Baby Blues fjallar um hina 17 ára Nataliu. Natalia er ekki ólík flestum öðrum 17 ára gömlum stelpum, hún hefur áhuga á tísku og að skemmta sér og hún á sætan kærasta sem virðist, líkt og hún sjálf, koma fáu öðru að en sínum eigin þörfum.
Natalia og Kuba, kærastinn hennar, eru hins vegar ólík vinum sínum að því leyti að þau eiga saman lítinn strák sem þau eru að ströggla við að ala upp. En þrátt fyrir að hafa viljað eignast barn kemst Natalia fljótt að því að það að eiga barn getur staðið í vegi fyrir öðrum draumum hennar, hvað þá þegar lítinn stuðning er að fá frá fólkinu í kringum hana. Fljótlega flýr Natalia svo inn í heim skemmtana, eiturlyfja og kynlífs en sú stefna á eftir að draga dilk á eftir sér.
Baby Blues er leikstýrt af hinni pólsku Karazynu Roslaniek og margir leikararnir í myndinni eru að birtast í kvikmynd í fyrsta skipti. Maður finnur vissulega fyrir því að leikurinn er ekki alltaf eins og best væri á kosið en umhverfi myndarinnar og raunsæjar tilfinningar og langanir unglinganna í myndinni ná að bæta upp fyrir það sem vantar upp á.
Myndin vekur mann til umhugsunnar um nokkuð sem mér hefur virst að hafi verið gegnumgangandi vandamál hjá ungum mæðrum lengi, það er þeim sem velja það fyrirfram að vera ungar mæður. En mér hefur virst að það sé nokkuð algengt meðal þessa hóps að ráðist sé í barneignir til þess að bæta upp fyrir tilfinningalega vöntun annars staðar í lífinu og á þá barnið á þá að fylla upp holrúm með skilyrðislausri ást sinni. Eins og sést í Baby Blues þá er þetta eitthvað sem sjaldan rætist og eðli málsins samkvæmt bæta barneignir oftast bara vandamálum við líf ungra stúlkna.
Það vantar klárlega meiri umfjöllun, stuðning og skilning með ungum foreldrum í samfélaginu, þ.e. með ungum mæðrum eða feðrum sem brotna undan álaginu sem fylgir því að eignast barn óundirbúin. Við virðumst einhvernvegin flest búast við því að fólk breyti sínum persónuleika án nokkurs erfiðis um leið og það verði foreldrar en það er mun erfiðara en að segja það að laga líf sitt að nýjum einstakling, hvað þá þegar maður er ungur og rétt byrjaður að lifa sjálfur. Fyrst og fremst vantar samt að sjálfsögðu forvarnir svo að þessi staða komi sem sjaldnast upp.
Baby Blues verður næst sýnd í dag og á morgun, 4. og 5. október í Háskólabíó en þá verður líka Q & A um myndina.
[vimeo]http://www.vimeo.com/62819570[/vimeo]
Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.