Spennan magnast, Reykjavík Fashion Festival nálgast..
Ég náði að grípa Borghildi Gunnarsdóttur hönnuð Milla Snorrason og spyrja hana nokkra spurninga.
Segðu mér aðeins frá nýju línunni.
Upphafshugmyndin var sú að mig langaði að vinna út frá Reykjavík á einhvern hátt sem ég hafði ekki séð áður í íslenskri fatahönnun. Ég hugsaði mikið um það hvað það væri sem mér þætti mest heillandi og sérstakt við Reykjavík og hvernig Reykvískt fegurðarskyn væri frábrugðið annarra borga. Ég ákvað að gera tvö mynstur sem væru byggð á borginni og notaði annars vegar form úr arkitektúr Guðjóns Samúelssonar (sem mér finnst vera stór þáttur í því að gera Reykjavík sérstaka og frábrugðna) og hins vegar hafnarmyndina, sjóinn, skipin og fjöllin.
Ég blandaði þessu svo við minn eigin stíl, sótti áhrif frá 3ja áratugnum fyrir silhouettu og smáatriði, notaði náttúruleg efni og fullt af litum. Útkoman er fyrsta línan undir nafninu Milla Snorrason og mjög mikilvæg því hún setur tóninn fyrir það sem koma skal. Ég ætla að halda áfram með þetta þema og fyrir hverja línu mun ég velja einn bæ eða stað á landinu til þess að vinna útfrá. Þá finnst mér mjög spennandi að finna stíl hvers staðar, eða eitthvað sem mér finnst sérstakt við hann og nota það í mína hönnun.
Hvar lærðir þú?
Í Myndlistaskóla Reykjavíkur, Listaháskóla Íslands og svo hef ég farið í starfsnám hjá Rue Du Mail, Peter Jensen og Erdem.
Hvers vegna valdir þú að verða fatahönnuður?
Vegna þess að það er það skemmtilegasta sem ég veit! Ég ætlaði samt alls ekkert alltaf að verða fatahönnuður og fór meira að segja á viðskiptabraut í Verzló því mér fannst svo praktískt að verða markaðsfræðingur eða eitthvað slíkt. En ég lærði nánast ekki neitt á þessum fjórum árum því mér fannst námið svo leiðinlegt. Í alvöru ég gæti ekki sinnt bókhaldi til að bjarga lífi mínu.
“Hún er svo fræg í fatahönnunarheiminum að ég var búin að gleyma að hún væri manneskja af holdi og blóði en ekki ein af Prúðuleikurunum.”
Hvert stefnir þú í framtíðinni?
Ég verð rosalega sátt ef ég get haldið áfram á þessari braut og komið merkinu mínu í nógu gott stand til að geta lifað. Annars líkar mér frekar illa að hugsa langt fram í tímann og einbeiti mér að því að vera sátt við daginn í dag. Ég held það sé hollara.
Hvers vegna tekur þú þátt í RFF?
Til þess að hjálpa elsku Millu Snorrason af stað.
Stjörnumerki og áhugamál fyrir utan tísku?
Ég er vatnsberi og hef áhuga á listum og sköpun í nánast öllum myndum. Einnig elska ég að þvælast um í náttúrunni að spá og spekúlera. Ég dýrka líka dýr og væri sennilega að garfa í þeirra réttindum ef ég væri ekki að hanna. Svo bara þetta týpíska að ferðast og eyða tíma með kærastanum, vinum og fjölskyldu. Fara á tónleika, í bíó, elda góðan mat og bara njóta. Svo er ég líka mjög mikið fyrir að njóta einföldu hlutanna í lífinu, drekka gott te og lesa fína bók. Ég væri líka alveg til í að nefna líkamsrækt sem áhugamál en það er ekki fallegt að ljúga.
Skemmtileg eða fyndin uppákoma úr tískubransanum?
Mér dettur ekkert mikið sniðugt í hug en mér finnst alltaf skemmtilegt hvað maður nær að kynnast frábæru fólki og eignast góða vini í þessum bransa sem á að vera svo harður og kuldalegur. Reyndar fannst mér skemmtilegt og eftirminnilegt þegar ég var baksviðs á Erdem sýningunni síðasta vetur og leit upp til að mæta andliti Önnu Wintour sem var þar í viðtali. Sem er reyndar mögulega drottning kuldalega hluta bransans. Hún er svo fræg í fatahönnunarheiminum að ég var búin að gleyma að hún væri manneskja af holdi og blóði en ekki ein af Prúðuleikurunum.
Myndir: Hanna Birna Geirmundsdóttir
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.