Sem algjört bíónörd hlakka ég alltaf til RIFF svipað mikið og jólanna. Ég hef líka lengi verið á þeirri skoðun að allir ættu að fá lögbundið RIFF-frí, eða vantar ekki akkúrat eitthvað gott frí á milli verslunarmannahelgar og jóla?
RIFF 2013 er alveg sérstaklega glæsileg í ár enda er hún nú haldin í tíunda sinn, og hátíðin hefur aldrei verið eins umfangsmikil og núna.
Kvikmyndaveislan hefst þann 26. spetember með frumsýningu á íslensku myndinni Svona er Sanlitun eftir Róbert Douglas og lýkur þann 6. október með Norðurlandafrumsýningu á myndinni Líf Adele sem hlaut Gullpálmann í Cannes í ár.
Á hátíðinni verða sýndar hátt í hundrað myndir í fullri lengd auk fjölda stuttmynda sem koma frá yfur 40 löndum. Meðfram sýningu myndanna er boðið upp á fjölbreytta fræðsludagskrá þar sem tugir erlendra gesta deila fróðleik um kvikmyndir og taka þátt í spurt og svarað eftir sýningar.
Myndirnar á hátíðinni í ár fjalla um allt á milli himins og jarðar, allt frá letilífi unglina á eyjunni Korsíku yfir í líf inúíta í nyrstu héruðum Kanada, um albínóa í Tansaníu og pönkara í Stokkhólmi, erfðabreytt matvæli, viðskipti með Bordeux vín, niðurhal á netinu, kjörbúð á Sauðárkróki, innflytjendur í New York, hlýnun Norðurheimsskautsins og óléttar táningsstelpur í Póllandi.
RIFF er fjölbreytt, sólrík en jafnframt skuggaleg, og þar verður hægt að finna allt litróf mannlegra tilfinninga!
Sýningar á myndunum á RIFF eru ekki allar með hefðbundnu sniði og er meðal annars boðið upp á sýningu á Airplane! í Laugardalslauginni, Hellabíó í Bláfjöllum og Grínbíó svo fátt eitt sé nefnt.
Ég hlakka alveg sérstaklega mikið til RIFF í ár og vona að sem flestir nái að skella sér í ár að sjá eitthvað fróðlegt eða skemmtilegt eða jafnvel bæði!
Miðasala á hátíðina hefst 19. september í Tjarnarbíó, en ef þú getur ekki beðið er byrjað að selja miða og hátíðarpassa á www.riff.is
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.