La vie d’Adéle hlaut Gullpálmann í Cannes 2013 og er fyrsta myndin sem hlýtur Gullpálmann bæði fyrir leikstjórn og leik.
Adéle er 15 ára skólastúlka sem finnst ekki allt með felldu í sambandi sínu við stráka og líður eins og hún sé að þykjast og blekkja .
Hún sér bláhærða stelpu úti á götu og fer í framhaldinu að dreyma um hana sem leiðir til þess að hún leitar hennar. Skemmst er frá því að segja að hún finnur hana og fjallar myndin um ástarsamband Emmu og Adéle á fallegan, átakanlegan og ástríðufullan hátt.
Kynlífssenurnar eru ekki fyrir teprur, þær sýna “allt” og er lengsta senan 12 mínútur, sem mér fannst eins og heil eilífð! Við vinkonurnar sátum á milli hjóna á sjötugsaldi og vinkvenna á menntaskólaaldri og það sem kom mér á óvart var að hjónin horfðu svipbrigðalaus á en menntaskólastúlkurnar voru að farast úr óþægindum með hendur fyrir augum, í miðjunni sátum við tvær á fertugsaldi og vissum ekki alveg hvert við ætluðum.
Leikonurnar tvær Adèle Exarchopoulos (Adéle) og Léa Seydoux (Emma) áttu báðar stórleik í myndinni, það var ekki ein sekúnda þar sem manni fannst þær vera “að leika”, svo raunverulegt var samband þeirra á hvíta tjaldinu. Mikið gekk á við tökur sem upphaflega áttu að standa í 2 mánuði en lengdust í 5 mánuði 7 daga vikunnar, þar sem kvikmyndatökumenn, tæknimenn og aðrir hættu í hrönnum og kærðu leikstjórann Abdellatif Kechiche fyrir að beita harðræði og andlegu ofbeldi.
Andrúmsloft á tökustað var magnþrungið og leikstjórinn lét fólk vinna þar til það var örmagna “til að gera leikinn raunverulegri”. Flestir sögðust aldrei ætla að vinna með leikstjóranum aftur eftir þetta.
La vie d’Adéle er meistaraverk sem hefur greinilega kostað blóð, svita og tár.
Mynd sem ég mæli heilshugar með að sjá. ( svo lengi sem þú ert orðin 18 og ekki tepra)
Síðasti séns að sjá La vie d’Adéle er kl 17:30 í dag, sunnudag í Háskólabíó.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=neUu2pIled8[/youtube]Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.