Free Fall er þýsk mynd sem leikstýrt er af Stephan Lacant.
Myndin fjallar um Marc, ungan lögreglumann sem enn er í þjálfun. Marc á kærustu og saman eiga þau von á barni.
Í lögregluþjálfuninni kynnist Marc hinum uppreisnagjarna Kay sem hjálpar Marc í gegnum hlaupaþjálfunina sína. Það er greinilegt frá fyrstu kynnum að það er eitthvað við Kay sem heillar Marc, eitthvað sem hann kann ekki alveg að tjá og hann ýtir Kay í burtu.
Eftir það lætur Kay flytja sig yfir í lögregludeild Marcs og þá er ekki aftur snúið, Kay og Marc fara að sofa saman og Bettinu, kærustu Marcs, fer að gruna meir og meor með hverjum deginum.
Free Fall minnir um margt á Brokeback Mountain, angistin og ástríðan er sú sama. En Free Fall gerist þó í nútímanum og í öðru samfélagi en Brokeback Mountain. Uppsetning sögunnar gerir það að verkum að ólíkt Brokeback Mountain er samúð áhorfandans ekki hjá Marc, sem sagan snýst að mestu leyti um. Hún er hjá kærustunni hans sem hann er að svíkja og hjá manninum sem hann er að nota sem sína leið út úr sínum aðstæðum.
Leið til að anda?
Marc segir á einum stað í myndinni að honum finnist hann vera að kafna og áhorfandinn fær það á tilfinninguna að Kay sé hans leið til að anda. Með Kay færir hann sig gjörsamlega út úr sínum dagsdaglegu aðstæðum, hann þarf ekki lengur að hafa áhyggjur af þjálfuninni, nýja barninu eða nýjum heimilisaðstæðum. Eftir því sem Kay opnar sig meira og samband þeirra verður alvarlega dregur Marc sig svo meira og meira til baka.
Free Fall er áhrifamikil mynd sem fær mann til þess að hugsa um samkynhneigð, tvíkynhneigð og allt þar á milli. Fordómana sem samfélagið er að kljást við og allt það sem þeir sem koma út úr skápnum þurfa að kljást við. Þó að aðalfókusinn sé á samkynhneigð finnst mér Free Fall samt líka fá mann til að velta pressunni sem er á ungu fólki, ekki aðeins í dag heldur alltaf, til þess að standa sig, starta fjölskyldu, fá góða vinnu og láta eins og allt sé alltaf fullkomið, þegar það er það í raun aldrei.
Næsta sýning af Free Fall er 1. október kl. 19:15 í Háskólabíó.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=1kjIRxfbWIQ[/youtube]
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.