Það er ekki á hverjum degi sem maður sér þessum þremur hlutum blandað saman til að gera kvikmynd, það er kynlífi, eiturlyfjum og skattamálum en danska leikstjóranum Christoffer Boe tekst það á mjög skemmtilegan hátt!
Sex, Drugs and Taxation fjallar um þá Simon Spies (Pilou Asbæk) og Mogens Glistrup (Nicolas Bro) sem voru áberandi karakterar í Danmörku á áttunda og níunda áratugnum.
Spies var eigandi ferðaskrifstofu en Glistrup var lögfræðingur og stofnaði seinna stjórnmálaflokkinn Fremskridspartiet. Myndin fjallar um undarlega vináttu þessara gjörólíku karaktera sem voru helsta efni danskra slúðurblaða á þessum tíma og nær að gera það á mjög húmorískan hátt.
Fjölskyldur þeirra raunverulegu Spies og Glistrup hafa sem betur fer gefið það út að myndin komist ekki einu sinni nálægt sannleikanum. En myndin er oft, þrátt fyrir að vera fyndin, mjög lítillækkandi fyrir konur og maður getur aðeins vonað að helmingurinn af því sem átti sér stað í myndinni hafi ekki átt sér stoð í raunveruleikanum. Leikstjórinn hefur sjálfur gefið yfirlýsingu um það að myndin sé byggð á þeim opinberu gögnum og fréttum sem hann komst í en svo hafi verið getið í eyðurnar, svo það er ekki öll von úti!
Sex, Drugs and Taxation er klárlega skemmtilegt innlit í Danmörk þessa tíma og fullur salurinn veltist ósjaldan um af hlátri, enda fellur danski húmorinn ekki svo langt frá þeim íslenska!
Næsta sýning af Sex, Drugs and Taxation er næstkomandi laugardag, þann 5.10 kl. 23:30 í Háskólabíó.
[vimeo]http://www.vimeo.com/71358916[/vimeo]
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.