Það styttist óðum í Reykjavík Fashion Festival og þrátt fyrir miklar annir hönnuðanna sem taka þátt reyni ég að ná tali af þeim öllum, að þessu sinni situr Rebekka Jónsdóttir hönnuður REY fyrir svörum.
Segðu mér frá nýju línunni: Næsta vetrarlína REY er dökk, efnin sem áður eru mest ull, silki og leður. Nýtt hjá mér eru prjónaðar flíkur úr kashmír. Ég skoðaði mikið af svart-hvítum ljósmyndum og var með hugann mikið við dimma djúpa laxahyli. Í hönnun REY vinn ég með ósamhverfur og það hvernig efnið fellur.
Hvar lærðir þú? Ég lærði í Los Angeles, í skóla sem heitir Fashion Institute of Design and Merchandising.
Hvers vegna valdir þú að verða fatahönnuður? Hin sígilda ástæða, hef alltaf haft mikinn áhuga á fötum og tísku. Fyrsta Vogueblaðið keypti ég 12 ára, og á það enn.
Hvert stefnir þú í framtíðinni? Eins og flesta hönnuði, langar mig að sjá sem flesta í fötunum mínum. Draumurinn er að ná til stærri markhóps og bæta kannki skóm og fylgihlutum við línuna.
Hvers vegna tekur þú þátt í RFF?
Praktíska ástæðan er sú að þar gefst tækifæri til að kynna REY fyrir erlendum fjölmiðlum og kaupendum sem hátíðina sækja. Svo finnst mér sjálfri mjög gaman að setja upp sýningu. Enda er ég með 2 sýningar sama daginn, 31.3. Kiosk hópurinn sýnir á Kex-hostel fyrr um daginn og þar verður sumarlínan mín. Svo má sjá vetrarlínuna um kvöldið á RFF í Hörpunni.
Stjörnumerki og áhugamál fyrir utan tísku?
Ég er fiskur og áhugamál mitt núna er vinnan og allt sem henni tengist. En mér finnst frábært að fara á skíði og í bíó, svo les ég mikið.
Skemmtileg eða fyndin uppákoma úr tískubransanum?
Fyrsta daginn minn í NYC á tískuvikunni í fyrra varð ég næstum því fyrir bíl. Slíkt kannski ekki fátítt í New York en farþegarnir í bílnum voru Andre Leon Talley og Anna Wintour. Væri það ekki viðeigandi dauðdagi, straujuð niður af þessum skötuhjúum?
___________________________________________________________________________
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.