Ímyndaðu þér mynd sem er samblanda af Breaking Bad, Lock, Stock and Two Smoking Barrels og I Kina Spiser de Hunde og þú ert næstum því komin með myndina I Can Quit Whenever I Want.
I Can Quit Whenever I Want eða Smetto Quando Voglio er ítölsk glæpa- og gamanmynd sem segir frá hinum 37 ára Pietro. Pietro vinnur við rannsóknir í taugalíffræði í háskóla á Ítalíu.
Við rannsóknir sínar hefur hann fundið upp áður óþekkta efnasameind sem hann er að vonast eftir að verði til þess að hann fái styrk og fastráðningu til að halda rannsóknum sínum við háskólann áfram. Þegar þau plön fara hinsvegar út um þúfur og Pietro er í staðinn rekinn frá háskólanum vegna fjárskorts ákveður hann að hafa samband við aðra vini sína sem allir eru eins og hann, sprenglærðir en samt sem áður ekki að vinna við neitt sem tengist þeirra sviði og eiga jafnvel erfitt með að fá vinnu á lægri stigum vegna þess að þeir eru “of hæfir”.
Myndin er skemmtilega kjánaleg og byrjunarlagið “Why Don’t You Get a Job” með The Offspring gefur góðan tón inn í myndina. Hún er samt sem betur fer kjánaleg á góðan hátt, byrjar kannski frekar hægt en tekur svo gott flug.
Þrátt fyrir öll kjánalegheitin þá er myndin nokkuð hörð samfélagsádeila og bendir á skýran hátt á það hve mettaður markaðurinn er orðinn af sprenglærðu fólki.
Oft fær þetta fólk svo ekki vinnu vegna fjárhagslega ástandsins í samfélaginu og um nær allan heim. Hún bendir á kómískan hátt á það úrræðaleysi sem þetta fólk stendur frammi fyrir þegar það finnur ekki vinnu sem hentar þeirra menntunarstigi eftir að hafa sett sig í himinháar skuldir til að borga fyrir menntun sína. Endirinn á myndinni kemur líka skemmtilega á óvart og hamrar enn frekar á þessu vandamáli sem margir standa frammi fyrir.
Karakterarnir í myndinni eru mjög vel skapaðir og það er skemmtilegt að sjá fræðimenn haga sér eins og glæpamenn og reyna að tala um saknæma og alvarlega hluti á rökrænan og lausnamiðaðan hátt. Sem verðandi mannfræðingur verð ég að segja að uppáhaldskarakterinn minn í myndinni er að sjálfsögðu mannfræðingurinn sem reynir að kenna hinum í genginu hvernig þeir eiga að haga sér eins og gangsterar með því að fylgjast með hegðun fólksins í kringum sig.
I Can Quit Whenever I Want er næst sýnd miðvikudaginn 1. október í Bíó Paradís og ég mæli með að þú skellir þér!
[usr 3.5]
Því miður finn ég ekki trailer með enskum texta en fyrir þá sem skilja ítölsku kemr þetta kannski að einhverju gagni.
[youtube]https://www.youtube.com/watch?v=seEhOShK0cc[/youtube]
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.