því hún var valin mesta tískutáknið og veitti Anna Wintour henni verðlaunin. Ansi lukkulegur herramaður fékk að fylgja Rihönnu upp á svið og virti fyrir sér það sem fyrir augum bar.
Hún hefur þrusu kropp skvísan, það deilir enginn um. Hvort þetta er hins vegar viðeigandi klæðnaður fær hver og einn að dæma fyrir sig…
Eydís Halldórsdóttir er viðskiptafræðingur að mennt. Fædd og uppalin í Eyjum, hefur verið búsett í Reykjavík síðustu ár en býr nú í Barcelona þar sem hún stundar mastersnám og nýtur lífsins. Tíska og hönnun er hennar helsta áhugamál. Eydís er tvíburi samkvæmt speki stjarnanna, fædd í maí 1990. Mail: eydishalldors@gmail.com