Sama hvað þér mun finnast um myndina Boyhood þá er hún öðruvísi en allar aðrar kvikmyndir sem þú hefur séð. Myndin er tekin upp yfir 12 ára tímabil, frá því aðalleikarinn er 7 ára og fram til þess sem hann verður 18 ára.
Boyhood fjallar um líf Mason (Ellar Coltrane) frá því hann er barn og fram að því að hann flytur að heiman og fer í háskóla. Mason elst upp hjá einstæðri móður sinni (Patricia Arquette) með eldri systur sinni (Lorelei Linklater), hann heimsækir pabba sinn (Ethan Hawke) um helgar og fjölskyldan hans flytur oft.
Það er ekki mikið um stóra eða merkingarfulla atburði í myndinni en við fylgjumst með Mason vaxa úr grasi og fara í gegnum tilfinningar sem við upplifum flest á uppeldisárunum.
Eins og áður segir, og eins og er nokkuð týpískt fyrir leikstjórann Richard Linklater, þá gerist fátt stórt í myndinni og það tekur mann smá tíma að komast yfir þá tilfinningu að bíða eftir því að einhver deyji, einhver slasist eða bara að eitthvað svakalegt gerist sem myndin fókusar svo á, eins og gerist í flestum öðrum kvikmyndum. Vissulega gerist eitthvað og alveg eitthvað sem er nokkuð svakalegt en það er ekki dvalið við það heldur er haldið áfram og atburðirnir ekki dramatíseraðir eða einblínt á þá. Lífið heldur einfaldlega áfram.
Það hafði mikil áhrif að horfa á leikarana eldast og karakterana þroskast í gegnum myndina og það er góð tilbreyting að verða vitni að því hvernig fullorðna fólkið breyttist í gegnum árin, alltof margar kvikmyndir sýna fullorðið fólk á þann hátt að það standi nærri því í stað eftir að það útskrifast úr háskóla. Það gerði þroskaferlið og uppvöxtinn og allar tilfinningarnar sem karakterarnir upplifðu trúanlegri að sjá að það var sama manneskjan sem lék karakterinn í gegnum myndina.
Að taka upp kvikmynd í rauntíma á meðan leikararnir eldast er það brjáluð hugmynd að flestir hafa fengið hana allavega einu sinni en það þurfti Richard Linklater til að framkvæma hana. Ef þú hefur eftirlæti á öðrum kvikmyndum hans eins og Dazed and Confused eða Before-myndunum þá ætti þér að líka við þessa mynd sem fjallar einfaldlega um lífið og það hversu flókið en samt sem áður fallegt það getur verið.
Það er ein sýning af Boyhood eftir þann 5. október kl. 18:00 og ég mæli með því að þú útvegir þér miða tímanlega!
[usr 4.5]
[youtube]https://www.youtube.com/watch?v=Ys-mbHXyWX4[/youtube]
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.