Það eru sumar myndir sem fá þig til þess að langa til að taka frí frá umheiminum og bara hugsa, svo eru aðrar sem fá mann til þess að vilja gráta í marga daga á eftir…
….enn aðrar fá mann til þess að slá mann og annann vegna hræðilega raunveruleikans sem kemur í ljós í þeim. Miss Violence er blanda af þessu þrennu og svo miklu meira.
Miss Violence er ein af myndunum sem sýndar eru á RIFF vegna áherslu hátíðarinnar á gríska kvikmyndaframleiðslu.
Henni er leikstýrt af Alexandros Avranas, sem er ungur grískur leikstjóri og er Miss Violence eitt af hans fyrstu verkum sem sýnt er á alþjóðlegum vettvangi. Alveg frá fyrsta andartaki erhægt að skynja þvingað andrúmsloftið sem einkennir Miss Violence.
Myndin fjallar um gríska fjölskyldu sem við fáum að kynnast nokkrum augnablikum áður en hin ellefu ára gamla Angeliki hoppar fram af svölum íbúðar þeirra, á afmælisdaginn sinn og með bros á vör. Félagsþjónustan og lögreglan reyna að komast að ástæðu sjálfsmorðsins en fjölskylda Angeliki heldur því alltaf fram að um slys hafi verið að ræða.
Hægt og rólega fáum við svo að skyggnast inn fyrir fægt yfirborð fjölskyldulífsins sem er enn hryllilegra en hægt var að ímynda sér í fyrstu.
Umfjöllunarefni Miss Violence er með því hryllilegra sem ég hef séð, það eru fá atriði sem sýna hryllingin beint en hann er skapaður með snilldarlegri myndatöku, hljóði og uppbyggingu atriða.
Það var oftar en einu sinni og oftar en tvisvar í myndinni sem maður vildi virkilega trúa því að hryllingnum væri lokið, eða að hann yrði allavegana ekki verri en það var aðeins í eitt skipti sem áhorfendur náðu að anda léttar og það var svo mikið léttar sem maður náði að anda að áhorfendur klöppuðu, eitthvað sem ég hef aldrei orðið vitni að áður í bíó.
Miss Violence fjallar um raunveruleika sem mann langar sem mest ekki að vita af en samt sem áður raunveruleika sem þarf að vinna gegn og því held ég að kvikmyndin sé mjög gott innlegg í umræðu sem þarf að halda á lífi.
Næsta sýning af Miss violence verður 4. okt kl. 19:00 í Háskólabíó.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=rZ63JuWkSh4[/youtube]
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.