Sjálfhverfa ég merkti fyrst við myndina Itsi Bitsi í RIFF-bæklingnum af því aðalpersónan ber sama nafn og ég sjálf, Eik. Algjörlega óforvarindis var þessi mynd sem ég vissi ekkert um allt í senn skemmtileg, fyndin, átakanleg og sendi mann út hugsi yfir atburðunum sem maður hafði horft upp á.
Itsi Bitsi er dönsk mynd sem er byggð á sannsögulegum atburðum.
Hún fjallar um ljóðskáldið, söngvarann, lagahöfundinn og ferðamanninn Eik Skaløe. Myndin byrjar þegar Eik er uppreisnagjarn ungur maður snemma á sjöunda áratug seinustu aldar.
Stuttu eftir að hann hittir Iben breytist sýn hans á lífið og hann gefst upp á baráttunni við stjórnvöld og yfirvaldið og takmark hans verður það eitt að deyja hamingjusamur. Hann byrjar að skrifa bók til að heilla Iben en faðir hennar er frægur danskur rithöfundur, í tilraun til að fá innblástur fyrir bókina ferðast hann til Parísar og einn daginn kemur Iben að hitta hann.
Þau ferðast víða bæði saman og í sitthvoru lagi en enda svo aðskilin í Danmörku en ævintýri þeirra stoppa ekki þar.
Mér finnst ótrúlega gaman að fara á myndir sem ég veit lítið um og Itsi Bitsi var ein af þeim myndum sem ég ákvað að taka þá áhættu með á RIFF í ár.
Einhverra hluta vegna finnst mér að ég geti alltaf treyst Dönunum til þess að gera í minnsta lagi ágætar bíómyndir.
Ég vissi ekki alveg hvað ég átti að halda í byrjun myndarinnar þar sem ég get verið svakaleg tepra en byrjun myndarinnar var að sjálfsögðu (eins og flestar aðrar skandinavískar kvikmyndir) full af hálftilgangslausri nekt.
Eins og margar aðrar myndir sem fjalla um þetta tímabil sýnir hún líka vel hve þetta tímabil frjálsra ásta snerist í rauninni mikið um eiginhagsmuni þeirra sem vildu ekki binda sig niður á nokkurn hátt (sorry hippar…mér líkar margt annað sem þið gerðuð) og þess vegna átti ég í byrjun erfitt með að tengja við karakterana og þá sérstaklega Iben sem virtist í byrjun vera lítið annað en sjálfselsk og barnaleg.
Eftir því sem leið á myndina náði ég þó að koma auga á gildi persónanna í myndinni og saga þeirra endaði á því að snerta mig nokkuð mikið …já ég fór smá að gráta.
Ég fór út úr bíóinu nokkuð þungt hugsi um söguna sem ég hafði verið að horfa á, um það hvað við elskum á mismunandi hátt og hve óholl ástin getur stundum verið okkur og hve mikinn kjark þarf til þess að neita sér um þá ást.
En Itsi Bitsi er ekki bara ástarsaga hún er líka saga um ferðalag alveg stórmerkilegs manns sem enn í dag er “kúltúr-íkon” í Danmörku.
Þessi mynd er um margt merkileg og kemur skemmtilega á óvart en persónulega hafði ég ekki hugmynd um það hver Eik Skaløe var áður en ég sá hana og finnst vænt um að hafa uppgötvað þennan nafna minn!
Itsi Bitsi verður næst sýnd laugardaginn 4. október í Háskólabíó.
[usr 3.5]
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.