RIFF kvikmyndahátíðin er á næsta leiti en hún verður haldin í höfuðborginni, dagana 25 september til 5 október.
Fjöldinn allur af flottum myndum verður til sýninga á hátíðinni og því sannkallað festival fyrir fólk sem kýs að horfa á vandaðar myndir sem skilja eitthvað eftir sig.
Við heyrðum í Önnu Margréti Björnsson, kynningarstjóra hátíðarinnar, og spurðum hana hvaða myndir henni þættu mest spennandi af því sem koma skal á RIFF.
Anna velur fimm myndir en af þessum fimm er ein færeysk hrollvekja, ein sænsk mynd um fölnaða fyrirsætu, tvær pólitískar myndir um konur og stöðu þeirra í okkar stóra heimi sem og ein mynd um ástarhreiður í Japan.
Á hátíðinni verða sýndar um yfir 100 myndir, þar af tæplega fimmtíu myndir eftir kvenleikstjóra en um er að ræða leiknar myndir, heimildarmyndir og stuttmyndir.
Myndirnar koma víða að úr heiminum m.a. frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Frakklandi, Ítalíu, Grænlandi, Færeyjum, Eþópíu og Úkraínu. RIFF er sannkölluð fjölmenningarhátið en myndirnar koma samanlagt frá fjörutíu löndum.
Það verður gaman að sjá þessar og fleiri myndir á RIFF. Frábær hátíð á flottum tíma því hvað er betra en að sitja inni í kvikmyndahúsi og horfa á góða mynd meðan vindar blása og skammdegið hefur sína árlegu innreið...
Heimasíða RIFF er hér.
[youtube width=”625″ height=”525″]http://www.youtube.com/watch?v=jMg-SWePBgw[/youtube]
1. Villa Touma eftir palestínsk/ísraelska leikstjórann Suha Arraf.
Suha Arraf kemur hingað til landsins í tilefni þess að mynd hennar Villa Touma er ein af þeim tólf myndum sem keppa um Gyllta lundann.
Nokkuð fjaðrafok hefur verið um mynd Arraf þar sem hún er sjálf palestínsk en með ríkisborgararétt í Ísrael og því hefur spurningunni verið velt upp hvort listaverkið – eða kvikmyndin í þessu tilfelli – sé ísraelskt eða palestínskt.
Arraf er blaðakona sem hefur fjallað lengi um átökin á Gaza svæðinu og gerði heimildarmynd um konurnar í Hamas samtökunum sem er margverðlaunuð. Villa Touma er hinsvegar leikin mynd og fjallar um þrjár ógiftar systur úr hefðarstétt Ramallah sem hafa ekki náð að sætta sig við hinn nýja raunveruleika sem fylgir hersetu Ísraelsmanna.
[youtube width=”625″ height=”525″]http://www.youtube.com/watch?v=6hHg6axpfHo[/youtube]
2. Difret eftir Zeresenay Berhane.
Kvikmyndin Difret er norðurlandafrumsýnd á RIFF og fékk frábærar viðtökur á hátíðinni í Cannes. Hún er eftir leikstjórann eþíópíska Zeresenay Berhane Mehari og fjallar um sannsögulega atburði.
Fjórtan ára stúlku er rænt á leið heim úr skólanum. Hún reynir að flýja en endar á því að skjóta tilvonandi eiginmann sinn. í þorpinu hennar er brottnám í hjónaband eitt af elstu hefðum Eþiópiu. Myndin fjallar svo um hvernig lögfræðingur ver stúlkuna Hirut til að reyna að bjarga henni frá dauðadómi.
Myndin verður sýnd í samstarfi við UN Women og þess má geta að framleiðandi myndarinnar er Angelina Jolie.
[youtube width=”625″ height=”525″]http://www.youtube.com/watch?v=amQMMMnBkt0[/youtube]
3. Love Hotel eftir Phil Cox og Hiraku Toda.
Ég horfði á þessa heimildarmynd um daginn til að undirbúa mig undir hátíðina. Hún er gífurlega fögur og angurvær sýn á japönsk “love hotels” en þau eru sérstök hótel í stærstu borgum Japan – ekki vændishús heldur eins og ákveðið Disneyland fyrir fullorðina – ástarhreiður þar sem pör til margra ára, elskendur, eldra fólk, og allskyns fólk kemur til að eiga nána stund í klukkustund eða heila nótt.
Snert er á horfinni ást, einmanaleika, vonum og væntingum gesta við erfiðar efnahagsaðstæður. Yndislega falleg mynd.
[vimeo width=”600″ height=”500″]https://vimeo.com/103339032[/vimeo]
4. Þakíbúð til norðurs (Penthouse North) eftir sænska leikstjórann Johanna St Michaels.
Heimildarmyndin Penthouse North sem fékk afbragðsdóma á kvikmyndahátíðinni í Toronto og hefur fengið veglega umfjöllun vestanhaf. Hún fjallar um sænska súpermódelið Agnetu Eckemyr sem er nú komin á sjötugsaldur. Agneta prýddi forsíður margra tískutímarita á áttunda áratugnum, var fatahönnuður á yngri árum og hluti af þotuliði New York borgar.
Hún flutti inn í glæsilega þakíbúð með útsýni yfir Central Park árið 1969. Hún var vön að kalla hana sinn einstaka stað á milli himins og jarðar, en núna virðist íbúðin vera bæði blessun hennar og bölvun. Íbúðin hefur verið miðlæg í lífi Agnetu og var miðstöð veisluhalda sem og vinnustofa hennar í starfi sem ljósmyndari og hönnuður. Í myndinni eru tilfinningar Agnetu vegna æskumissis og samruna eigin sjálfs við íbúðina skoðaðar en þegar tilveru hennar er ógnað með útburðartilkynningu frá leigusalanum sem vill losna við hana, vill Agneta ekki þurfa að sleppa takinu af fortíðinni og lykilhluta eigin sjálfs.
Leikstjórinn Johanna StMichaels fylgist með daglegu lífi Agnetu sem er núna peningalaus, vinalaus og reynir að sætta sig við öldrunarferlið. Myndin er fyndin og angurvær í senn um manneskju sem neitar að eldast og breytast efitr því sem árin líða.
[vimeo width=”600″ height=”500″]https://vimeo.com/105419104[/vimeo]
5. Færeyska kvikmyndin Ludo eftir Katrin Ottarsdottur.
Ludo er sálfræðitryllir sem gerist í Færeyjum á einum sólarhring. Þar segir frá fjölskyldu sem býr saman í fallegu húsi á frábærum stað við hafið í þorpinu Sandi í Færeyjum. Við fyrstu sýn virðast þau, móðir, faðir og 11 ára dóttir þeirra, vera með öllu venjuleg og hamingjusöm fjölskylda. En við nánari athugun virðist eitthvað illt hafa tekið sér bólfestu í myrkrinu innan dyra hússins og á bak við fullkomin bros fjölskyldumeðlima. Mjög spennandi og draugaleg mynd sem hefur vakið gríðarlega athygli!
___
Sérstakir heiðursgestir sem koma á hátíðina eru leikstjórarnir Mike Leigh og Ruben Östlund. Hátíðinni lýkur þann 5. október með sýningu myndarinnar Boyhood í leikstjórn Richard Linklater, en kvikmyndagerðarmaðurinn fylgdist með söguhetjunni í tólf ár. Myndin hefur fengið einróma lof gagnrýnanda og þykir kvikmyndalegt þrekvirki.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.